Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. október 2015 Dómsmálaráðuneytið

Útlendingastofnun semur við Hafnarfjarðarbæ um þjónustu við hælisleitendur

Ragnhildur Hjaltadóttir, Haraldur L. Haraldsson og Kristín Völundardóttir skrifuðu undir samninginn. - mynd
Fulltrúar Útlendingastofnunar, Hafnarfjarðarbæjar og innanríkisráðuneytisins skrifuðu í dag undir samstarfssamning um þjónustu við hælisleitendur. Samningurinn gildir til 1. mars á næsta ári og er hann liður í því hlutverki stjórnvalda að tryggja þjónustu við hælisleitendur meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. Slíkir samningar hafa áður verið gerðir við Reykjanesbæ og Reykjavíkurborg.

Samninginn undirrituðu þau Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, og Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar svo og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, sem staðfesti samninginn fyrir hönd ráðuneytisins.

Í samningnum segir að Hafnarfjarðarbær taki að sér að veita í senn allt að þremur fjölskyldum eða allt að 15 manns úrræði til búsetu. Þá getur Útlendingastofnun óskað eftir tímabundinni fjölgun ef kemur til skyndilegrar fjölgunar hælisleitenda. Fjölskylduþjónusta Hafnarfjarðar annast þjónustuna fyrir hönd bæjarins en hún snýst um að kosta fæði og gistingu hælisleitenda, veita þeim aðgang að almennri heilsugæslu og aðra þjónustu sem getið er um í viðauka samningsins. Þjónustan á grundvelli þessa samnings er veitt með hliðsjón af lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem snýr að félagslegri ráðgjöf.

Kristín Völundardóttir segir þennan samning skipta miklu máli og Haraldur L. Haraldsson segir þetta nýtt verkefni sem bærinn muni takast á við af metnaði.

 Hafnarfjarðarbær og Útlendingastofnun semja um þjónustu við hælisleitendur.

Hafnarfjarðarbær og Útlendingastofnun semja um þjónustu við hælisleitendur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum