Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. október 2015 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra í þemaumræðum á Norðurlandaráðsþingi

Forseti,
Í gegnum árin höfum við oft staðið hér á þessum vettvangi og rætt um framtíð norræns samstarfs, hvort það svari kalli tímans, hvort það skipti máli í pólitískri umræðu, og hverju það skili.

Mér sýnist hins vegar að í yfirskrift þessarar þemaumræðu sé gengið út frá því sem staðreynd að norrænt samstarf sé okkur öllum mikilvægt og því ber vissulega að fagna.

Í umræðunni fyrir réttu ári lýsti ég þeirri skoðun minni að okkur bæri að nýta betur þau sóknarfæri sem felast í norræna samstarfinu.

Skipulag samstarfsins er nefnilega sveigjanlegt og í því leynast tækifæri sem við eigum að grípa. Grundvallarhugmyndinni um norræna virðisaukann þarf að beita á fleiri viðfangsefni samfélagsins en nú er gert og það er fátt í sjálfri uppbyggingu samstarfsins sem kemur í veg fyrir að við gerum það.

Öryggismál í hefðbundnum skilningi hafa hingað til verið viðfangsefni utanríkis- og varnarmálaráðherranna. Hins vegar er það svo að á undanförnum árum hafa þeir atburðir gerst bæði á Norðurlöndum og utan þeirra sem gera það að verkum að fjalla þarf um öryggismál á annan hátt en áður.

Það er samdóma álit þeirra sem gerst þekkja að fylgjast þurfi mun betur með tilhneigingum til öfgahyggju á Norðurlöndum og hinum ýmsu birtingarmyndum hennar.

Hvatning til ofbeldis á netinu, svokallaður hryðjuverkatúrismi og endurkoma norrænna borgara sem hafa tekið þátt í hryðjuverkastarfsemi á erlendri grundu – allt eru þetta atriði sem löndin þurfa að fylgjast vel með og því eðlilegt að efna til nánara samstarfs í þessum efnum eins og Erna nefndi hér áðan.

Nýverið bundust norrænu dómsmálaráðherrarnir fastmælum um að hefja samstarf á þessu sviði á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Við sama tækifæri ákváðu ráðherrarnir að verja fjármagni til norræns verkefnis um lýðræði, aðlögun og öryggi (Demokrati, inkludering, säkerhet) sem verið hefur í undirbúningi hjá samstarfsráðherrunum og verður hleypt af stokkunum í byrjun desember.

Við verðum að vera betur vakandi fyrir hættunum sem koma innanfrá í samfélögum okkar hættum sem geta orðið að raunverulegri ógn og þar getur norræna samstarfið komið sterkt inn.

Við getum líklega öll verið sammála um að samkeppnin í hnattvæddum heimi hafi sjaldan verið eins hörð.

Á alþjóðlegum samkeppnismarkaði vilja Norðurlönd láta til sín taka og telja sig hafa margt fram að færa.

Sú skoðun nýtur nú vaxandi fylgis að Norðurlönd eigi ekki að keppa við hvert annað um athyglina á nýjum og fjarlægum mörkuðum heldur sé heillavænlegra að þau kynni sig sameiginlega sem aðlaðandi markaðssvæði þar sem búa 26 milljónir manna með sameiginlega menningu og sögu.

Þessháttar kynningarstarf (eða það sem oft er kallað „branding“) er viðfangsefni sem hentar vel að leysa á vettvangi norræna samstarfsins.

Um þessar mundir er mikill áhugi á öllu því sem norrænt er og þá ekki síst norrænni menningu. Þess er skemmst að minnast þegar Norðurlönd stóðu saman að glæsilegri menningarkynningu í Washington í samstarfi við Kennedy Center þar í borg fyrir rúmum tveimur árum.

Þessi viðburður þótti takast afar vel og það er kannski táknrænt að leitað var til allra landanna sameiginlega um þessa kynningu. Þá kom vel í ljós sá styrkur sem felst í því að eiga öflugt og þétt svæðasamstarf eins og það norræna.

Norræna ráðherranefndin hefur nú mótað sameiginlega kynningarstefnu fyrir Norðurlönd og sett hefur verið fjármagn í að framkvæma hana með ýmsum kynningarverkefnum.

Fróðlegt verður að fylgjast með þessari vinnu á næstu misserum.

Við Íslendingar nýttum síðasta formennskuár okkar í Norrænu ráðherranefndinni til þess að ýta úr vör viðamiklu verkefni um norrænt lífhagkerfi (NordBio).

Með mikilli einföldun má segja að hugmyndafræði lífhagkerfisins gangi út á það að sem minnstu sé sóað af lifandi auðlindum okkar, nánast allt skuli nýtt og ekkert megi fara í súginn. Þetta eru grunnhugmyndir sem þarf að innleiða í alla framleiðslu og neyslu.

Verkefnið, sem var það stærsta af formennskuverkefnum okkar heldur áfram út árið 2016 en það er von okkar að svokallaður Bio-panell sem skipaður er færustu vísindamönnum Norðurlanda á þessu sviði muni taka við keflinu þannig að áherslan á lífhagkerfið verði að fastri stærð í norrænu samstarfi.

Flest ríki eru nú að móta sér stefnu í þessum málum, eða hafa þegar gert það - á vettvangi ESB og Sameinuðu þjóðanna fer fram mikil vinna sem miðar að því að byggja upp öflug lífhagkerfi framtíðarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar að með sama hætti og við á sínum tíma mótuðum sameiginlega stefnu um sjálfbær Norðurlönd þá eigum við að taka á þessu verkefni sameiginlega – í því felst augljós norrænn virðisauki þar sem viðfangsefnið er hið sama óháð því hvaða land á í hlut.

Forseti,
Flóttafólk og annað förufólk streymir nú til Evrópu þ.m.t. til Norðurlanda sem aldrei fyrr. Ég ætla ekki að rekja orsakir þessara sögulegu viðburða hér. Þær ættu að vera okkur ljósar.

Áskorunin er mikil og vandinn fordæmalaus. Ég tel að við getum eflt samstarf okkar einnig hvað þessa áskorun varðar. En þar setja illa ígrundaðar og mótsagnakenndar aðgerðir og aðgerðaleysi ESB strik í reikninginn.

Ég hef lagt áherslu á að mikilvægt sé að nálgast flóttamannavandann á heildstæðan hátt og í náinni samvinnu ríkja.

Norrænt samstarf er vel skipulagt og hefur margsinnis sýnt að það getur brugðist hratt og vel við nýjum áskorunum – því tel ég einboðið að sá vettvangur geti nýst okkur vel í þessum efnum.

Ég þakka áheyrnina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum