Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. október 2015 Innviðaráðuneytið

Áætluð framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 2015

Innanríkisráðherra hefur samþykkt eftirfarandi tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um áætlaðar úthlutanir framlaga á árinu 2015

Tekjujöfnunarframlög

Ráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um áætlaða úthlutun tekjujöfnunarframlaga á árinu 2015 á grundvelli 12. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 960/2010. Að teknu tilliti til ráðstöfunarfjármagns sjóðsins nemur áætluð heildarfjárhæð framlaganna 1.247,1 m.kr. og tekur jöfnunin mið af 95,2% af meðaltekjum á íbúa í viðkomandi viðmiðunarflokki framlaganna.

Við útreikning framlaganna er gengið út frá hámarkstekjumöguleikum sveitarfélaga af útsvari og fasteignaskatti. Einungis kemur til greiðslu framlags hafi sveitarfélag fullnýtt heimild sína til álagningar útsvars.

Þann 29. október koma ¾ hlutar af áætluðum framlögum til greiðslu eða samtals 935,3 m.kr. Uppgjör framlaganna fer fram í desember á grundvelli leiðréttrar skrár um álagðar skatttekjur sveitarfélaga.

Sérstök viðbótarframlög vegna þjónustu við fatlað fólk 2015

Ráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um áætlaða úthlutun sérstaks viðbótarframlags á árinu 2015 vegna þjónustu við fatlað fólk að fjárhæð 175,0 m.kr.

Á grundvelli 4. gr. reglugerðar nr. 631/2015 um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2015 er heimilt að greiða sérstök viðbótarframlög til þjónustusvæða/sveitarfélaga, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, til að koma til móts við þau þjónustusvæði/sveitarfélög þar sem um verulega íþyngjandi kostnað er að ræða við rekstur málaflokksins á árinu 2015 umfram tekjur. Við útreikning og úthlutun sérstakra viðbótarframlaga á árinu 2015 er jafnframt heimilt að taka tillit til íþyngjandi kostnaðar þjónustusvæða vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna mikilla fjarlægða innan þjónustusvæða.

Helmingur framlagsins kemur til greiðslu 29. október en framkvæmd endanlegs útreiknings framlagsins fer fram í desember þegar endanleg framlög ársins vegna þjónustu við fatlað fólk 2015 liggja fyrir.

Útreikningur framlagsins byggist á eftirfarandi forsendum:

1. Lækkun framlaga milli áranna 2014 og 2015.

2. Fjarlægðum milli sveitarfélaga innan hvers þjónustusvæðis fyrir sig.

3. Fjölda sveitarfélaga innan hvers þjónustusvæðis þar sem veitt eru framlög vegna þjónustu við fatlaða þjónustunotendur.

4. Þróun framlaga frá upphafi yfirfærslu 2011.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum