Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. nóvember 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Verðendurskoðun lækkar lyfjakostnað um nærri 800 milljónir króna

Lyf
Lyf

Nýafstaðin endurskoðun lyfjagreiðslunefndar á verði lyfseðilsskyldra lyfja hér á landi leiðir til lækkunar lyfjaverðs sem áætlað er að nemi samtals um 773 milljónum króna á ári. Lækkunin leiðir til lægri útgjalda sjúkratrygginga og lækkar einnig kostnað sjúklinga.

Í lyfjalögum er kveðið á um það markmið að lyfjakostnaði hér á landi skuli haldið í lágmarki. Á grundvelli þess er lyfjagreiðslunefnd falið að sjá til þess að lyfjaverð sé að jafnaði sambærilegt við verð í viðmiðunarlöndum á Evrópska efnahagssvæðinu, sem eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, líkt og fram kemur í reglugerð um lyfjagreiðslunefnd nr. 353/2013.

Verðsamanburðurinn tekur til allra lyfesðilsskyldra lyfja í lyfjaverðskrá, jafnt apótekslyfja og sjúkrahúslyfja, samtals 2.985 vörunúmera. Samanburður á apótekslyfjum byggist á meðalverði í viðmiðunarlöndunum fjórum en tekur mið af lægsta verði á sjúkrahúslyfjum í sömu löndum.

Þann 1. júlí  sl. tóku gildi lækkanir á sjúkrahúslyfjum í kjölfar endurskoðunar lyfjagreiðslunefndar á verði þeirra. Áætlað er að lyfjakostnaður sjúkratrygginga lækki við það um 186 milljónir kr. á ársgrundvelli.

Verðendurskoðun á  apótekslyfjum var skipt í tvo áfanga, verðlækkanir vegna fyrri áfangans tóku gildi 1. júní sl. og vegna seinni áfangans þann 1. október sl. Áætluð lækkun lyfjakostnaðar vegna fyrri áfangans er um 273 milljónir króna og vegna seinni áfangans um 314 milljónir króna á ársgrundvelli. Samtals mun því kostnaður vegna apótekslyfja lækka um 587 milljónir kr. sem skiptist á milli sjúkratrygginga og sjúklinga.

Allar upphæðir miðast við heildsöluverð með virðisaukaskatti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum