Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. desember 2015 Utanríkisráðuneytið

Samráð um fiskveiðar í Norður-Íshafi

Fram fóru í vikunni viðræður um mögulegt samstarf um rannsóknir og stjórnun fiskveiða í Norður-Íshafi. Bandaríkin boðuðu til fundarins sem fram fór í Washington. Auk Íslands sóttu fundinn Noregur, Rússland, Kanada, Danmörk f.h. Grænlands, ESB, Japan, Kína og Suður-Kórea.

Loftslagsbreytingar stuðla að hlýnun sjávar á norðurslóðum og geta leitt til þess í framtíðinni að alþjóðleg hafsvæði í Norður-Íshafi sem nú eru hulin ís verði aðgengileg til nýtingar, meðal annars til veiða. Á fundinum var lögð áhersla á mikilvægi þess að byggja upp vísindalega þekkingu um lífríki á svæðinu áður en nokkrar veiðar hæfust og eflingu samstarfs ríkja á þeim vettvangi. Einnig var rætt um með hvaða hætti best yrði komið í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar á því svæði sem ekki lýtur þegar stjórn Norðausturatlantshafs fiskveiðinefndarinnar - NEAFC.

Um er að ræða framhald á samráði milli Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands, Danmerkur og Noregs sem gáfu frá sér yfirlýsingu í júlí sl. þar sem ríkin skuldbundu sig til að heimila ekki fiskveiðar á svæðinu fyrr en fullnægjandi vísindaleg þekking liggur fyrir. Íslensk stjórnvöld gerðu þá athugasemdir við að vera ekki aðilar að samráðinu, enda hagsmunir Íslands á hafsvæðinu ríkir. Um könnunarviðræður var að ræða á þessum fyrsta fundi og eru frekari fundir fyrirhugaðir á næsta ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum