Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. desember 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fjölsóttur viðburður Íslands um landgræðslu á COP21

Framsögumenn tóku þátt í umræðum í lok fundar.

Húsfyllir var á viðburði Íslands um landgræðslumál sem haldinn var í norræna skálanum á Parísarfundinum um loftslagsmál (COP21) í dag. Á fundinum var m.a. rætt um hvernig landeyðing og hlýnun jarðar spila saman og hversu mikilvæg landgræðsla er sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, bauð gesti velkomna og fjallaði m.a í ávarpi sínu um hvernig Íslendingar hafa stundað landgræðslu í gegn um tíðina til að berjast gegn landeyðingu. Þá nefndi hún samstarf landsins við alþjóðastofnanir á sviði landgræðslu og mikilvægi þess að huga að jafnréttissjónarmiðum þegar unnið er að endurheimt lands.

'' Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, bauð gesti velkomna.

Að loknu ávarpi hennar tók til máls Monique Barbut, framkvæmdastýra eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna. Hún ræddi m.a. um mikilvægi þess að ekki tapist meira land en það sem er endurheimt, sem er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Hún benti jafnframt á þá möguleika sem felast í endurheimt lands til að ná markmiðum um samdrátt í nettólosun gróðurhúsalofttegunda.

Damdin Davgadorj, sérfræðingur um landeyðingu frá Mongólíu, sagði frá ástandi mála þar í landi og þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í til þess að endurheimta land og stöðva landrofið. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri fjallað um landgræðslustarf á Íslandi og loks sagði Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna, frá því hvernig skólinn vinnur að þjálfun fólks í þróunarlöndum á sviði landgræðslu.

Fólk frá öllum heimshornum sótti viðburðinn og voru líflegar umræður í kjölfar erinda framsögumanna. Fundarstjóri var Hugi Ólafsson, formaður samninganefndar Íslands í loftslagsmálum.

Fundurinn var fjölsóttur.

Desertification and Land Restoration – The Climate Connection - upptaka frá viðburðinum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum