Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. desember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Rúnar Helgiskipaður forstöðumaður Fjölmenningarseturs

Rúnar Helgi Haraldsson
Rúnar Helgi Haraldsson

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað Rúnar Helga Haraldsson forstöðumann Fjölmenningarseturs til fimm ára, frá 1. janúar næstkomandi. Rúnar Helgi hefur starfað sem settur forstöðumaður stofnunarinnar frá 1. desember 2014.

Rúnar Helgi er mannfræðingur og kennari að mennt. Hann lauk B.A. prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 1993, árið 1994 lauk hann kennaraprófi frá Háskóla Íslands og árið 1995 útskrifaðist hann með meistaraprófsgráðu í heilbrigðismannfræði frá SOAS háskólanum í London (The School of Oriental and African Studies). Auk þessa stundaði Rúnar Helgi diplómanám í geðmeðferðarfræði við háskólann í Sheffield. Rúnar Helgi hefur stundað kennslu- og fræðastörf um árabil og m.a. komið að skipulagi námsbrautar í samfélagstúlkun í samstarfi við Fjölmenningarsetur.

Fjölmenningarsetrið starfar á grundvelli laga um málefni innflytjenda. Hlutverk þess er m.a. að veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við málefni innflytjenda og vera sveitarfélögum til ráðgjafar við að taka á móti innflytjendum sem flytjast í viðkomandi sveitarfélag. Fjölmenningarsetri er einnig ætlað að taka saman og miðla upplýsingum um réttindi og skyldur innflytjenda, fylgjast með þróun innflytjendamála í þjóðfélaginu og koma á framfæri við ráðherra, innflytjendaráð og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir sem hafa það að markmiði að allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu óháð þjóðerni og uppruna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum