Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. desember 2015 Forsætisráðuneytið

Sterkara samfélag á Norðurlandi vestra

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun að styrkja innviði, atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra með margvíslegum aðgerðum. Markmiðið með þeim er að skapa þjóðhagslegan ávinning og aðstæður svo góðum framtíðarstörfum á svæðinu fjölgi.

Tilgangur aðgerðanna er að snúa við neikvæðri byggðaþróun á Norðurlandi vestra og efla mannlíf. Íbúum hefur fækkað mikið á undanförnum áratugum og útsvarstekjur sveitarfélaganna af hverjum íbúa eru lægri en landsmeðaltal. Menntunarstig er lægra og hagvöxtur minni.

Norðurland vestra hefur ekki notið góðs af sértækum aðgerðum stjórnvalda á undanförnum árum, ólíkt Vestfjörðum (2011), Austurlandi (2012) og Suðurlandi (2013). Þá hafa stjórnvöld gert fjóra ívilnunarsamninga vegna nýfjárfestinga á Suðurnesjum frá árinu 2010.

Ríkisstjórnin telur mikilvægt að stuðla að byggð í öllu landinu og tryggja jafnræði milli landshluta. Aðgerðirnar sem samþykktar voru á ríkisstjórnarfundi í morgun eru liður í því. Ráðgert er að störfum á Norðurlandi vestra fjölgi um 30 vegna aðgerðanna, sem eru þessar:

Verkefni Lýsing
Fjölgun verkefna við Háskólann á Hólum

Skólanum verði falið að varðveita og bæta ásýnd Hóla í Hjaltadal sem sögu- og ferðamannastaðar, kynna sögu staðarins, gæta sögulegra minja og skapa gott umhverfi fyrir afmarkaða starfsemi, t.d. á sviði ferðaþjónustu og safna- og menningarstarfs.
Fjölbreyttara nám við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra Menntun á sviði matvælavinnslu, sláturiðnaðar o.fl. verði efld.
Atvinnu- og nýsköpunarsjóður fyrir Norðurland vestra Stuðningskerfi við frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja vinna að nýsköpun verði eflt með stofnun atvinnu- og nýsköpunarsjóðs fyrir Norðurland vestra.
Nýsköpunar- og frumkvöðlasetri komið á laggirnar á Sauðárkróki Vinnuaðstaða verði sköpuð á Sauðárkróki fyrir frumkvöðla, enda séu verkefni þeirra líkleg til að efla byggðaþróun, fjölga atvinnutækifærum og auka fjárfestingar á svæðinu.
Aðstaða Landhelgisgæslunnar bætt Vegna aukinnar skipaumferðar fyrir Norðurlandi hefur verkefnum Landhelgisgæslunnar fjölgað á svæðinu. Kannaður verður ávinningur þess að koma upp varanlegri starfsstöð og heimahöfn fyrir eitt skip Landhelgisgæslunnar á Sauðárkróki, þar sem m.a. verði horft til eftirlits- og björgunargetu á svæðinu og viðbragðsgetu vegna mengunarslysa.
Rannsóknir á selastofninum auknar Þörf er á frekari rannsóknum á selastofnum við Ísland. Selasetrið á Hvammstanga hefur annast selarannsóknir fyrir Hafrannsóknarstofnun á undanförnum árum.
Starfsemi Fæðingarorlofs-sjóðs efld Mikilvægt er að efla starfsemi Fæðingarorlofssjóðsog liður í því er að sinna betur eftirliti með greiðslum úr sjóðnum. Störfum verði fjölgað til að sinna verkefninu.
Hvíldarinnlagnir á Heilbrigðisstofnunum Vesturlands og Norðurlands Hvíldarrýmum við Heilbrigðisstofnanir Vesturlands á Hvammstanga og Norðurlands á Sauðarkróki verði fjölgað þar sem sjúklingum bjóðist hvíldarinnlögn, t.d. að lokinni aðgerð eða annarri læknismeðferð.
Áreiðanleikakönnun á hagkvæmni lífdísil-framleiðslu á Blönduósi

Framleiðsla á lífdísil úr dýrafitu hefur verið til skoðunar í Austur-Húnavatnssýslu. Framkvæma þarf áreiðanleikakönnun á hagkvæmni slíkrar starfsemi, sem gæti átt samleið með annarri atvinnustarfsemi á svæðinu.

Aukin starfsemi þekkingarseturs á Blönduósi

Markmið þekkingarsetursins er að stuðla að aukinni fjölbreyttni atvinnulífs með fræðslustarfi, eflingu háskólamenntunar, vísindarannsóknum og nýsköpunarstarfi. Bæta aðgengi að námi og aðstoða rannsóknarnema og vísindamenn við að koma á tengslum og útvega aðstöðu til vísindastarfs auk þess að stuðla að auknu samstarfi og samþættingu menntunar, rannsókna og fræðastarfs.
Miðstöð fyrir frumkvöðla í matvælavinnslu komið á laggirnar Sköpuð verði aðstaða fyrir frumkvöðla í matvælavinnslu og lítil fyrirtæki til að stunda vöruþróun og hefja smáframleiðslu á matvælum gegn vægu leigugjaldi, í samstarfi við Háskólann á Akureyri og BioPol ehf. á Skagaströnd. Ráðgert er að miðstöðin hafi öll tilskilin leyfi og tækjabúnað til matvælavinnslu.

Viðhaldsframkvæmdir við Kvennaskólann á Blönduósi

Skólabyggingin er komin til ára sinna og viðhaldsþörf er brýn. Þekkingasetur er til húsa í byggingunni, sem er farin að standa starfseminni fyrir þrifum vegna slælegs ástands, auk þess sem húsið er friðað.

Starfsstöð Minjastofnunar Íslands á Sauðárkróki verði falin aukin verkefni

Eftirlit með framvindu verkefna sem fá styrk úr húsafriðunar- og fornminjasjóði verði á ábyrgð starfsstöðvar á Sauðárkróki. Hún fái umsjón með rannsókna sem ætlað er að staðfesta umfang og eðli minja, halda heildarskrár um friðaðar og friðlýstar fornleifar, mannvirki o.fl. Hafin verði vinna við að efla og samþætta minja- og safnastarf á Norðvesturlandi.
Nýtt skjalasafn utanríkisráðuneytisins Vegna fækkunar starfsfólks í sendiskrifstofum Íslands erlendis hefur nauðsynleg skjalaumsýsla setið á hakanum. Ráðgert er að færa umsýsluna til nýrrar starfsstöðvar þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins á Sauðárkróki.

Ofangreindar aðgerðir byggja á tillögum landshlutanefndar fyrir Norðurland vestra og umsögnum viðeigandi ráðuneyta. Áætlaður kostnaður vegna þeirra er 316 milljónir króna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra:

“Ég fagna þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem er eðlilegt framhald af aðgerðum víða um land í þeim tilgangi að styrkja byggð í landinu öllu. Allir landshlutar hafa mikilvægu hlutverki að gegna fyrir heildina og stjórnvöld eiga að taka tillit til ólíkra þarfa á hverju svæði fyrir sig. Þannig styrkjum við samfélagið allt.”

Meðfylgjandi er skýrsla sem var unnin af norðvesturnefndinni og var skilað til forsætisráðherra. Í skýrslunni eru 25 tillögur nefndarinnar. Eftir að hafa leitað umsagna fagráðuneyta og haft samráð við meirihluta fjárlaganefndar voru lagðar fram 15 tillögur ásamt umsögnunum til lokaumfjöllunnar og samþykktar ríkisstjórnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum