Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. janúar 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra veitir 45 milljónir til að styrkja þjónustu BUGL

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur veitt 45 milljóna króna styrk til að efla þjónustu göngudeildar barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) við börn sem þurfa þjónustu vegna alvarlegra geðrænna einkenna, s.s. þunglyndis, sjálfsvígshugsana og sjáfskaðandi hegðunar. Ráðherra tilkynnti Landspítala um fjárveitinguna í lok nýliðins árs.

Styrkurinn er veittur á grundvelli tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem ráðherra lagði fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi. Þar kemur m.a. fram að um 120 börn bíði eftir þjónustu BUGL og að meðalbiðtími eftir þjónustu sé um níu mánuðir. Mikilvægt sé að stytta biðina og sinna betur ungum börnum og fjölskyldum þeirra. Vísað er til þess að fjöldi rannsókna sýni að snemmtæk inngrip skili mestum árangri og að meðferð taki skemmri tíma en ella ef fljótt er brugðist við.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni er miðað við að efla þjónustu á göngudeild BUGL með 29 milljóna króna auknu framlagi á ári í þrjú ár; 2017 – 2019. Kristján Þór segir ánægjulegt að geta aukið fjármuni til að ráðst í þetta verkefni fyrr en áætlað var: „Það er alvarlegt þegar börn og foreldrar þeirra þurfa að bíða mánuðum saman eftir mjög brýnni þjónustu eins og hér um ræðir. Slík bið er erfið barninu og fjölskyldunni og getur reynst afdrifarík. Ég vonast til að með þessu aukna framlagi verði unnt að vinda ofan af þeim vanda sem skapast hefur á BUGL og bæta þjónustuna til muna á næstu mánuðum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum