Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. janúar 2016 Forsætisráðuneytið

609/2016. Úrskurður frá 18. janúar 2016

Úrskurður

Hinn 18. janúar 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 609/2016 í máli ÚNU 13120008.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 14. desember 2013 kærði A ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands dags. 15. nóvember 2013 um rétt til aðgangs að gögnum og skjölum, sem tengjast Kaupþingi banka.

Gagnabeiðni kærenda, dags. 4. nóvember 2011, var sett fram á grundvelli 3. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 9. gr. laga um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985 og 5. mgr. 17. gr. laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða nr. 142/2008. Óskað var eftir aðgangi að öllum gögnum og skjölum sem tengdust Kaupþingi, hvort sem væri á rafrænu eða prentuðu formi, sem rannsóknarnefnd Alþingis aflaði eða hafði undir höndum í tengslum við gerð skýrslu sinnar. Beiðninni fylgdi viðhengi þar sem sérstaklega voru tilgreind gögn sem óskað var eftir að Þjóðskjalasafn gerði aðgengileg.

Þjóðskjalasafn synjaði beiðni kærenda með vísan til 1. mgr. 2. gr. eldri upplýsingalaga en úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísaði tilteknum liðum hennar aftur til safnsins til efnislegrar umfjöllunar með úrskurði nefndarinnar nr. A-480/2013 frá 3. maí 2013. Með hinni kærðu ákvörðun Þjóðskjalasafns dags. 15. nóvember 2013 var kærendum veittur aðgangur að tilteknum gögnum en synjað um aðgang að gögnum undir eftirfarandi liðum:

  • Fundur bankastjórnar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins með stjórnendum bankanna, dags. 25. apríl 2008.

  • Fundur Seðlabanka Íslands með Kaupþing banka, dags. 13. febrúar 2008.

  • Fundur Seðlabanka Íslands með Yves Mersch, Nicolas Weber og Frank Bisdorff, dags. 4. júlí 2008.

  • Kynning á lánaumsókn Exista fyrir lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. og fundargerð lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf., dags. 12. febrúar 2007.

  • Lánaumsókn til lánanefndar Kaupþingssamstæðunnar, dags. 20. desember 2007, þar sem fjallað er um málefni Giftar fjárfestingafélags.

  • Lánaumsókn til lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf., dags. 30. janúar 2008, þar sem fjallað er um málefni Oscatello fjárfestingafélags.

  • Minnisblað Ingimundar Friðrikssonar, dags. 13. október 2008.

Að mati Þjóðskjalasafns féllu gögn af fundum Seðlabanka Íslands í heild sinni undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001. Með vísan til ákvæðisins, 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 og gagnályktunar frá 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 var beiðni kærenda um aðgang að þeim hafnað. Sama átti að mati Þjóðskjalasafns við um minnisblað Ingimundar Friðrikssonar dags. 13. október 2008.

Þjóðskjalasafn synjaði kærendum um aðgang að kynningu á lánaumsókn Exista og umbeðnum lánaumsóknum með vísan til þess að þessi gögn féllu í heild sinni undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. 58. gr., 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 og gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga.

Loks kom fram í hinni kærðu ákvörðun að ársreikningar Kaupþings frá árunum 2005 til 2008 og síðustu tveir árshlutareikningar ársins 2008 hafi ekki fundist á Þjóðskjalasafni þrátt fyrir ítarlega leit.

Í kæru segir að synjun Þjóðskjalasafns Íslands sé í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og ákvæði upplýsingalaga, sér í lagi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 140/2012. Rétt hefði verið að veita aðgang að hluta umbeðinna fundargerða. Synjun safnsins megi skipta í þrjá hluta, þ.e. í fyrsta lagi á aðgangi að fundargerðum Seðlabanka Íslands, í annan stað að lánaumsóknum og upplýsingum um lánveitingar Kaupþings banka og í þriðja lagi minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar.

Um fyrsta liðinn taka kærendur fram að þagnarskylduákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 sé tvíþætt og innifeli bæði almenna og sérstaka þagnarskyldu. Almenni hlutinn snúi að því að tilteknir starfsmenn bankans lúti þagnarskyldu um „önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls“. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi lýst sérstaka hlutanum sem þeim hluta er varði hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs. Skýra verði umfang sérstaka hluta þagnarskyldunnar þröngt í ljósi meginsjónarmiða að baki stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. Hugtakið málefni bankans geti þannig ekki varðað hvers konar málefni er varði fjármálaumhverfi heimsins eða Íslands, heldur verði gagnið að varða Seðlabanka Íslands sérstaklega. Að mati kærenda gefur lýsing Þjóðskjalasafns Íslands á fundargerðunum til kynna að umfjöllun þeirra geti ekki talist heyra undir hið sérstaka þagnarskylduákvæði sem snúi að málefnum bankans sjálfs. Sama eigi við um lýsingu safnsins á minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar.

Kærendur mótmæla því að lánaumsóknir og fundargerðir lánanefndar Kaupþingssamstæðunnar falli í heild sinni undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Eyða megi út eða strika yfir persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. nöfn viðskiptamanna bankans. Gögnin hafi að geyma ýmsar upplýsingar sem skipti kærendur máli. Í mörgum tilvikum séu viðskiptaaðilar ekki lengur til og því engir sérstakir hagsmunir til að vernda.

Loks taka kærendur fram að upplýsingarnar sem beiðnin sneri að hafi verið gerðar opinberar beint eða óbeint í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Trúnaðarreglur og þagnarskylda geti því ekki gilt um þær burtséð frá því hvort svo hafi verið á einhverjum tímapunkti. Þá sé Kaupþing undir stjórn skilanefndar og hafi enga hagsmuni af því að umbeðin gögn fari leynt. Takmarkanir 6.-10. gr. upplýsingalaga eigi því ekki við um þau.

Málsmeðferð

Kæran var send Þjóðskjalasafni Íslands til umsagnar með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 5. október 2015, en mistök við skráningu erindis kærenda ollu því að það var ekki gert fyrr. Umsögn safnsins barst þann 20. október 2015 ásamt afritum af umbeðnum gögnum. Í umsögninni er fjallað um lög 142/2008 og hlutverk rannsóknarnefndar Alþingis. Í 5. mgr. 17. gr. komi fram að gögn sem aflað var vegna rannsóknarinnar skuli færð á Þjóðskjalasafn, og um aðgang að þeim fari samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Samkvæmt 9. gr. laganna sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þá geti sérákvæði laga um þagnarskyldu takmarkað rétt til aðgangs að lögum, sbr. gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Í málinu komi helst til greina þagnarskylduákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, 1. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.

Þjóðskjalasafn nefnir að rannsóknarnefnd Alþingis hafi verið fengnar víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar í þágu rannsóknar sinnar með lögum nr. 142/2008. Í 6. gr. laganna sé kveðið á um skyldu til að verða við kröfu nefndarinnar að láta í té upplýsingar og skyldu einstaklinga til að mæta fyrir nefndina til að veita upplýsingar óháð því hvort þær væru háðar þagnarskyldu.

Varðandi þá málsástæðu kærenda að Þjóðskjalasafn hafi ekki veitt aðgang að hluta umbeðinna fundargerða tekur stofnunin fram að þetta atriði hafi sérstaklega verið tekið til athugunar við efnislegt mat á þeim. Þrátt fyrir að oft sé nægjanlegt að afmá nöfn og önnur persónugreinanleg auðkenni, þannig að upplýsingar sem eftir standa verði ekki raktar til viðkomandi aðila, hafi sú leið ekki verið fær. Bróðurpartur þeirra upplýsinga sem fram koma í hverri fundargerð fyrir sig vísi beint eða óbeint til þess viðskiptamanns Kaupþings banka hf. sem var til umfjöllunar á viðkomandi fundi.

Þjóðskjalasafn mótmælir fullyrðingum kærenda sem lúta að því að safnið hafi sagt fundargerðir Seðlabanka Íslands innihalda „almennar upplýsingar um vanda íslenska bankakerfisins.“ Safnið fellst á þá túlkun kærenda að ákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 geymi bæði almennt og sérstakt þagnarskylduákvæði. Hún breyti því þó ekki að innihald fundargerðanna og minnisblaðs Ingimundar Friðrikssonar sé með þeim hætti að upplýsingarnar varði hagi viðskiptamanna Seðlabankans og Seðlabankann sjálfan.

Þjóðskjalasafn tekur fram að ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 gildi um upplýsingar sem fram komi í gögnum rannsóknarnefndar Alþingis óháð því hvort annar lögaðili hafi tekið yfir réttindi og skyldur upphaflega aðilans. Þá geti sú staðreynd að rannsóknarnefnd Alþingis hafi stuðst við tiltekið gagn í störfum sínum ekki leitt til þess að sérstök þagnarskylda yfir því falli niður gagnvart öðrum en nefndarmönnum og starfsmönnum nefndarinnar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 329/2014 og úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. A-546/2014. Loks er efni umbeðinna gagna rakið stuttlega og gerð grein fyrir ákvörðun safnsins um rétt kærenda til aðgangs að hverju þeirra. Með vísan til 1. og 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir óþarft að rekja efni umsagnar Þjóðskjalasafns frekar.

Umsögn Þjóðskjalasafns var kynnt kærendum með bréfi dags. 28. október 2015 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 18. nóvember 2015. Kærendur telja rétt að hafa í huga að 9. gr. upplýsingalaga beri að túlka þröngt þar sem takmörkun ákvæðisins sé undantekning frá meginreglu laganna um aðgang að gögnum, sbr. greinargerð með frumvarpi til laganna. Kærendur ítreka að ef eingöngu hluti skjals fellur undir 9. gr. sé rétt að veita aðgang að öðrum hlutum þess.

Kærendur telja rétt að veita aðgang að hluta fundargerðar, jafnvel þó eingöngu sé staðfest að fundur hefði átt sér stað, hvar hann hefði verið og hvenær hann hefði byrjað og endað. Þessar upplýsingar hafi þýðingu fyrir kærendur. Leggja beri áherslu á meginreglu upplýsingalöggjafar á Íslandi að veita beri almenningi aðgang að gögnum og skjölum hjá stjórnvöldum. Þá sé hægt að veita aðgang að hluta skjals þannig að fram komi hverjir hafi sótt tiltekna fundi lánanefndar og þess háttar. Um minnisblað Ingimundar Friðrikssonar segja kærendur að það sé eðlisólíkt fundargerðum og gögnum frá lánanefndum Kaupþings. Lítið svigrúm sé til að takmarka aðgang að minnisblaðinu, sérstaklega í ljósi erinda sem Ingimundur hafi síðar haldið um orsakir hrunsins og málefni er varði Seðlabankann.

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar aðgang kærenda að gögnum um Kaupþing banka hf. og Seðlabanka Íslands á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Heimild kærenda til að kæra synjun Þjóðskjalasafns er að finna í 20. gr. upplýsingalaga.

Í 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Í 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga er tekið fram að almenn ákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá þessu ákvæði verður hins vegar að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður öðrum lagaákvæðum um upplýsingaskyldu. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir „efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga“ eins og segir í skýringum við 4. gr. frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum. Samsvarandi skýringar var og að finna við 2. gr. frumvarps til eldri upplýsingalaga nr. 50/1996.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar í fyrri úrskurðum að ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 teljist sérákvæði laga um þagnarskyldu í skilningi 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Þagnarskylda ákvæðisins er því víðtækari, þ.e. gengur lengra, en þær takmarkanir sem 6.-10. gr. upplýsingalaga mæla fyrir um. Að því leyti sem ákvæðið tilgreinir ekki með nákvæmum hætti þær upplýsingar sem ber að gæta trúnaðar um felur það í sér almenna reglu um þagnarskyldu sem takmarkar ekki rétt til aðgangs samkvæmt upplýsingalögum. Í þeim tilvikum verður þó að hafa hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga við mat á því hvort upplýsingar séu undanþegnar upplýsingarétti.

Í dómi Hæstaréttar Íslands 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 felist regla um sérstaka þagnarskyldu en ekki almenna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur byggt á því að þagnarskyldan sé sérgreind með þeim hætti að hún nái til alls sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs og annars þess sem starfsmenn bankans fá vitneskju um í starfi og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Með þessu er þó ekki sagt að hvaðeina sem bankanum tengist með einum eða öðrum hætti falli undir þagnarskylduna. Orðalagið „málefni bankans sjálfs“ verður ekki túlkað svo rúmt að þar falli undir hvers kyns upplýsingar um það lagaumhverfi eða reglur sem Seðlabanki Íslands starfar eftir. Undir orðalagið kunna að falla upplýsingar um fjárhagsleg málefni eða fjárhagslegar ráðstafanir bankans, um beinar ákvarðanir sem varða starfsemi hans eða undirbúning þeirra og eftir atvikum aðrar upplýsingar sem telja má eðlilegt að leynt fari. Vísast um þetta til úrskurða nefndarinnar nr. A-406/2012, 558/2014 og 582/2015.

Þagnarskylda samkvæmt framangreindum lagaákvæðum færist yfir á Þjóðskjalasafnið vegna upplýsinga sem stofnunin hefur tekið við.

2.

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 582/2015 frá 15. maí 2015 var meðal annars fjallað um rétt til aðgangs að tveimur þeirra þriggja fundargerða sem kærendur krefjast aðgangs að. Í málinu var deilt um ákvörðun Seðlabanka Íslands að synja erlendum vátryggingafélögum um aðgang að gögnum í 23 töluliðum. Komist var að þeirri niðurstöðu að fundargerðir af fundi bankastjórnar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins með stjórnendum bankanna, dags. 25. apríl 2008, og fundi Seðlabanka Íslands með Yves Mersch o.fl. dags. 4. júlí 2008, væru háðar þeirri sérstöku þagnarskyldu sem 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 kveður á um. Niðurstaðan byggðist á því að þær hefðu að geyma umfangsmiklar upplýsingar um fjárhagsleg málefni Seðlabankans og viðskiptamanns hans Landsbanka Íslands hf., en sömu sjónarmið eiga við um Kaupþing banka, fjárhagslegar ráðstafanir Seðlabankans, beinar ákvarðanir sem varða starfsemi hans og undirbúning þeirra og aðrar upplýsingar sem telja má eðlilegt að leynt fari. Með vísan til þess hversu víða í gögnunum upplýsingar koma fram sem undanþegnar eru upplýsingarétti taldi úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendu til þess að kveða á um skyldu til að veita kærendum aðgang að hluta þeirra.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál eru ekki komnar fram röksemdir í máli þessu sem leiða til öndverðrar niðurstöðu um rétt kærenda til aðgangs að fundargerðunum. Þá eiga sömu sjónarmið við um fundargerð af fundi bankastjórnar Seðlabankans með Kaupþingi dags. 13. febrúar 2008. Þar sem allar fundargerðirnar lúta trúnaðarskyldu skv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001, sem er sérstakt þagnarskylduákvæði, taka upplýsingalög nr. 140/2012 ekki til þeirra. Ber af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

3.

Kæra kæranda lýtur í öðru lagi að kynningu á lánaumsóknum viðskiptamanna Kaupþings sem teknar voru fyrir á fundum lánanefndar stjórnar bankans og fundargerðum þeirra. Þjóðskjalasafn afmarkaði beiðni kærenda við eftirfarandi gögn í vörslum safnsins:

  • Kynning á lánaumsókn Exista fyrir lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf., dags. 12. febrúar 2007. Skjalið er glærusýning, átta glærur á ensku.
  • Fundargerð 13. fundar lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf., dags. 12. febrúar 2007. Skjalið er tvær blaðsíður að lengd og á ensku.
  • Fundargerð 26. fundar lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf., dags. 30. janúar 2008. Skjalið er ein blaðsíða að lengd og á ensku.
  • Fundargerð 581. fundar lánanefndar samstæðu Kaupþings banka hf., dags. 20. desember 2007. Skjalið er tvær blaðsíður að lengd og á ensku.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. A-546/2014 var fjallað um rétt til aðgangs að fundargerðum lánanefndar samstæðu Kaupþings banka hf. og lánanefndar stjórnar bankans. Meðal umbeðinna fundargerða í málinu var fundargerð 26. fundar lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf., dags. 30. janúar 2008.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál leit til þess að fundargerðirnar innihéldu upplýsingar um umsóknir viðskiptamanna bankans um lánaviðskipti ásamt afstöðu lánanefnda bankans til lánveitingar og rökstuðningi fyrir henni. Einu málin á dagskrá fundanna eru fyrirliggjandi lánsumsóknir viðskiptamanna og umfjöllun um önnur atriði í rekstri þeirra eða viðskiptum við bankann. Umfjöllun um hvern viðskiptamann inniheldur fleiri eða færri af eftirtöldum upplýsingum; upplýsingar um skuldastöðu, markverð atriði í rekstri hans, fyrri lánveitingar frá bankanum ásamt rökstuðningi fyrir því hvort veita eigi lán eða ekki. Þá eru kjör væntanlegrar lánveitingar rakin og hugsanleg áhrif hennar á rekstur viðskiptamanns. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að fundargerðir lánanefnda Kaupþings banka hefðu tvímælalaust að geyma upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni þeirra viðskiptamanna bankans sem koma til umfjöllunar hverju sinni. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál eiga allar þessar röksemdir við um þær fundargerðir lánanefnda Kaupþings sem kærendur krefjast aðgangs að í máli þessu, sem og kynningu á lánsumsókn sem lögð var fyrir fund lánanefndar stjórnar Kaupþings þann 12. febrúar 2007. Upplýsingarnar njóta því verndar 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 og 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Kærendur leggja áherslu á að unnt sé að afmá upplýsingar úr umbeðnum gögnum og veita aðgang að því sem eftir stendur með vísan til 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tekur undir með Þjóðskjalasafni að þessi leið sé ekki fær. Upplýsingarnar sem framangreind þagnarskylduákvæði taka til eru ekki bundnar við nöfn þeirra viðskiptamanna sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Jafnvel þótt öll nöfn viðskiptamanna bankans verði afmáð er mögulegt að rekja þær greinargóðu upplýsingar um rekstur og fjárhagsmálefni þeirra, sem eftir standa, til viðskiptamannanna. Það er jafnframt mat úrskurðarnefndarinnar ef ætti að afmá allar þagnarskyldar upplýsingar úr gögnunum stæði svo lítið eftir að ákvæði 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga ætti ekki við, sbr. skýringar við ákvæðið í frumvarpi til laganna. Loks verður að líta til þess að öll gögn um lánveitingar Kaupþings banka hf. fjalla um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni bankans. Jafnvel þótt þagnarskylda 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 veiti ekki vernd gegn því að upplýsingar séu veittar er varða fjármálafyrirtækið sjálft gildir þagnarskylda 9. gr. upplýsingalaga um slíkar upplýsingar. Verður því samkvæmt framansögðu ekki fallist á það með kærendum að Þjóðskjalasafni hafi borið að veita aðgang að hluta umbeðinna gagna samkvæmt 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt framangreindu verður staðfest synjun Þjóðskjalasafns um aðgang kærenda að fundargerðum lánanefnda Kaupþings banka og lánsumsókn sem lögð var fyrir 13. fund lánanefndar stjórnar bankans þann 12. febrúar 2007.

4.

Eftir stendur að taka afstöðu til réttar kærenda til aðgangs að minnisblaði Ingimundar Friðrikssonar, dags. 13. október 2008. Skjalið ber yfirskriftina „Minnisatriði úr samskiptum við seðlabanka á árinu 2008 og fleira“, er 14 tölusettar blaðsíður að lengd og á íslensku. Efst á fyrstu síðu er að finna tilgreininguna „Drög að vinnuskjali til eigin nota“.

Í drögunum er farið ítarlega yfir viðræður um gjaldeyrisskiptasamninga við erlenda seðlabanka á árinu 2008 og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Seðlabanka Evrópu, innlend og erlend stjórnvöld og íslensku viðskiptabankana. Meðal annars eru til umfjöllunar aðgerðir Seðlabankans til að bregðast við því ástandi sem upp var komið í íslensku efnahagslífi. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál nær þagnarskylda 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 yfir upplýsingarnar sem fram koma í minnisblaðsdrögunum. Er því ekki ástæða til að taka afstöðu til þess hvort um vinnugagn sé að ræða í skilningi 5. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðarnefndin telur ekki efni til þess að kveða á um skyldu Þjóðskjalasafns til þess að veita kærendum aðgang að hluta minnisblaðsins þar sem þagnarskyldar upplýsingar koma fram svo víða að lítið sem ekkert stæði eftir væru þær afmáðar. Þar sem minnisblaðið lýtur trúnaðarskyldu skv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001, sem er sérstakt þagnarskylduákvæði, taka upplýsingalög nr. 140/2012 ekki til þess. Ber af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

5.

Loks hafa kærendur haldið því fram að með umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis í skýrslu nefndarinnar, sem virðist að einhverju leyti byggð á umbeðnum gögnum, hafi þeir hagsmunir sem búa að baki þagnarskyldu á grundvelli framangreindra lagaákvæða fallið niður. Í þessu sambandi varðar mestu að rannsóknarnefnd Alþingis starfaði á grundvelli laga nr. 142/2008, en samkvæmt lögunum hafði nefndin ríkar rannsóknarheimildir. Skylt var að veita nefndinni aðgang að gögnum sem háð voru þagnarskyldu en af 3. mgr. 4. gr. laganna leiðir að þagnarskyldan færðist yfir til nefndarinnar og starfsmanna hennar. Sú staðreynd að rannsóknarnefnd Alþingis hafi stuðst við tiltekið gagn í störfum sínum, sem er háð sérstakri þagnarskyldu, leiðir þar með ekki til þess að þagnarskyldan falli niður gagnvart öðrum en nefndarmönnum og starfsmönnum nefndarinnar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 329/2014.

Það athugast að í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ársreikningar Kaupþings banka og tveir umbeðinna árshlutareikninga hafi ekki fundist í vörslum Þjóðskjalasafns. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur kæru kærenda og athugasemdir þeirra ekki gefa tilefni til að taka þá afgreiðslu safnsins til skoðunar.

Úrskurðarorð:

Staðfest er synjun Þjóðskjalasafns frá 15. nóvember 2013 um aðgang kærenda að fundargerðum lánanefnda Kaupþings banka og lánsumsókn sem lögð var fyrir 13. fund lánanefndar stjórnar bankans þann 12. febrúar 2007.

Kæru kærenda er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum