Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. febrúar 2016 Forsætisráðuneytið

Aukin verðmætasköpun er forsenda aukinnar velferðar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði Viðskiptaþing 2016.  - mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands í dag.

Í ræðu sinni lagði forsætisráðherra áherslu á að aukin verðmætasköpun væri forsenda aukinnar velferðar. Hann vék meðal annars að mikilvægi samvinnu stjórnmála og atvinnulífs til að auka framleiðni og velferð í landinu. Hann benti á að framleiðni hér væri að jafnaði um 20 prósentum lægri en meðaltalið í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

,,Á þessum mun kunna að vera ýmsar skýringar – fyrirtæki njóta síður stærðarhagkvæmni á litlum markaði, lega landsins getur veitt vernd gegn erlendri samkeppni og neytendaaðhald kann að vera takmarkað. En við verðum að gera betur ef við ætlum okkur að tryggja framtíðarkynslóðum góð lífskjör.“

Forsætisráðherra benti á að því færi fjarri að í stjórnmálum væri almenn samstaða um samspil verðmætasköpunar og velferðar og það væri síður en svo sjálfgefið að sú hraða jákvæða efnahagslega þróun sem átt hafi sér stað að undanförnu haldi áfram ef menn gleymdu þessu samhengi. ,,Þess vegna munum við áfram leggja áherslu á að bæta aðstæður atvinnulífsins og hvetjum um leið atvinnurekendur til að sýna að frjáls samkeppni virki við að auka framleiðni og að skattalækkanir skili sér í lægra vöruverði. Við munum vinna áfram saman að einföldun regluverks en um leið fallast vonandi flestir á að betra, einfaldara og skýrara regluverk eigi í senn að gera atvinnurekendum auðveldara að starfa og tryggja að ávinningurinn af vel skipulögðu samfélagi dreifist á sanngjarnan hátt til landsmanna.“

Forsætisráðherra áréttaði að Íslendingar þurfi í sameiningu að endurskipuleggja fjármálakerfið, taka söguleg framfaraskref í húsnæðismálum og halda áfram hinni hröðu uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarkerfisins, m.a. svo að hægt sé að tryggja lífeyrisþegum sæmandi kjör á sama tíma og stórir aldurshópar komast á lífeyrisaldur.

Ríkisstjórnin glímir nú við gerð fjármálaáætlunar til næstu fimm ára. Staða ríkisfjármála er vissulega betri en áður vegna stöðugleikaframlaga sem minnka skuldir, bæta vaxtakjör og  minnka vaxtakostnað. En áskoranir eru engu að síður miklar, ekki síst vegna þarfar á innviðafjárfestingum. Fjárfesting hins opinbera hefur dregist verulega saman frá hruni og þörfin fyrir þjóðhagslega hagkvæmar fjárfestingar hefur hlaðist upp. “

Forsætisráðherra áréttaði að ríkisstjórnin myndi halda áfram að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar nú þegar tekist hafi að minnka skuldir ríkissjóðs og lækka vaxtakostnað. Kappkosta yrði að hámarka nýtingu fjármagnsins, m.a. með framleiðnisamanburði og hvatningu til skilvirkni og aukinna gæða þjónustunnar. ,,Framleiðni skiptir ekki bara máli þar sem ríkið aflar tekna heldur líka þar sem það nýtir tekjurnar.“

Forsætisráðherra benti á að húsnæðismálin væru nú í góðum farvegi. Fjögur frumvörp um húsnæðismál, unnin í góðri sátt við aðila vinnumarkaðarins, væru nú í þinglegri meðferð. Frumvörpin myndu leysa úr brýnni þörf.

,,Þau auðvelda fólki val í húsnæðismálum en breyta ekki þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að leggja beri áherslu á séreignarstefnuna. Séreignarstefnan á sér djúpar rætur í þjóðarsálinni þótt fleiri en áður kjósi sér önnur húsnæðisform. Afar jákvætt er að sjá fréttir um að hlutur fyrstu íbúðakaupenda sem hlutfall af öllum íbúðakaupendum fer stækkandi. Ríkisstjórnin styður séreignarstefnuna með ýmsum hætti, svo sem vaxtabótum og greiðslu séreignarsparnaðar inn á höfuðstól sem er hluti Leiðréttingarinnar. Verið er að skoða frekari leiðir til að aðstoða ungt fólk við að koma sér upp fyrsta húsnæði.“

Forsætisráðherra benti á það í lok ræðu sinnar að húsnæðismálin væru nátengd fjármálakerfinu og stöðu bankanna. ,,Það er því mikilvægt að ljúka við vegvísi fyrir framtíðarskipan íslensks fjármálamarkaðar.  Skipuleggja á fjármálamarkað þannig að hann geti þjónustað íslenska raunhagkerfið á ábyrgan og farsælan máta og það er tilhlökkunarefni að ræða þau mál nánar á næstu misserum.“ 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum