Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. febrúar 2016 Utanríkisráðuneytið

Nefnd SÞ um afnám allrar mismununar gagnvart konum fjallar um Ísland

Íslenska sendinefndin í CEDAW - mynd

Ísland fór í gær fyrir nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum sem starfar á grundvelli alþjóðasamningsins um afnám slíktrar mismununar, CEDAW. Er þetta í fimmta skipti sem nefndin skoðar framkvæmd samningsins á Íslandi en síðast fór Ísland fyrir nefndina árið 2008. Sendinefnd Íslands var skipuð fulltrúum frá velferðaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu ásamt fulltrúum frá fastanefndum Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Nefndin hrósaði Íslandi fyrir löggjöf frá 2008 og 2014 um jafnréttismál sem og aðgerðir sem gripið var til í kjölfar efnhagskreppunnar til að minnka áhrif hennar á stöðu kvenna á Íslandi. Nefndin ræddi almennt um framkvæmd Íslands á ákvæðum samningsins og spurði m.a. út í stöðu kvenna á vinnumarkaði, stöðu foreldraorlofs, stöðu kvenna í íþróttum og aðgang að heilsuþjónustu, þ.m.t. aðgang að getnaðarvörnum og rétt til fóstureyðingar.

Nefndin hafði sérstakan áhuga á aðgerðum til að berjast gegn ofbeldi gegn konum m.a. aðgerðum lögreglunnar á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu til að berjast gegn heimilisofbeldi. Var nefndin m.a. gagnrýnin á lágt hlutfall kvenna innan lögreglunnar og í Hæstarétti og taldi slíkt ekki samræmast ákvæðum samningsins.

CEDAW, betur þekktur í daglegu tali sem Kvennasáttmálinn, var samþykktur 18. desember árið 1979 á allsherjarþingi SÞ en Ísland hefur verið aðili að sáttmálanum frá 18. júlí 1985. Í lok árs 2009 voru 185 ríki aðilar að sáttmálanum. Í sáttmálanum sem inniheldur 30 ákvæði auk inngangsorða, eru grunnreglur um jafnrétti settar fram og áætlun um aðgerðir ríkja til að koma í veg fyrir mismunun gagnvart konum.

Nefnd um afnám mismununar gagnvart konum er sett á fót af sáttmálanum til að fylgjast með því að sáttmálinn sé virtur. Aðildarríki sáttmálans skila reglulega skýrslum um framkvæmd sáttmálans í viðeigandi ríki sem nefndin fer yfir. Á grundvelli þessarar yfirferðar fundar nefndin með fulltrúum aðildarríkjanna og birtir að lokum tilmæli til stjórnvalda viðkomandi ríkis þar sem hún getur þess sem vel er gert og kemur með með tilmæli varðandi þau ákvæði sem ekki er framfylgt með viðunandi hætti

Frekari upplýsingar um nefndina

Skýrsla Íslands

Bakgrunnsskjöl um Ísland

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum