Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. febrúar 2016 Dómsmálaráðuneytið

Yfir 1000 sérfræðingar hafa setið 30 fræðslufundi um mansal síðustu misseri

Aðgerðaáætlun um mansal hefur verið endurskoðuð og verður áfram á þessu ári unnið að vitundarvakningu um mansal og lögð áhersla á að auka forvarnir meðal almennings og fagaðila. Aukin áhersla verður lögð á baráttu gegn vinnumansali með átaki lögreglu í samvinnu við eftirlitsstofnanir og aðila vinnumarkaðarins.

Yfir 30 fræðslufundir voru haldnir árin 2014 og 2015 um land allt um mansalsmál fyrir sérfræðinga sem vinna með fórnarlömbum mansals eins og starfsmönnum lögreglu, heilbrigðisstofnana, fulltrúum réttarvörslukerfisins og formönnum verkalýðsfélaga. Á fundunum, sem yfir 1000 manns sátu samanlagt, hefur verið fjallað um lagalega þætti, farið yfir helstu einkenni hugsanlegra fórnarlamba mansals og möguleg úrræði.

Þetta kemur meðal annars fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur alþingismanns um áætlun gegn mansali sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Fram kemur í svarinu að meginmarkmið aðgerðaáætlunar gegn mansali fyrir árin 2013 til 2016 hafi verið að efla réttarvörslukerfið til að sporna gegn mansali og að styðja fórnarlömb mansals. Innanríkisráðuneytið hefur umsjón með verkefninu og velferðarráðuneytið ber ábyrgð á því að tryggja fórnarlömbum mansals líkamlega, félagslega og sálræna aðstoð, óháð því hvort viðkomandi sé heimilt að dvelja hér á landi.

Leitað nýrra leiða

Aðgerðaáætlun hefur sem fyrr segir verið endurskoðuð og leitað nýrra leiða við að útfæra aðgerðir. Því verður haldið áfram og í ár er ætlunin að stuðla áfram að vitundarvakningu um mansal og birtingarmyndir þess, bæði með tímabundnum aðgerðum og til langs tíma.

,,Eftirfylgni við áætlunina af hálfu innanríkisráðherra hefur í stórum dráttum verið í samræmi við hlutverk ráðuneytisins. Komið hefur verið á fót þverfaglegum stýrihópi sem m.a. er ætlað að tryggja samráð, hafa yfirsýn yfir framkvæmd áætlunarinnar, forgangsraða verkefnum, koma þeim í framkvæmd í samráði við hlutaðeigandi aðila og halda utan um tölfræði. Aðgerðaáætlunin hefur verið endurskoðuð í því skyni að gera verkefnastjórnun skilvirkari auk þess sem leitað hefur verið hagkvæmari leiða til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Í stýrihópnum hafa átt sæti fulltrúar beggja ráðuneyta, lögreglu, Útlendingastofnunar, Starfsgreinasambands Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Stýrihópurinn hefur yfirfarið aðgerðaáætlunina með tilliti til þess hvaða verkefni er brýnast að ráðast í. Það var samdóma álit hópsins að leggja áfram áherslu á forvarnir og fræðslu um mansal í samræmi við markmið aðgerðaáætlunarinnar. Í því skyni var komið á fót fræðsluteymi sem hefur unnið að útfærslu og framkvæmd þessa þáttar. Ákveðið var að nýta þá þekkingu sem fyrir hendi er innan stofnana og samtaka í stað þess að stofna sérstakan fræðslusjóð eins og gert var ráð fyrir í áætluninni frá 2013. Fræðsluteymið hefur staðið fyrir rúmlega 30 fræðslufundum um allt land sem sóttir hafa verið af starfsmönnum lögreglu, heilbrigðisstofnana, félagsþjónustu og stéttarfélaga. Á fræðslufundunum var meðal annars farið yfir helstu einkenni mansals og mögulegar leiðir til að efla þekkingu í nærsamfélaginu með samræmdum leiðbeiningum og greiningartækjum.

Fleira hefur verið gert í fræðslumálum og til að auka almenna samfélagsvitund og þekkingu á mansalsmálum. Þar á meðal hefur verið opnað fræðslusvæði fyrir almenning og fagaðila á vef innanríkisráðuneytisins og má þar m.a. finna leiðbeiningar og handbækur á mörgum tungumálum. Þá ber að nefna að í desember sl. gerðu ríkisstjórnin og Rauði kross Íslands með sér samkomulag til fjögurra ára sem lýtur að mansalsmálum. Efni samkomulagsins er í fyrsta lagi að opna hjálparsíma fyrir þolendur mansals og gera aðstoð og úrræði sýnilegri, í öðru lagi að bjóða aðilum innan réttarkerfisins upp á þjálfun, m.a. með aðstoð alþjóðastofnana, í þriðja lagi að auka vitund í samfélaginu um einkenni mansals og í fjórða lagi að auka og styrkja samvinnu hlutaðeigandi stofnana og samtaka innanlands. Ljóst er að mikill fengur er að aðild Rauða krossins að verkefninu og munu fulltrúar samtakanna fá beina aðild að stýrihópnum á árinu.

Aðgerðir tengdar rannsókn og saksókn mansalsmála eru í stöðugri þróun innan réttarvörslukerfisins samhliða þróun á alþjóðavettvangi. Unnið hefur verið að endurskoðun á leiðbeiningum ríkislögreglustjóra um verklag fyrir lögreglu í mansalsmálum frá 2010, auk þróunar á verkferlum um vitnavernd sem gerð eru skil í svari við spurningu 2. Þá eru atriði sem lúta að löggjöf í virkri endurskoðun. Aðgerðir sem þessum þætti tengjast hafa einnig mikla tengingu við fræðsluþátt áætlunarinnar. Starfsmenn lögreglu og ákæruvalds hafa hlotið sérstaka fræðslu í því skyni að auka skilning þeirra og þekkingu á meðferð mansalsmála innan réttarvörslukerfisins. Síðastliðin ár hefur lögreglan öðlast haldgóða þekkingu og reynslu við rannsókn mansalsmála. Áfram verður lögð áhersla á sérstaka fræðslu fyrir þessa aðila.

Aðgerðir tengdar samstarfi og samráði tengjast að hluta stofnun stýrihópsins og þeirrar vinnu sem fram hefur farið á vettvangi hans. Hópurinn hefur unnið að því að þróa og móta samræmda verkferla við vinnslu mansalsmála með hliðsjón af leiðbeiningum sem urðu til í tengslum við verkefnið „ Development of Common Guidelines and Procedures on Identification of Victims of Human Trafficking“, en það var samstarfsverkefni nokkurra Evrópuríkja og alþjóðastofnana. Þá er enn unnið að því að koma upp samhæfðu skráningarkerfi á mansalsmálum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum