Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. mars 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Ný og aukin úrræði til að mæta útskriftarvanda Landspítalans

Á sjúkrahúsi
Á sjúkrahúsi

Opnuð verður 18 rúma útskriftardeild á Landspítala, endurhæfingarrýmum verður fjölgað, heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu efld og helgaropnun tekin upp að nýju á Hjartagáttinni. Þessar aðgerðir og fleiri eru liður í aðgerðum til að mæta útskriftarvanda Landspítalans.

Á Landspítala liggur á hverjum tíma hópur sjúklinga sem lokið hefur meðferð á legudeild. Hluti hópsins bíður eftir hjúkrunarrými en aðrir þarfnast endurhæfingar eða annars konar þjónustu eða stuðnings til að geta verið á eigin heimili.

„Þau úrræði sem hér eru kynnt eru afrakstur vandaðrar vinnu sérfræðinga sem hafa greint hvar skórinn kreppir helst og hvaða leiðir séu líklegastar til að skila mestum ávinningi fyrir Landspítalann og þjóna sjúklingum best, ekki síst öldruðum“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Á fjárlögum þessa árs var ákveðið að veita einum milljarði króna til verkefna til að bregðast við útskriftarvanda Landspítalans og tryggja þeim sem lokið hafa sjúkrahúsmeðferð úrræði og þjónustu við hæfi. Sitthvað hefur verið gert það sem af er ári til að bregðast við aðstæðum á Landspítala en samhliða hefur verið unnið að því að skipuleggja viðameiri aðgerðir í þessu skyni, líkt og þær sem hér eru taldar:

18 rúma útskriftardeild opnuð á Landakoti í dag

Í dag var opnuð á Landakoti sérstök útskriftardeild Landspítala með 18 rúmum sem ætluð er þeim sem að mati sérfræðiteymis eru færir um að útskrifast heim til sín innan 30 daga ef vel er á málum haldið. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs. Strax og sjúklingur leggst inn á deildina hefst undirbúingur að útskrift hans í samvinnu við heimahjúkrun, heimaþjónustu og aðstandendur.

Bráðamóttaka Landspítalans styrkt með sérstakri greiningardeild

Biðtími aldraðra á bráðamóttöku hefur lengst hlutfallslega meira en annarra sjúklinga. Ástæðan er rakin til þess að aldraðir eru iðulega með samþætt, langvinn og flókin heilsufarsvandamál  sem ekki teljast til forgangsverkefna á bráðamóttöku. Til að bregðast við þessu verður stofnuð greiningardeild að erlendri fyrirmynd með getu til að hraða greiningu og finna viðeigandi meðferð þar sem byggt er á þverfaglegri nálgun. Bætt flæði og betri þjónusta er markmið þessa úrræðis.

Endurhæfingarrýmum á Eir fjölgað úr 12 í 24

Á hjúkrunarheimilinu Eir hafa um árabil verið starfrækt 12 endurhæfingarrými fyrir fólk sem útskrifast af Landspítala en þarfnast endurhæfingar. Gerðar hafa verið ráðstafanir sem gera kleift að bæta við 12 endurhæfingarrýmum til viðbótar og verða þau einnig nýtt fyrir endurhæfingu sjúklinga af Landspítala.

Hjúkrun í heimahúsum aukin og efld

Sett verður á fót sérhæft teymi til að efla stuðning við búsetu fólks í heimahúsum. Samvinna heimahjúkrunar, heilsugæslunnar og Landspítalans verður jafnframt aukin í þessu skyni.

Helgaropnun Hjartagáttar Landspítalans

Undanfarin ár hefur Hjartagátt Landspítalans aðeins verið opin virka daga, þótt ítrekað hafi þurft að opna hana um helgar vegna mikils álags. Horft er til þess að með samfelldri þjónustu Hjartagáttarinnar alla daga vikunnar megi stytta legutíma hjartasjúklinga, bæta flæði sjúklinga frá bráðamóttöku og síðast en ekki síst auka öryggi sjúklinga með bráð hjartavandamál.

Styrking öldrunarteymis Landspítalans

Þverfaglegt öldrunarteymi sem starfar á Landspítala verður eflt og geta þess til að meta sjúklinga, beina þeim í viðeigandi úrræði og sinna eftirfylgni þannig aukin.

Önnur verkefni

Unnið er að ýmsum öðrum leiðum til að auðvelda útskrift sjúklinga sem lokið hafa meðferð á Landspítala. Þar má nefna fjölgun hjúkrunarrýma á nokkrum stöðum á landinu þar sem húsrými er fyrir hendi, fjölgun dagdvalarrýma, m.a. fyrir heilabilaða og aukið samstarf Landspítala við heilbrigðisstofnanir víðsvegar um landið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum