Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. mars 2016 Forsætisráðuneytið

Dögun - Ákvæðin þrjú

Umsögn  Dögunar um þrjú frumvörp stjórnarskrárnefndar

Dögun stjórnmálsamtök eru í grundvallaratriðum andsnúin þeirri aðferðarfræði sem viðgengist hefur við gerð þessara þriggja  frumvarpsdraga stjórnarskrárnefndar forsætisráðuneytisins. Það liggur fyrir að þjóðin hefur samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012 skýrar tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.  Allar breytingar sem stjórnarskrárnefnd  leggur til ganga út á það eitt að þynna út tillögur Stjórnlagaráð og gera þær óskýrari.  Tilgangurinn er að gera þær þannig úr garði að það verði hægt ganga á svig við  skýrar tillögur Stjórnlagaráðs. Við teljum það fullreynt að alþingismenn búi til stjórnarská  í felum, í nefnd þar sem stjórnmálaflokkarnir reyna að komast að einhverri sátt sín í milli en ekki í sátt við þjóðina. Við teljum ekki að Alþingismenn séu færir um að búa til sínar eigin verklagsreglur því þar munu hagsmunir alltaf þvælast fyrir þeim. Við teljum að það eigi að halda áfram þeirri vegferð sem  samþykkt  var af þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.

Við gagnrýnum líka þann stutta tíma sem fólki gefst til að koma að athugasemdum við frumvörpin. Við skiljum heldur ekki hvers vegna þarf 20 blaðsíðna greinagerð með frumvarpi með orðalagi sem er illskiljanlegt venjulegu fólki. Það er eins og það sé verið að búa til stjórnarskrá fyrir lögfræðinga. Eiga ekki allir að geta skilið stjórnarskrá ?

Við teljum að það sé klárlega verið að þynna út auðlindaákvæði Stjórnlagaráðs. Í tillögum stjórnarskrárnefndarinnar er talað um eðlilegt gjald sem virðist í greinagerðinni vera frekar óljóst við hvað er miðað. Okkur finnst líka slæmt að tengja arðsemi við gjaldið. Gjaldtaka á grundvelli arðsemi verður alltaf tilviljunarkennd og háð duttlungum stjórnmála eins og reynslan hefur sýnt. Við í Dögun teljum einu færu leiðina til að koma á sanngjörnu gjaldi vera að miða verðið við fiskverð á frjálsum markaði og auðlindagjald sé reiknað af frjálsu markaðsverði.

Við teljum frumvarpið um þjóðaratkvæðagreiðslur vera meingallað. Þjóðin fær eingöngu að hafna settum lögum en fær ekki að koma fram með eigin mál sem  tekin  væru fyrir á Alþingi.

Alltof skammur tími er veittur til að safna undirskriftum til að stöðva umdeilda löggjöf. Við í Dögun viljum að 10% þjóðarinnar ætti að geta farið fram á bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur og þar finnst okkur að við ættum að geta kosið um öll mál. Samkvæmt þessu frumvarpi þá hefði þjóðin ekki getað  kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.  Okkur finnst líka ótækt að það þurfi  fjórðung kosningabærra manna til að synja lögum staðfestingar. Þannig gætu menn verið að ganga þvert á  meiri hluta vilja þeirra sem taka þátt í kosningum og gengur það gegn hugmyndum um hvernig skilvirkt og réttlátt lýðræði á að vera.

Okkur finnst í grundvallaratriðum þessi frumvörp vera  málamiðlunartillögur sem við getum ekki sætt okkur við.

Helga Þórðardóttir, formaður Dögunar stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum