Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. mars 2016 Forsætisráðuneytið

Margrét Björk Björnsdóttir - Umhverfis- og náttúruvernd

Góðan dag...

Mig langaði til að gera athugasemd við málsgrein í drögum að frumvarpi til Stjórnarskrárlaga 

Í drögum að frumvarpi um umhverfis- og náttúruvernd er m.a. fjallað um „almannaréttinn“ með það að markmiði að hann verði stjórnarskrárvarinn.

Þetta er mjög viðkvæmt mál og vandrataður hinn gullni meðalvegur í þessu máli – sérstaklega þar sem mikill vöxtur er í ferðaþjónust með tilheyrandi vexti í umferð um landið.

Í skýringartexta með ákvæðunum sem sett eru fram í drögum til stjórnarskrár eru tínd til ýmis rök til að mæla með almannarétti sem heimili almenningi för um og dvöl á eignarlandi í lögmætum tilgangi.

Er þar ýmislegt sem má velta fyrir sér hvort sé réttmætt gagnvart landeigendum:

Ø  „Í megindráttum felur almannaréttur í sér rétt til að fara um landið, dvelja þar og njóta ákveinna gæða, án þess þó að skapa landeigendum ótilhlýðilegan baga.“

o   Hvergi hef ég séð skilgreiningu á því hvað fellur undir að vera „ótilhlýðilegur bagi“.

Ø  „Rétturinn á sér rætur allt aftur til fornlaganna í Grágás og Jónsbók“

o   Ég efast ekki um að það hefur verið talið sjálfsagt til forna að fólk færi um annarra manna lönd til að komast á milli staða og á ferð sinni um landið – og er það svo enn í dag þar sem nú hefur verið lagt þjóðvegakerfi um landið þvert og endilangt þannig að fólk á að komast milli staða eftir því vegakerfi sem víðasthvar er lagt yfir eignaland. Einnig hafa ýmis veitukerfi verið lögð yfir eignaland til að bæta búsetugæði í landinu.

Ø  „Horft er til almannaréttarins sem hluta félagslegrar náttúruverndar, þ.e. að allir eigi að geta notið náttúru landsins“

o   Þar sem umferð um landið hefur aukist mjög mikið með vaxandi ferðaþjónustu – er víða vandséð hvernig hægt er að tengja saman almannarétt og náttúrvernd – þar sem landið hefður látið mikið á sjá vegna ágangs og engin virðist bera ábyrgð á að verja landið eða stýra umferðinni. Þó er það mjög skiljanleg krafa að allir eigi að geta notið náttúru landsins – og því er það mjög mikilvægt að tekin séu frá landssvæði s.s. þjóðgarðar og fólkvangar þar sem hægt er að halda utanum stýringu og tryggja bæði náttúruvernd og aðgengi að óspilltri náttúru.

Ø  „Réttinum (almannaréttinum um aðgang að landinu) fylgir sú skilda að ganga vel um náttúruna og gæta ýtrustu varúðar þannig að náttúran spillist ekki og sýna landeigenda og öðrum rétthöfum fulla tillitssemi og virða hagsmuni þeirra“.

o   Hver ætlar að hafa umsjón með og bera ábyrgð á að þessu sé framfylgt.

Ég veit að þessi efnistök og málsgreinar eru mjög umdeilanlegt og margar hliðar á þessum málum – en þó finnst mér taka steininn úr ef eftirfarandi setning verður meðfylgjandi sem gild röksemdafærsla í þessu lagafrumvarpi:

Ø "Rétturinn (almannarétturinn um aðgang að landinu) er ekki takmarkaður við Íslendinga og ekki er gerður grundvallarmunur í gildandi lögum á rétti einstaklinga til að fara um landið eftir því hvort þeir ferðast í hópferðum sem skipulagðar eru í atvinnuskyni eða á eigin vegum"

o   Ég get ekki séð hvernig á að vera hægt að samþykkja það eða verja á nokkurn hátt að þriðji aðili selji aðgang að eign einhvers annars aðila og hirði ágóðan af því – jafnvel án þess að leitað sé eftir leyfi viðkomandi eiganda – það hafa hingað til ekki verið viðurkenndir viðskiptahættir.

o    Þetta er enn alvarlegra í ljósi þess hve ferðaþjónusta hefur vaxið ört með tilheyrandi aukningu í fjölda fólks sem er á ferð um landið – sem gera sig heimakomin víða sem truflar líf og störf landeiganda um allt land – því er það algerlega ólíðandi ef það á að teljast eðlilegt að skipulagðar séu hópferðir í atvinnuskyni um eignarlönd annarra.

o   Einnig býður þessi röksemdafærsla upp á og er mjög bagalegt að mörg ferðaþjónustufyrirtæki markaðssetja að „allir meigi fara um allt og gera allt“ – sem veldur svo árekstrum og óþægindum bæði fyrir landeigendur og þá sem fara um landið í góðri trú – en hafa engar forsendur til að meta aðstæður um hvar er óhætt að fara og hvað er viðeigandi að gera.

Það er ósk mín og von að þessi túlkun í röksemdafærslu sem sett er fram í útskýringum með drögum að frumvarpi til Stjórnarskrárlaga - þar sem lagt er að jöfnu réttur einstaklinga til að hafa aðgeng að íslenskri náttúru og réttur atvinnurekanda um að búa til markaðs- og söluvöru úr eignarlandi annarra - og þar með að selja aðgang að annarra manna landi í ágóðaskyni - "Rétturinn (almannarétturinn um aðgang að landinu) er ekki takmarkaður við Íslendinga og ekki er gerður grundvallarmunur í gildandi lögum á rétti einstaklinga til að fara um landið eftir því hvort þeir ferðast í hópferðum sem skipulagðar eru í atvinnuskyni eða á eigin vegum" - verði fjarlægt úr röksemdafærslu með þessu lagafrumvarpi til stjórnarskrárlaga.

Með kveðju og þökkum úr sveitinni

Margrét Björk Björnsdóttir

Fylgiskjal:  Frumvarp til Stjórnarskrárlaga

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum