Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. apríl 2016 Utanríkisráðuneytið

Gunnar Bragi fundar með indverskum ráðherrum

Gunnar Bragi og utanríkisráðherra Indlands, Sushma Swaraj - mynd

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti fundi með utanríkis-, orkumála- og viðskipta- og iðnaðarráðherrum Indlands í Nýju Delhi í dag.

Á fundi með utanríkisráðherranum, Sushma Swaraj, ræddu þau tvíhliða samskipti ríkjanna, og þá einkum tækifæri og leiðir til efla viðskipti þeirra. Vaxandi þáttur í þeim er sókn indverskra ferðamanna til Íslands, svo og kvikmyndagerðarfólks en indverski kvikmyndaiðnaðurinn er sá umfangsmesti í heimi. Með ráðherra í för voru ferðaþjónustuaðilar á vegum Íslandsstofu en þeir hyggjast efla tengsl við ferðaheildsala í Nýju Delhi, Bangalore og í Mumbai í þessari viku.

Í tengslum við Ríkjaráðstefnu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París í desember sl. og áskoranir á sviði loftslagsmála, ræddu ráðherrarnir frekari samstarfsmöguleika á norðurslóðum, sem Indverjar hafa sýnt mikinn áhuga, sem og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. 

Ráðherrarnir ræddu mikilvægi þátttöku karla í jafnréttisumræðu. Gunnar Bragi kynnti rakarastofuhugmyndina fyrir Swaraj og ræddu þau möguleika á að fá samstarfsaðila innan 
indversku stjórnsýslunnar til samstarfs um mögulega Rakarastofuráðstefnu á Indlandi.

Þá ræddu þau önnur alþjóðamál, ekki síst hryðjuverkaógnina og málefni ýmissa alþjóðastofnana, einkum SÞ. 

Á fundi með orkumálaráðherra Indlands, Piyush Goyal, voru loftslagsmál og nýting endurnýjanlegra orkugjafa á dagskrá. Gunnar Bragi kynnti Alþjóðlegt jarðhitabandalag, GGA, fyrir ráðherranum sem var formlega sett á laggirnar á COP21 í París, og lýsti áhuga á að sjá Indverja bætast í hópinn. Þá ræddu ráðherrarnir mögulega jarðhitanýtingu í Indlandi með íslenskri aðkomu.

Fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Indverja voru meginefni fundar utanríkisráðherra með viðskipta- og iðnaðarráðherra Indlands, Nirmala Sitharama. Hvatti Gunnar Bragi stjórnvöld í Indlandi til þess að setjast aftur að samningaborðinu með EFTA og ljúka fríverslunarviðræðunum, sem hófust árið 2008.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum