Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. apríl 2016 Dómsmálaráðuneytið

Frumvarpi um ný útlendingalög dreift á Alþingi

Frumvarpi til laga um útlendinga hefur verið dreift á Alþingi og er það heildarendurskoðun gildandi laga sem eru frá árinu 2002. Gert er ráð fyrir að Ólöf Nordal innanríkisráðherra mæli fyrir frumvarpinu á fundi Alþingis á morgun.

Frumvarpið er afurð um tveggja ára vinnu þverpólítískrar þingmannanefndar sem skipuð var af þáverandi innanríkisráðherra vorið 2014 til að endurskoða lögin. Markmiðið með endurskoðuninni var að koma til móts við þarfir samfélagsins sem og einstaklinga og tryggja að mannúð, jöfnuður og skilvirkni ríki við meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi.

Nefndin kynnti frumvarpið á opnum fundi síðla sumars 2015 og í framhaldi af því var það afhent innanríkisráðherra laust fyrir áramót eftir nokkrar breytingar. Með því að skipa þverpólitíska nefnd var stuðlað að samstarfi milli þingmanna, embættismanna og fræðimanna og komu fjölmargir aðilar, stofnanir og samtök að verkinu auk þess sem góð samvinna hefur verið við fulltrúa Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins. Þá hélt nefndin nokkra samráðsfundi með ólíkum hagsmunaðilum auk þess sem leitað var ráðgjafar fjölmargra sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum.

Í greinargerð frumvarpsins segir um tilefni og nauðsyn lagasetningar að erlendir ríkisborgarar hafi í síauknum mæli óskað eftir því að setjast að á Íslandi sem sé í takt við aukna fólksflutninga í heiminum. Hafi nágrannaríki brugðist við þessari þróun og breytt löggjöf sinni meðal annars til að einfalda umsóknar- og afgreiðsluferli, hraða málsmeðferð og skýra ýmsa óvissuþætti, m.a. til að tryggja að íslensk löggjöf sé betur í stakk búin til að takast á við aukinn fjölda umsækjenda. Öll nágrannaríki Íslands hafa þurft að takast á við mikla aukningu umsókna um alþjóðlega vernd og er Ísland ekki undanskilið í þeirri þróun.

Helstu nýmæli frumvarpsins

  • Hlutverk stjórnvalda sem tengjast málaflokknum eru skilgreind.
  • Stuðlað er að samræmingu á milli laga um útlendinga og laga um atvinnuréttindi útlendinga.
  • Uppsetningu kafla og ákvæða er breytt með það að markmiði að gera lögin aðgengilegri.
  • Dvalarleyfaflokkum er breytt og skilyrði dvalarleyfa einfölduð. Lögð áhersla á að koma til móts við aðstæður atvinnulífs, vinnumarkaðar og háskóla- og vísindasamfélagsins.
  • Heimild til að sækja um dvalarleyfi þrátt fyrir að einstaklingur sé staddur á landinu er rýmkuð.
  • Lagðar eru til ýmsar breytingar á réttindum og réttindasöfnun sem fylgja dvalarleyfum.
  • Sérstakur kafli er um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
  • Öll samskipti útlendinga við íslensk stjórnvöld á grundvelli þessara laga fari í gegnum eina stofnun, Útlendingastofnun. Sama gildir um kærumál sem munu öll berast til kærunefndar útlendingamála.
  • Áhersla á réttindi barna og umbætur, m.a. með sértækum ákvæðum um réttindi barna í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, skilgreiningu á því hvað er barni fyrir bestu, rétti barna til að umgangast foreldra sína, reynt er að tryggja börnum vernd, m.a. með skipun hagsmunagæslumanns, auk þess sem reglur um aldursgreiningu og vegna fylgdarlausra barna eru endurskoðaðar.
  • Kaflar um alþjóðlega vernd hafa verið endurskoðaðir og uppfærðir í samræmi við alþjóðlega, evrópska og norræna þróun.
  • Breytingar eru lagðar til á kærunefnd útlendingamála þannig að tryggja megi aukna skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma.
  • Lag er til að framkvæma beri ákvarðanir Útlendingastofnunar eins fljótt og auðið er þegar um synjun er að ræða í málum umsækjenda sem koma frá öruggum ríkjum og umsóknir þar af leiðandi taldar tilhæfulausar með vísan til flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
  • Dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar veitt til þriggja ára í stað fjögurra.
  • Heimild fyrir ráðherra að kveða í reglugerð á um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar flóttamanna.
  • Þegar um er að ræða fjölskyldumyndun sem verður til eftir að flóttamanni er veitt vernd hér á landi eiga við almenn skilyrði til fjölskyldusameiningar sem fela í sér takmarkaðri rétt en í núgildandi framkvæmd.
  • Nánari leiðbeiningar um sjónarmið sem koma til álita vegna umsókna um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilbrigðisaðstæðna.
  • Dvalarleyfi sem fylgdarlausu barni er veitt á grundvelli verndar gildi þangað til barnið nær lögræðisaldri og sé þá þörfin endurmetin.
  • Ýmsar breytingar eiga að stuðla að því að íslensk stjórnvöld uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar með því að koma ákvæðum tiltekinna samninga til framkvæmda á Íslandi.
  • Ákvæði um móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og eftir atvikum fyrir útlendinga í ólögmætri dvöl eða mansalsfórnarlömb.
  • Takmarkað er hvenær refsa má umsækjendum um alþjóðlega vernd vegna ólöglegrar komu og/eða falsaðra skilríkja.
  • Ákvæði um ríkisfangsleysi sem tryggja á sjálfstæðan rétt ríkisfangslausra einstaklinga til alþjóðlegrar verndar. Það er liður í að innleiða samninga um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og samning um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961.
  • Helstu íþyngjandi úrræði sem stjórnvöld geta beitt til að tryggja framkvæmd og markmið laganna hafa verið sett í einn kafla og ákvæði eru gerð skýrari til þess að tryggja aukið gegnsæi og réttaröryggi.

Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að framsöguræða innanríkisráðherra um frumvarpið verði á dagskrá þingfundar á morgun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum