Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. apríl 2016 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra boðar samstarfsvettvang í útflutningsþjónustu

Lilja Alfreðsdóttir - mynd

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir að auka þurfi útflutningsverðmæti vöru og þjónustu til ársins 2030 til að Íslandi haldi efnahagslegum styrk. Hún boðaði samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs og að stefnumótun í útflutningsþjónustu yrði skerpt til langs tíma, í ræðu sem hún hélt á aðalfundi Íslandsstofu í dag. Aðgerðirnar eru byggðar á tillögum starfshóps sem skipaður var árið 2013.

„Ég legg áherslu á náið og sterkt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs og að vettvangur þess verði áfram Íslandsstofa. Jafnframt að atvinnulífið verði áfram hinn mótandi drifkraftur í starfinu,“ sagði utanríkisráðherra.  Á næstunni  verði  skipuð ný stjórn Íslandsstofu sem hafi það meginhlutverk að hrinda tillögunum í framkvæmd  og efla enn frekar hið góða starf Íslandsstofu og á mörkuðum.

Lílja sagði að skýra verði rekstrarform Íslandsstofu, gera nýjan þjónustusamning við ríkið og setja fastari mælikvarða á árangur.  Setja verði á fót samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs, útflutnings- og markaðsráð, til að móta með Íslandsstofu langtímastefnu sem miði að því að auka útflutningsverðmæti á næstu 15 árum.

„Markmiðið með öllu þessu er að gera starf Íslandsstofu öflugra, styrkja stefnumótun og að breikka sóknarleik landsliðs Íslands á erlendum mörkuðum. Ég hvet menn til að sjá þetta ekki sem íþyngjandi heldur miklu fremur sem tækifæri til að efla starfið,“ sagði Lilja.

Hún vakti einnig athygli á nýlegri umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu og horfur á Íslandi  sem segði að ótvíræður árangur hefði náðst í efnahagslífinu. „Fyrir utan helstu stoðir atvinnulífsins á Íslandi þá liggur hér til grundvallar sú mikla fjölgun ferðamanna sem við höfum séð á undanförnum árum. Þetta styður við hagvöxtinn og skapar gjaldeyristekjur,“ sagði Lilja. „Við erum á beinni leið en því fylgir líka ábyrgð. Eins og dæmin sanna er auðvelt að misstíga sig í uppsveiflunni. Það væri til einskis sáð ef við ekki gætum að rótunum og förum að öllu með gát.“

Þá nefndi hún einnig þær áskoranir sem stjórnvöld stæðu frammi fyrir, m.a. vegna lokunar markaða í Rússlandi og Nígeríu. Það hefði valdið búsifjum og miklum vanda í einstökum byggðarlögum sem stjórnvöld hafi reynt að mæta með stöðugu samtali við stjórnvöld og hagsmunaaðila í ríkjunum um leið og kannaðir væru mögulegar leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum fyrir íslenska útflytjendur.

Ávarp utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum