Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. apríl 2016 Utanríkisráðuneytið

Aukin notkun jarðhita stuðlar að hagkvæmri orkuframleiðslu

Frá ESMAP fundi. - mynd

„Ísland hefur stutt þróun jarðhita um fjörutíu ára skeið og samkvæmt núgildandi þróunarsamvinnuáætlun er jarðhiti einn af fjórum meginstoðum þeirrar áætlunar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í morgun við setningu þriðja fundar Orkuráðgjafadeildar Alþjóðabankans (ESMAP) um nýtingu jarðhita sem haldinn er í aðdraganda alþjóðlegrar ráðstefnu í Hörpu síðar í vikunni: Iceland Geothermal Conference 2016.

Í ávarpi ráðherra kom fram að jarðhiti geti sem hreinn og áreiðanlegur orkugjafi stuðlað að því að auka hagkvæma orkuframleiðslu ásamt ýmsum öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum. „Á sama tíma dregur nýting jarðhita úr losun gróðurhúsalofttegunda og hjálpar okkur bæði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og við að ná markmiðum Parísasamkomulagsins sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna skrifuðu undir í New York á föstudaginn,“ sagði Lilja.

Utanríkisráðuneytið hefur á vettvangi þróunarsamvinnu unnið að því að draga úr orkufátækt í heiminum í samstarfi við Alþjóðabankann, ESMAP og Norræna þróunarsjóðinn (NDF) og leiðir samstarf um jarðhitarannsóknir í fjölmörgum Afríkuríkjum. Fyrir þremur árum, í mars 2013, var af hálfu ESMAP sett á laggirnar sérstök jarðhitaáætlun á fundi í Reykjavík, Global Geothermal Development Plan, og tveggja daga fundurinn sem hófst í morgun er þriðji fundurinn um þá áætlun.

Alþjóðleg viðurkenning á mikilvægi fjármögnunar við jarðhitaleit hefur aukist á síðustu árum. Fram kom á fundinum í morgun að úr sérstökum tæknisjóði vegna hreinnar orku (Clean Technology Fund) kæmu 235 milljónir Bandríkjadala til fjármögnunar á rannsóknarholum í jarðhitaleit. Ennfremur var upplýst að fjármögnun jarðhitaverkefna á byrjunarstigi hefði aukist úr 6% í 17% á aðeins þremur árum, frá 2012 til 2015.

Fundurinn er haldinn í samstarfi ESMAP og utanríkisráðuneytis. 

Ávarp utanríkisráðherra við setninguna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum