Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. maí 2016 Forsætisráðuneytið

Jöfnuður tekna aldrei meiri á Íslandi

  • Ekkert Evrópuríki býr við jafnmikinn tekjujöfnuð og Ísland.
  • Jöfnuður tekna hefur aldrei verið meiri á Íslandi en á árinu 2014.
  • Aukið svigrúm til velferðarmála.

Nýjar tölur frá Eurostat, hagstofu ESB, sýna að ekkert Evrópuríki býr við jafnmikinn tekjujöfnuð og Ísland. Samanburður Eurostat er byggður á upplýsingum um tekjur á árinu 2013. Jöfnuður tekna hefur aldrei verið meiri á Íslandi en á árinu 2014. Á árinu 2014 fóru Íslendingar fram úr Norðmönnum í tekjujöfnun samkvæmt hinum svokallaða Gini-stuðli en árin þar á undan höfðu Norðmenn verið það ríki í Evrópu sem er með lægstan Gini-stuðul.

Eurostat skilgreinir þá sem eiga á hættu að verða fátækt að bráð sem þá einstaklinga sem eru með lægri ráðstöfunartekjur eftir opinberar tilfærslur en sem nemur 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. Á Íslandi eru 7,2% þjóðarinnar með ráðstöfunartekjur undir 60% af miðgildi ráðstöfunartekna sem er mun lægra en hlutfall annarra Evrópuríkja. Hlutfallið mælist á bilinu 11 til 15% á hinum Norðurlöndunum en er 16,3% að meðaltali í Evrópusambandinu. Miðgildi tekna er svipað á Íslandi og í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi en tekjur eru hærri í Noregi.  

Hlutfall einstaklinga undir 60% af miðgilidi tekna. Ísland með 7%, önnur lönd með hærri prósentu.

Eurostat sýnir jafnframt tekjur þess fimmtungs þjóðarinnar sem hafa hæstar tekjur (efstu 20%) og ber þær saman við tekjur þess fimmtungs sem lægstar hafa tekjur. Þetta hlutfall er einnig lægst á Íslandi af öllum Evrópuríkjum. Þau 20% þjóðarinnar með hæstar tekjur hafa rúmlega þrefaldar ráðstöfunartekjur þeirra 20% sem lægstar hafa tekjurnar. Hlutfallið er á bilinu 3,4 til 4,1 á hinum Norðurlöndunum en er 5,2 að meðaltali í ESB.  

Tekjur efstu tekjufimmtungs sem hlutfall af tekjum neðsta tekjufimmtungs

Gini-stuðullinn er oft notaður sem mælikvarði á tekjudreifingu. Stuðullinn er frá 0-100, þar sem gildið 0 vísar til algers tekjujöfnuðar. Stuðullinn fyrir Ísland lækkaði, sem þýðir meiri tekjujöfnuð, úr 24,0 árið 2013 í 22,7 árið 2014. Næst mesti jöfnuðurinn var í Noregi á árinu 2014 en stuðullinn fyrir Noreg það ár var 23,5.

Aukið svigrúm til velferðarmála

Í fjármálaáætlun hins opinbera 2017-2021 sem kynnt var 29. apríl sl. var greint frá því að vegna umskipta á afkomu ríkissjóðs verði unnt að auka svigrúm til nýrra velferðarútgjalda um 42 milljarða á tímbilinu, einkum til heilbrigðismála, félagsmála og menntamála. Þessi raunaukning útgjalda til velferðarmála mun enn frekar bæta lífsskilyrði á Íslandi. 

Aukið svigrúm til velferðarmála kemur til af ábyrgri fjármálastefnu sem hefur gert ríkissjóði kleift að greiða upp skuldir og þar með að lækka vaxtakostnað. Á árinu 2016 mun afkoma ríkissjóðs verða jákvæð um vel yfir 400 milljarða króna, einkum vegna einskiptis tekna af stöðugleikaframlagi. Ekkert þróað ríki mun verða með viðlíka fjárlagaafgang eins og fram kemur í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjármál hins opinbera (IMF Fiscal Monitor). Í skýrslunni gerir AGS ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs á Íslandi verði jákvæð um 14,3% á meðan afkoman verður neikvæð hjá þróuðum ríkjum að meðaltali um tæp 3%. 

Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun verður afgangur á fjárlögum enn meiri en gert er ráð fyrir í tölum AGS, eða yfir 17%. 

Áætluð afkoma rikissins sem hlutfall af landsframleiðslu 2016.

 

Leiðrétting 3. maí 2016
Fréttin var birt fyrr í dag og þá var sagt að samanburður Eurostat væri byggður á upplýsingum um tekjur á árinu 2014. Hið rétta er að tölurnar eru vegna ársins 2013.

Frétt Eurostat má sjá á vefnum europa.eu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum