Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. maí 2016 Utanríkisráðuneytið

Nýsköpun og þróun mikilvæg fyrir útflutning

Fundur hjá MIT háskólanum. - mynd

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra ræddi um mikilvægi íslenska hugverkaiðnaðarins fyrir útflutning frá Íslandi í ræðu sinni á ráðstefnu Íslensk-ameríska verslunarráðsins um nýsköpun og framtaksfjárfestingar í Boston í dag. Lilja sagði atvinnugreinina stuðla að aukinni fjölbreytni við gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins og vera nú þegar orðna fjórðu stoð útflutnings frá Íslandi. Hugverkaiðnaðurinn gæti dregið úr neikvæðum áhrifum af ófyrirsjáanlegum efnahags- og auðlindasveiflum sem aðrar útflutningsgreinar fyndu meira fyrir.

„Bandarísk fyrirtæki eru einn mikilvægasti erlendi fjárfestirinn á Íslandi, ekki síst gagnvart nýsköpunarfyrirtækjum. Þá hafa fjölmargir Íslendingar aflað sér menntunar í Bandaríkjunum, og snúið aftur heim með kunnáttu, hugmyndir og ekki síst tengsl," sagði Lilja. Á fundi viðskiptaráðsins í morgun sköpuðust frjóar umræður á meðal íslenskra og bandarískra sérfræðinga um tækifæri og leiðir til að efla nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Kom fram ánægja bandarískra fjárfesta með íslenska frumkvöðla, gæði nýsköpunar á Íslandi og eldmóð.

Í ræðu sinni fór utanríkisráðherra einnig yfir þær breytingar sem orðið hafa á árunum eftir fjármálakreppuna og hvernig erfiðar aðstæður hefðu skapað tækifæri fyrir frumkvöðla á ýmsum sviðum.

Miklar breytingar hefðu orðið á rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja á undanförnum árum. Skattkerfið hefði verið einfaldað og auknu fé varið til opinberra sjóða sem styðja við nýsköpun og þróun. Þá ræddi Lilja um fyrirhugaðar lagabreytingar sem eiga að bæta rekstrarumhverfi íslenskra nýsköpunarfyrirtækja,  smærri fyrirtækja í vexti og þar með samkeppnisstöðu Íslands. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur þegar mælt fyrir frumvarpi þess efnis sem er nú til afgreiðslu á Alþingi. 

Ræða utanríkisráðherra á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum