Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. maí 2016 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra flutti erindi á málþingi Lögmannafélags Íslands

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpaði málþing Lögmannafélags Íslands. - mynd
Skyldur lögmanna gagnvart samfélaginu var yfirskrift málþings sem Lögmannafélag Íslands stóð fyrir í gær í tengslum við aðalfund félagsins. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpaði málþingið í upphafi og síðan fluttu erindi þau Reimar Pétursson, formaður félagsins, Ólöf Nordal innanríkisráðherra, Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands og Karl Axelsson hæstaréttardómari.

Í upphafi erindis síns sagði innanríkisráðherra að lögmenn gegndu mikilvægu hlutverki í réttarkerfinu og kvaðst láta sig miklu varða hvort umgjörð réttarkerfisins tryggði virkni þess í samræmi við kröfur réttarríkisins sem væri einn af hornsteinum samfélags okkar og forsenda réttinda og frelsis.

Ólöf Nordal sagði brýnt að lögmenn nytu trausts og til þess þyrftu þeir að búa yfir faglegum styrkleika og vera heiðarlegir í störfum sínum. Hún sagði lög og siðareglur setja lögmönnum ákveðinn ramma meðal annars um hvaða kröfur þurfi að uppfylla til að fá lögmannsréttindi og hvernig lögmenn skuli haga störfum sínum. Hún sagði ekki gerða kröfu um starfsþjálfun og varpaði því fram hvort gera ætti þá kröfu að menn öðlist starfsreynslu áður en þeir fá lögmannsréttindi. Einnig varpaði hún því fram hvort Lögmannafélagið ætti að hafa meiri möguleika á eftirliti og til að bregðast við ef skyldur lögmanna samkvæmt lögum og siðareglum væru vanræktar.

 

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti erindi á málþingi Lögmannafélags Íslands.

Í lokin sagði ráðherra að lögmenn og Lögmannafélagið hefðu ræktað vel aðhaldshlutverk sitt með stjórnvöldum og dómstólum og verið í varðstöðu fyrir réttarríkið í opinberri umræðu. Hún sagði lögmenn þurfa að vera gagnrýnir á eigin verk og svara því hvort þeir geti gert betur. ,,Opin og heiðarleg umræða um starfshætti lögmanna og hvað má gera betur er án efa eitt besta tækið sem Lögmannafélagið hefur til aðhalds,“ sagði ráðherra í lokin og óskaði félaginu góðs gengis í mikilvægum verkefnum þess.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum