Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. maí 2016 Dómsmálaráðuneytið

Markvissar aðgerðir gegn mansali nauðsynlegar

Fjölmenni sótti málþing um mansal á föstudag. - mynd
Mansal er samfélagsmein sem gæti ef það festir rætur haft í för með sér breytingar á samfélaginu og jafnvel haft áhrif á grundvallarmannréttindi. Því er nauðsynlegt að virkja sem flesta með fræðslu og vitundarvakningu. Þetta er meðal þess sem fram kom á málþingi um mansal sem haldið var í Reykjavík í gær á vegum innanríkisráðuneytis og utanríkisráðuneytis í samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Á málþinginu var staðan hér á landi skoðuð í alþjóðlegu samhengi, rætt um aðgerðir stjórnvalda á þessu sviði og hvernig samfélag og fyrirtæki geta tekið virkan þátt í að koma í veg fyrir mansal.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, setti málþingið og vakti athygli á að mansal væri samfélagslegt mein sem væri ekki einkamálefni lögreglunnar heldur samstarfsverkefni margra og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, fór yfir íslenskar birtingarmyndir mansals og hvað læra mætti af reynslunni hérlendis og erlendis.

Petya Nestorova, framkvæmdastýra Evrópuráðssamnings um aðgerðir gegn mansali, ræddi alþjóðlegar skuldbindingar ríkja í baráttunni gegn mansali og hvernig sú skilgreining hefði þróast með breyttum veruleika. Mike Dottridge, alþjóðlegur ráðgjafi og sérfræðingur í mansalsmálum, fjallaði um erlend dæmi og hvaða áhrif mansal getur haft á samfélög og atvinnulíf..

Hildur Dungal, lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu, fjallaði um aðgerðir stjórnvalda og fór m.a. yfir fræðsluátak um allt land sem væri búið að skila töluverðri vitundarvakningu. Búið væri að fræða yfir tvö þúsund manns á yfir 60 fræðslufundum. Þá ræddi Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, um nauðsyn þess að vera vakandi fyrir því að gætt sé að réttindum launafólks og Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hótela, fjallaði um ábyrgð vinnuveitenda á heilbrigðu vinnuumhverfi og upplýstu starfsfólki og hvaða leiðir fyrirtæki gætu mögulega farið til að koma í veg fyrir mansal. Einar Páll Guðlaugsson, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Securitas, ræddi hversu víðtæka skírskotun í samfélagið og marga snertifleti fyrirtækið hefði sem gætu gagnast í baráttunni gegn mansali.

Snorri Birgisson, lögreglufulltrúi og sérfræðingur í mansalsmálum, stýrði í kjölfarið pallborðsumræðum. Var sameiginlegt inntak allra að mansal væri samfélagsmein sem ef það festi rætur gæti haft í för með sér breytingar á samfélaginu sem hefðu jafnvel áhrif á grundvallarréttindi. Því væri nauðsynlegt að virkja sem flesta með fræðslu og vitundarvakningu og fara í markvissar aðgerðir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum