Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. maí 2016 Innviðaráðuneytið

Drög til umsagnar að breytingum á reglugerðum um leigubifreiðar og fólksflutninga á landi

Innanríkisráðuneytið birtir hér með til umsagnar drög að breytingu á reglugerð um fólksflutninga á landi annars vegar og á reglugerð um leigubifreiðar hins vegar. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 6. júní næstkomandi og skulu umsagnir berast á netfangið [email protected].

Drög að breytingum á reglugerð nr. 528/2002 um fólksflutninga á landi varðar breytingu á 20. gr. reglugerðarinnar um sérútbúnar bifreiðar. Markmiðið með breytingunni sem er lögð til er að skerpa á núgildandi regluverki og tryggja að ökutækin sem falla þar undir séu sannarlega sérútbúnar bifreiðar. Breytingin mun jafnframt hafa þau áhrif að fullútbúnar torfærubifreiðar frá framleiðanda þurfa ekki að undirgangast breytingar til að falla undir ákvæðið. Með breytingunni munu einhver ökutæki falla utan skilgreiningarinnar sem hafa nú þegar fengið breytingarskoðun. Ástæðan er sú að í sumum tilvikum hafa bifreiðar fengið slíka skoðun en þeim verið breytt í kjölfarið í upprunalegt horf og eru þar af leiðandi í raun ekki sérútbúnar bifreiðar. Þessi ökutæki sem munu falla utan skilgreiningar á sérútbúnum bifreiðum gætu hugsanlega fallið undir skilgreininguna eðalvagn, skv. eftirfarandi tillögu til breytingar á reglugerð um leigubifreiðar.

Tillaga til breytingar á reglugerð nr. 397/2003 um leigubifreiðar tekur til 25. gr. reglugerðarinnar um eðalvagna. Felur breytingin í sér að núverandi krafa um að eðalvagn þurfi að vera með skilrúm sem skilur að ökumann og farþega er felld út. Er það í takt við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum og í samræmi við útbúnað nýrra eðalvagna og viðhafnarbifreiða. Tillagan felur jafnframt í sér að nýr notkunarflokkur, eðalvagnar, verður tekinn í gagnið í öktækjaskrá og verður skilgreindur nánar í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum