Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. júní 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skipun fjármálaráðs

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað fjármálaráð í samræmi við lög um opinber fjármál sem tóku gildi um áramót.

Ráðið er sjálfstætt og er því ætlað að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun, sem ríkisstjórn leggur fyrir Alþingi, fylgi þeim grunngildum sem lögin segja að stefnumörkun í opinberum fjármálum skuli byggð á, en þau eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.

Ráðið metur einnig hvort fylgt sé skilyrðum fjármálastefnu og fjármálaáætlunar í lögunum um heildarjöfnuð og heildarskuldir. Skilyrðin fela í sér – í fyrsta lagi - að heildarjöfnuður ríkis og sveitarfélaga yfir hvert fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Í öðru lagi að heildarskuldir hins opinbera, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en nemur 30% af vergri landsframleiðslu. Í þriðja lagi gera lögin kröfu um markvissa lækkun skulda á meðan skuldir eru yfir 30% viðmiðinu.

Fjármálaráð starfar sjálfstætt og er það á valdi ráðsins að ákveða hvernig staðið skuli að mati á stefnumörkun stjórnvalda í opinberum fjármálum að öðru leyti. Ráðið er skipað til þriggja (almennir ráðsmenn) og fimm ára (formaður).

Fjármálaráð er þannig skipað:

  • Gunnar Haraldsson, formaður, tilnefndur af forsætisráðherra
  • Ásgeir Brynjar Torfason, tilnefndur af Alþingi
  • Þóra Helgadóttir, tilnefnd af Alþingi.

Til vara eru skipuð þau Axel Hall, varaformaður, tilnefndur af forsætisráðherra til fimm ára,, Arna Varðardóttir, tilnefnd af Alþingi og Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir, tilnefnd af Alþingi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum