Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mat lagt á gæði aðlögunar innflytjenda og flóttafólks

Fjölmenning
Fjölmenning

Ákveðið hefur verið að ráðst í heildstæða greiningu og mat á gæðum aðlögunar innflytjenda og flóttfólks að íslensku samfélagi. Ríkisstjórnin hefur samþykkt sameiginlega tillögu félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra þessa efnis og mun leggja tíu milljónir króna til verkefnisins.

Innflytjendur eru nú um 10% mannfjöldans á Íslandi. Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar er innflytjandi einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem eru fæddir erlendis. Til annarrar kynslóðar innflytjenda teljast börn innflytjenda.

Ríkisendurskoðun skilaði í mars 2015 skýrslu til Alþingis um málefni útlendinga og innflytjenda á Íslandi. Í skýrslunni eru bent á ýmis atriði þar sem úrbóta er þörf í málefnum innflytjenda og flóttafólks, t.d. varðandi móttöku flóttafólks og hælisleitenda, málsmeðferð og málshraða, réttindamál, stuðning o.fl. Einnig er í skýrslunni bent á að skjóta þurfi styrkari stoðum undir þá þætti sem eiga að tryggja farsæla þátttöku innflytjenda í íslensku samfélagi. Er þar m.a. vísað til íslenskukennslu, túlkaþjónustu og tækifæri til atvinnuþátttöku.

Félags- og húsnæðismálaráðherra lagði nýlega fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda þar sem tekið er tillit til ábendinga Ríkisendurskoðunar. Í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar er vísað til þess að á vettvangi ráðherranefndar um málefni flóttafólks og innflytjenda og í ljósi ábendinga Ríkisendurskoðunar sé ástæða til að skoða þessi mál heildstætt og á því byggist tillagan um að gera heildstæða greiningu og mat á gæðum aðlögunar innflytjenda og flóttafólks að íslensku samfélagi.

Í samræmi við tillögu félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra verður þeim falið að leita eftir samstarfi við sérfræðinga um eftirfarandi þætti verkefnisins:

  • Að fylgja eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar og meta þörf fyrir umbætur til að tryggja farsæla aðlögun innflytjenda. Verði í því sambandi kannað hvort leggja þurfi til breytingar á verkefnaskiptingu ráðuneyta og stofnana til að tryggja samhentari og skilvirkari stjórnsýslu og betri þjónustu.

  • Að greina áskoranir sem stofnanir og þjónustukerfi standa frammi fyrir vegna aukins fjölda innflytjenda, t.d. á sviði velferðar- heilbrigðis- og vinnu- og menntamála og  í réttarvörslukerfinu.

  • Að kanna hvernig staðið er að rannsóknum og öflun upplýsinga um það hvernig innflytjendum, ekki síst flóttafólki, hefur vegnað í íslensku samfélagi.

Komið verður á fót sérstöku teymi skipuðu fulltrúum ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að vinna að þessum málum ásamt þeim sérfræðingum sem koma munu að verkefninu.

Miðað er við að verkefninu ljúki með greinargerð til ríkisstjórnar ásamt tillögum um aðgerðir sem geti nýst með beinum hætti við framkvæmd og eftirfylgni framkvæmdaáætlunar um málefni innflytjenda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum