Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. júní 2016 Innviðaráðuneytið

Ríkisstjórnin samþykkir skipan gerðardóms vegna kjaradeilu flugumferðarstjóra og Isavia

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun að skipa gerðardóm til að útkljá kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia hafi aðilar ekki náð samningum 24. júní næstkomandi. Alþingi hefur verið boðað til fundar klukkan 15 í dag til að fjalla um lagafrumvarp þessa efnis.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin taki þegar gildi og verði það samþykkt eru óheimilar verkfallsaðgerðir Félags íslenskra flugumferðarstjóra gagnvart Isavia svo og aðrar vinnustöðvanir eða aðgerðir til að knýja fram kjarasamning. Hafi aðilar ekki undirritað kjarasamning fyrir 24. júní næstkomandi skal gerðardómur fyrir 18. júlí ákveða kaup og kjör flugumferðarstjóra. Ákvarðanir gerðardóms skulu vera bindandi með sama hætti og um kjarasamning milli aðila væri að ræða og með gildistíma sem gerðardómur ákveður.

Gerðardómur skal skipaður þremur dómendum. Einn verði tilnefndur af Hæstarétti Íslands, einn af Félagi íslenskra flugumferðarstjóra og einn af Samtökum atvinnulífsins. Skulu dómendur hafa hæfni til starfans í ljósi starfsferils og þekkingar á kjarasamningum og vinnudeilum. Þá er gerðardómi samkvæmt frumvarpinu heimilt að beita sér fyrir samkomulagi eða dómsátt milli aðila sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir gerðardóms, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli, og tekur þá gerðardómur ekki ákvörðun um þau atriði sem samkomulagið eða dómsáttin tekur til.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum