Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. júní 2016 Forsætisráðuneytið

Fyrsta skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi skýrslu um framkvæmd upplýsingalaga nr. 140/2012 í samræmi við 3. mgr. 13. gr. laganna. Í skýrslu ráðherra er einkum fjallað um meðferð upplýsingabeiðna hjá aðilum sem falla undir upplýsingalög, meðferð kærumála hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda og endurnot opinberra upplýsinga. Gildandi upplýsingalög leystu að stærstum hluta af hólmi ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 en þau lög voru sett á Alþingi í maí 1996 og tóku gildi þann 1. janúar 1997. Eru því 20 ár síðan upplýsingalög voru fyrst sett hér á landi.

Í skýrslunni kemur fram að fjöldi erinda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur aukist umtalsvert undanfarin ár. Einstaklingar hafa staðið að stærstum hluta kærumála til úrskurðarnefndar um upplýsingamál í gildistíð gildandi upplýsingalaga eða tæpum 66% kærumála en þar á eftir koma fyrirtæki (23%), samtök (6%) og fjölmiðlar (5%). Umfang mála og fjöldi þeirra hefur gert það að verkum að hægt gengur að stytta málsmeðferðartíma. Vonir standa þó til að aukin fjárveiting sem nefndin fékk á þessu ári auk annarra aðgerða fari brátt að skila árangri að þessu leyti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum