Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. júní 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Jákvæðar tekjuhorfur hjá hinu opinbera í nýrri þjóðhagsspá

Ný þjóðhagsspá Hagstofunnar hefur jákvæð áhrif á tekjuáætlun ríkissjóðs og hins opinbera í heild. Spár stofnunarinnar eru notaðar sem forsendur fjárlagagerðar og nýja spáin er bjartsýnni um framvindu efnahagsmála en sú síðasta sem kom út í febrúar. Helstu niðurstöður eru þessar:

  • Nú er gert ráð fyrir 4,3% vexti í ár og 3,5% á því næsta en fyrri spá gerði ráð fyrir 4,0% vexti 2016 og 3,1% á því næsta.
  • Hagstofan spáir nú 6% vexti einkaneyslu í ár. Fyrri spá sem notuð var við gerð fjármálaáætlunar sem liggur fyrir Alþingi gerði ráð fyrir 5,2% vexti. Hagstofan birti í vikunni niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2016. Þar kemur fram að einkaneyslan hefur vaxið um 7,1% frá sama fjórðungi ársins 2015.
  • Spá fyrir samneysluna lækkar lítillega á milli febrúar og maí.
  • Vöxtur atvinnuvegafjárfestingar í ár verður meiri en áður var spáð og það á einnig við um vöxt opinberrar fjárfestingar næstu ár en hún hefur verið lítil á undanförnum árum.
  • Spáð er auknum vexti útflutnings, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna sem kemur einkum fram sem þjónustuútflutningur.
  • Verðbólguspáin breytist lítið, hún gerir ráð fyrir aðeins minni verðbólgu í ár og aðeins meiri árið 2017 en óbreytt fyrir næsta ár þar á eftir.
  • Spáin fyrir atvinnuleysi er lítið breytt en gerir ráð fyrir frekari minnkun á næstu árum en áður var spáð.
  • Atvinnulausum á skrá fækkaði alls um 1.420 manns á milli apríl í ár og apríl í fyrra eða um 31%.

Hin nýja þjóðhagsspá hefur jákvæð áhrif á tekjuáætlun ríkissjóðs og hins opinbera í heild. Efnahagsleg þróun ræður mestu um það hversu miklar tekjur ríkissjóður fær af hinum ýmsu sköttum. Nú eru horfur á að þeir þættir sem hafa mest áhrif á skattstofnana aukist meira á þessu og næsta ári heldur en gengið var út frá í fjármálaáætlun sem kynnt var í vor. Þetta eru þættir eins og vinnuaflseftirspurn, laun, kaupmáttur og einkaneysla. Þá hefur erlendum ferðamönnum fjölgað umfram spár og umsvif í ferðaþjónustu því aukist meira en í fyrri forsendum. Uppfærslan hefur einkum áhrif til hækkunar á tekjuáætlun ársins 2016. Áhrifin á tekjuáætlun ársins 2017 verða minni en þó er líklegt að þau verði einnig jákvæð fyrir ríkisfjármálin. Unnið er að endurmati tekjuáætlunarinnar, bæði á grundvelli nýrrar þjóðhagsspár og nýrra upplýsinga um álagningu og innheimtu skatta.

Hér fyrir neðan eru myndir sem sýna helstu stærðir sem spáð er um í þjóðhagsspá. Allar prósentutölur eiga við magnbreytingu frá fyrra ári, nema atvinnuleysishlutfall. 

Hagvöxtur

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum