Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. júní 2016 Forsætisráðuneytið

620/2016. Úrskurður frá 7. júní 2016

Úrskurður

Hinn 7. júní 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 620/2016 í máli ÚNU 14120002.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 18. nóvember 2014 kærði Hirzlan ehf. synjun innkaupadeildar Reykjavíkurborgar á beiðni um afhendingu gagna er varða tilboð þátttakenda í verðfyrirspurn nr. 13331. Í kæru gerir kærandi þá kröfu að innkaupadeild Reykjavíkurborgar verði gert að afhenda þau gögn og upplýsingar sem lágu til grundvallar við mat á tilboði AJ vörulistans ehf. og Pennans ehf. í umræddri verðfyrirspurn en aðeins tilboðum frá þessum aðilum hafi verið tekið.

Með erindi dags. 3. nóvember 2014 óskaði kærandi m.a. eftir því að fá afrit af tilboðum, sundurliðuðum, fyrir hvern afmarkaðan hluta verðfyrirspurnar Reykjavíkurborgar nr. 13331 frá þeim aðilum sem voru þátttakendur í verðfyrirspurninni. Erindinu var svarað með bréfi dags. 18. nóvember 2014 þar sem beiðninni var synjað á þeim grundvelli að gögnin innihaldi viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem eðlilegt sé að leynt fari. Reykjavíkurborg væri því óheimilt að veita aðgang að umbeðnum upplýsingum skv. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í kæru byggir kærandi rétt sinn til aðgangs á gögnunum á 5. gr. og 14. gr. upplýsingalaga. Ákvæði 14. gr. hafi verið skýrt svo að það taki ekki einvörðungu til upplýsinga um kæranda sjálfan heldur einnig til upplýsinga sem varða viðkomandi á þann hátt að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fá aðgang að gögnunum, umfram aðra. Kærandi telur að hann sem þátttakandi í verðfyrirspurn kærða teljist vera aðili í skilningi 14. gr. laga nr. 140/2012.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 21. apríl 2015 var kæran kynnt Reykjavíkurborg og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefndinni yrði afhent afrit umbeðinna gagna í trúnaði.

Í umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 30. apríl 2015, kemur fram að kröfu kæranda verði að skilja svo að átt sé við fyrirtækið Á. Guðmundsson ehf. en ekki AJ vörulistann þar sem engu tilboði hafi verið tekið frá síðarnefnda fyrirtækinu. Þá er tekið fram að ekki sé lagst gegn afhendingu þeirra gagna sem kæran taki til en að kæranda hafi verið veittar þær upplýsingar sem hann óski eftir með tölvupósti, dags. 23. október 2014. Þar hafi komið fram við hvaða aðila yrði samið, hvaða húsgögn yrðu fyrir valinu og hvert verð þeirra væri. Einu upplýsingarnar sem hafi legið til grundvallar við mat á tilboðum og fylgdu ekki framangreindum tölvupósti hafi verið myndir af viðkomandi vörum en myndirnar séu öllum aðgengilegar á vefsíðum bjóðenda. Þar sem þegar hafi verið orðið við kröfum kæranda beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Með umsögninni fylgdu gögn sem bjóðendur tóku saman og sendu kærða sem hluta af tilboði sínu.

Umsögn Reykjavíkurborgar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 4. maí 2015 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

Niðurstaða

1.       

Í málinu er deilt um aðgang að tilboðsgögnum frá tveimur bjóðendum vegna innkaupa Reykjavíkurborgar á skrifstofuhúsgögnum á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en kærandi var á meðal tilboðsgjafa. Ákvæði 14. gr. hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur t.d. litið svo á að þátttakandi í útboði teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en að til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda, sbr. t.d. A-418/2012. Sömu sjónarmið eiga við þegar um er að ræða verðfyrirspurn vegna opinberra innkaupa sem framkvæmd er á grundvelli innkaupareglna Reykjavíkurborgar frá 8. maí 2014.

Af kæru má ráða að hún taki til allra þeirra gagna sem innkaupadeildin hefur undir höndum frá umræddum bjóðendum og sem lágu til grundvallar ákvörðunartöku innkaupadeildarinnar um að taka tilboði þessara tveggja aðila, þ.m.t. afrit af tilboðum bjóðanda, sundurliðuðum fyrir hvern afmarkaðan hlut verðfyrirspurnar Reykjavíkurborgar eins og tekið er fram í upphaflegri gagnabeiðni kæranda. Þar af leiðandi verður ekki litið svo á að kærandi hafi þegar fengið umbeðnar upplýsingar eins og Reykjavíkurborg heldur fram.

2.       

Í 3. mgr. 14. gr. kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.

Í málum þar sem fjallað hefur verið um beiðnir um aðgang að einingaverðum í tilboðum útboða á vegum aðila er falla undir upplýsingalög hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál almennt komist að þeirri niðurstöðu að veita beri aðgang á grundvelli 9. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 14. gr. núgildandi upplýsingalaga, en þessar lagagreinar eru sama efnis. Hefur nefndin lagt áherslu á hagsmuni þeirra sem taka þátt í slíkum útboðum er lúta að því að rétt sé staðið að framkvæmd útboðanna og að almannahagsmunir standi til þess að veittur sé aðgangur að gögnum er varði ráðstöfun opinberra fjármuna. Þá sé rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum aðilum og að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera.

Þrátt fyrir þessi almennu sjónarmið verður að skoða í hverju tilviki fyrir sig hvort takmarka beri aðgang að slíkum upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga. Í upplýsingalögum er gert ráð fyrir að metið sé í hverju tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda viðkomandi fyrirtæki tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við þetta mat verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið getur orðið og hversu líklegt er að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram.

Í málinu liggur fyrir að þeir bjóðendur sem tilteknir eru í kæru leggjast gegn því að upplýsingarnar verði gerðar opinberar en af kæru má ráða að átt sé við þá aðila sem tilboði var tekið frá, þ.e. Pennann ehf. og Á. Guðmundsson ehf. Í tölvupósti frá Pennanum ehf. til Reykjavíkurborgar dags, 14. nóvember 2014 kemur fram að Penninn telji það óeðlilegt að samkeppnisaðilar fyrirtækisins fái afrit af tilboðum þess og þar með upplýsingar um framsetningu fyrirtækisins á tilboðum. Í tölvupósti frá Á. Guðmundssyni ehf. til Reykjavíkurborgar, dags. 17. nóvember 2014, er tekið fram að fyrirtækið veiti Reykjavíkurborg ekki heimild til að birta gögn úr verðfyrirspurninni og að fyrirtækið telji óheimilt að birta einingarverð bjóðenda.

Úrskurðarnefndin telur ekki að þær upplýsingar sem fram koma í tilboði umræddra bjóðenda séu þess efnis að það geti valdið þeim tjóni fái kærandi aðgang að þeim. Í hinum umbeðnu tilboðsgögnum er ekki að finna upplýsingar um sambönd umræddra bjóðenda við viðskiptamenn fyrirtækisins sem virðast til þess fallnar að skaða hagsmuni þess, þau viðskiptakjör sem fyrirtækið nýtur, álagningu þess eða afkomu. Lítur úrskurðarnefndin svo á að hagsmunir kæranda, af því að fá aðgang að gögnunum, vegi þyngra en hagsmunir umræddra bjóðenda af því að upplýsingunum verði haldið leyndum enda varða gögnin m.a. ráðstöfun opinberra fjármuna og hagsmuni kæranda af því að rétt hafi verið staðið að mati á tilboðum í umræddum innkaupum Reykjavíkurborgar.

3.       

Í umsögn Reykjavíkurborgar er tekið fram að kæranda hafi þegar verið veittar þær upplýsingar sem lágu til grundvallar við mat á tilboðunum að undanskildum myndum af vörunum sem þegar séu öllum aðgengilegar. Þar sem ekki liggur fyrir synjun stjórnvalds á afhendingu gagna verður því að vísa kæru frá hvað varðar þær upplýsingar sem þegar hafa verið veittar sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 140/2012.

Úrskurðarorð:

Reykjavíkurborg ber að afhenda kæranda tilboð Á. Guðmundssonar ehf. og tilboð Pennans ehf. í skrifstofuhúsgögn samkvæmt verðfyrirspurn Reykjavíkurborgar nr. 13331.

Kæru kæranda um afhendingu þeirra gagna og upplýsinga sem lágu til grundvallar við mat á tilboði Á. Guðmundssonar ehf. og tilboð Pennans ehf. í verðfyrirspurn nr. 13331 er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum