Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. júní 2016 Forsætisráðuneytið

621/2016. Úrskurður frá 7. júní 2016

Úrskurður

Hinn 7. júní 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 621/2016 í máli ÚNU 15030002.

Kæra og málsatvik

Með erindi þann 3. mars 2015 kærði A synjun Fjármálaeftirlitsins á beiðni um aðgang að upplýsingum um gögn sem liggja til grundvallar samþykki stofnunarinnar á nýrri réttindatöflu Lífsverks (Lífeyrissjóðs verkfræðinga) sem gilda eigi frá 1. janúar 2015.

Í kæru kemur fram að beiðni kæranda hafi lotið að gögnum í átta töluliðum. Fjármálaeftirlitið hafi veitt aðgang að gögnum í 1.-3., 5., 7. og 8. tölulið að fullu með vísan til 5. og 11. gr. upplýsingalaga en synjað um aðgang að gagni í þeim fjórða með vísan til 13. gr. laga nr. 87/1998, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá hafi FME veitt aðgang að gagni í sjötta tölulið að hluta með því að afmá nafn þess starfsmanns sem vann það. Töluliðirnir tveir voru orðaðir með eftirfarandi hætti í beiðni kæranda:

„4. Tryggingafræðileg úttekt á áhrifum breyting [svo] á samþykktum sjóðsins á getu hans til að greiða lífeyri (fylgigagn með umsagnarbeiðni).

6. Minnisblað FME, dags. 10. desember 2014, vegna umsagnarbeiðni [fjármála- og efnahags-] ráðuneytisins.“

Kærandi fer fram á að synjun Fjármálaeftirlitsins verði felld úr gildi og kærandi fái afhent afrit af tryggingarfræðilegu úttektinni og þeim forsendum sem hún byggist á. Jafnframt er farið fram á að ákvörðun um að afmá nafn starfsmanns sem vann minnisblað dags. 10. desember 2014 verði felld úr gildi og kærandi fái afhent minnisblaðið án útstrikana.

Kærandi telur að hvorki þagnarskylda samkvæmt 13. gr. laga nr. 87/1998 né takmarkanir á upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum eigi við um umbeðin gögn. Um sé að ræða ákvörðun sem varði sjóðsfélaga alla og umbeðin gögn séu ekki með neinum persónulegum upplýsingum um sjóðsfélaga lífeyrissjóðsins, varði ekki rekstarupplýsingar í samkeppnisrekstri og geti því ekki fallið undir almenna þagnarskyldu Fjármálaeftirlits um rekstur fjármálafyrirtækja. Ákvarðanir sem þessar eigi að vera gegnsæjar og sjóðsfélögum kunnar. Enn fremur er bent á 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem fram kemur að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum.

Kærandi segir að ekki verði séð að takmarkanir eigi við samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Skýra þurfi ákvæðið til samræmis við 8. tölulið 2. gr. laga um persónuvernd nr. 77/2000. Ekkert af því sem þar sé talið upp eigi við í máli þessu. Loks er rökum Fjármálaeftirlits um að minnisblað undir sjötta tölulið beiðni kæranda sé vinnugagn mótmælt. Minnisblaðið hafi verið afhent ráðuneyti sem umsögn og hafi því verið afhent öðrum í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Ráðuneytið sé ekki eftirlitsaðili á grundvelli lagaskyldu, enda sé Fjármálaeftirlitið eftirlitsaðili með lífeyrissjóðum samkvæmt 45. gr. laga nr. 129/1997.  

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 6. mars 2015 var Fjármálaeftirliti kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn Fjármálaeftirlitsins, dags. 23. mars 2015, er í upphafi vikið að því að beiðni kæranda hafi lotið að gögnum sem lágu til grundvallar samþykkis Fjármálaeftirlits á nýrri réttindatöflu Lífsverks. Fjármálaeftirlitið hafi leiðbeint kæranda um að ráðherra staðfesti breytingar á samþykktum lífeyrissjóða samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 129/1997. Samkvæmt ákvæðinu eigi ráðherra að afla umsagnar Fjármálaeftirlitsins. Kæranda hafi verið bent á framangreint í tölvupósti þann 9. febrúar 2015. Fjármálaeftirlitið hafi því afgreitt beiðnina á þann hátt að beðið væri um gögn sem lágu til grundvallar umsögn stofnunarinnar. Óskað hafi verið sjónarmiða ráðuneytisins varðandi afgreiðslu Fjármálaeftirlits en engin hafi borist. Fjármálaeftirlitið bendir í þessu samhengi á að í 16. gr. upplýsingalaga sé gert ráð fyrir að beiðni um aðgang að gögnum sé beint til þess sem tekið hefur ákvörðun í málinu.

Fjármálaeftirlitið kveðst hafa óskað eftir afstöðu Lífsverks til þess að kæranda yrði afhent gagn undir tölulið 4 í beiðni hans. Með hliðsjón af afstöðu Lífsverks afhenti Fjármálaeftirlitið kæranda gagnið þann 23. mars 2015. Með hliðsjón af því að gagnið hefur verið afhent krefst Fjármálaeftirlitið þess að þessum þætti kærunnar verði vísað frá.

Um minnisblað Fjármálaeftirlitsins undir tölulið 6 í beiðni kæranda kemur fram í umsögn stofnunarinnar að hún telji það vinnugagn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Minnisblaðið hafi verið útbúið af starfsmanni þess, til eigin nota til að undirbúa gerð umsagnar til ráðuneytisins. Minnisblaðið hafi aldrei verið afhent ráðuneytinu. Ekki komi þar fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu málsins heldur sé hana að finna í umsögn Fjármálaeftirlitsins til ráðuneytisins, dags. 12. desember 2014, sem stofnunin afhenti kæranda. Fjármálaeftirlitið kveðst hafa afhent kæranda umrætt minnisblað að hluta á grundvelli 11. gr. upplýsingalaga sem kveður á um heimild til að veita aðgang að gögnum í ríkari mæli en skylt er samkvæmt upplýsingalögum. Þar sem starfsmaðurinn sem nafngreindur er í minnisblaðinu tók ekki ákvörðun um endanlega afgreiðslu málsins hafi þótt málefnalegt að afmá nafn starfsmannsins. Fjármálaeftirlitið gerir þá kröfu að synjun stofnunarinnar í þessum hluta málsins verði staðfest.

Með bréfi dags. 24. mars 2015 var kæranda kynnt umsögn Fjármálaeftirlitsins vegna kærunnar og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að synja beiðni um aðgang að gögnum í tveimur töluliðum. Undir rekstri málsins hefur Fjármálaeftirlitið veitt kæranda aðgang að gögnum undir fjórða tölulið beiðni hans, þ.e. tryggingafræðilegri úttekt á áhrifum breytinga á samþykktum lífeyrissjóðsins Lífsverks. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á aðgangi að gögnum í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kæru er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þessu leyti.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni minnisblaðs sem kærandi krefst aðgangs að undir lið 6 í gagnabeiðni hans. Af hálfu Fjármálaeftirlitsins hefur komið fram að minnisblaðið hafi verið útbúið af starfsmanni þess, til eigin nota og hafi ekki verið afhent öðrum. Úrskurðarnefndin hefur ekki ástæðu til að draga þessar skýringar í efa. Það er jafnframt mat nefndarinnar að ekkert skilyrði 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga standi til afhendingar minnisblaðsins. Verður því fallist á með Fjármálaráðuneyti að um vinnugagn sé að ræða sem réttur almennings taki ekki til samkvæmt 5. tl. 6. gr. upplýsingalaga. Í máli þessu háttar svo til að Fjármálaeftirlitið hefur veitt kæranda aðgang að hluta skjalsins á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laganna. Með vísan til framangreinds verður synjun stofnunarinnar staðfest hvað varðar þá hluta skjalsins sem kæranda hefur ekki verið veittur aðgangur að eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Staðfest er synjun Fjármálaeftirlitsins, dags. 18. febrúar 2015, á beiðni A um aðgang að upplýsingum um nafn starfsmanns er ritaði minnisblað stofnunarinnar dags. 10. desember 2014 um umsagnarbeiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna breytingar á samþykktum Lífsverks lífeyrissjóðs.

Kæru kæranda er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum