Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. júlí 2016 Forsætisráðuneytið

Frumvarp um sjálfstæða mannréttindastofnun

Innanríkisráðuneytið hefur unnið drög að lagafrumvarpi um sjálfstæða mannréttindastofnun og eru þau birt hér til umsagnar. Í þeim er kveðið á um að komið verði á fót stofnun sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í Parísarviðmiðunum frá árinu 1993. Frumvarpið er mikilvægur liður í því að stjórnvöld geti fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Sjálfstæð mannréttindastofnun á vegum Alþingis

Frumvarpið felur í sér að stofnuð verði sjálfstæð og þjóðbundin mannréttindastofnun sem starfi á vegum Alþingis (e. National Human Rights Institution). Meginhlutverk hennar yrði að efla og vernda mannréttindi hér á landi eins og þau eru skilgreind í stjórnarskrá, lögum, alþjóðasamningum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum.

Mannréttindastofnun Íslands myndi jafnframt uppfylla kröfur sem gerðar eru til slíkra stofnana í svokölluðum Parísarviðmiðum en þau voru samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1993 og setja viðmið og leiðbeiningar um vinnu sjálfstæðra, innlendra mannréttindastofnana.

Sambærilegar stofnanir á hinum Norðurlöndunum

Á alþjóðavettvangi hefur í seinni tíð verið lögð vaxandi áhersla á að ríki starfræki sjálfstæðar mannréttindastofnanir. Til marks um það hefur verið settur þrýstingur á íslensk stjórnvöld að stíga þetta skref, m.a. í allsherjar úttekt Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda.

Á hinum Norðurlöndunum eru starfræktar sérstakar mannréttindastofnanir í Noregi, Finnlandi og Danmörku. Í Svíþjóð er hinum ýmsu umboðsmönnum aftur á móti falin afmörkuð verkefni á þessu sviði. Hérlendis hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands sinnt sambærilegu hlutverki og sjálfstæðar, þjóðbundnar mannréttindastofnanir gera. Skrifstofan fullnægir á hinn bóginn ekki Parísarviðmiðunum þar sem þau gera m.a. ráð fyrir  að lög kveði á um starfsemina, fullkomið sjálfstæði þessara stofnana og að þeim skuli tryggt fjármagn af ríkinu.

Hægt er að kynna sér mannréttindastofnanir í Noregi, Finnlandi og Danmörku á eftirfarandi vefjum:

 Undirbúningur að fullgildingu samnings um réttindi fatlaðs fólks

Með frumvarpinu er sem fyrr segir stigið stórt skref að því markmiði stjórnvalda að breyta löggjöf svo unnt sé að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem undirritaður hefur verið en bíður fullgildingar. Með honum var í fyrsta skipti kveðið á um hlutverk slíkrar stofnunar með beinum hætti í alþjóðasamningi. Í 2. mgr. 33. gr. samningsins er það skilyrði sett að til staðar sé stofnun sem sé hluti af eftirlitskerfi samningsins.

Stjórnvöld hafa unnið að fullgildingu samningsins að undanförnu. Hefur hvert ráðuneyti yfirfarið löggjöf á sínu málefnasviði og lagt til viðeigandi breytingar. Samkvæmt upphaflegri áætlun er þetta síðasta frumvarpið sem innanríkisráðherra leggur fram til að fullgilda samninginn. Rétt er þó að taka fram að í ráðuneytinu er nú verið að fara yfir athugasemdir sem Geðhjálp hefur gert í tengslum við breytingar á lögræðislögum sem voru liður í fullgildingarferlinu.

Þá hefur félags- og húsnæðismálaráðherra kynnt tvö frumvörp á vef velferðarráðuneytisins en tilefnið er meðal annars innleiðing samningsins. Verkefnið er því vel á veg komið og er nú unnið að því á vegum Stjórnarráðsins að setja saman tillögu til þingsályktunar sem heimilar ríkisstjórninni að fullgilda samninginn.

Drög að frumvarpi til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun Íslands eru birt hér til umsagnar. Unnt er að senda ráðuneytinu athugasemdir til og með 25. júlí og skulu þær berast á netfangið [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum