Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. ágúst 2016 Forsætisráðuneytið

Skýrsla um mannréttindamál send Sameinuðu þjóðunum

Skýrsla um stöðu mannréttindamála hér á landi hefur nú verið send til Sameinuðu þjóðanna en hún er hluti af reglubundinni allsherjarúttekt samtakanna á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjunum. Skýrslan verður tekin fyrir á fundi hjá vinnuhópi Sameinuðu þjóðanna í Genf í nóvember og er gert ráð fyrir að innanríkisráðherra verði viðstaddur fyrirtökuna.

Vinnuhópur með fulltrúum fimm ráðuneyta hefur á undanförnum mánuðum unnið að gerð skýrslunnar en fyrsta úttektin gagnvart Íslandi fór fram árið 2011. Bárust þá alls 84 tilmæli frá Sameinuðu þjóðunum um ýmis atriði sem færa mætti til betri vegar eða taka þyrfti til athugunar fyrir næstu úttekt.

Skýrsla stjórnvalda nú byggir einkum á þeirri afstöðu sem tekin var til tilmæla Sameinuðu þjóðanna frá 2011. Í henni er lýst hvernig Ísland hefur brugðist við þeim, sem og þeim breytingum sem orðið hafa á sviði mannréttindamála hér á landi á undanförnum árum.

Fram kemur hvaða alþjóðlegu mannréttindasáttmála Ísland hefur þegar undirritað og fullgilt og hvaða samninga stjórnvöld stefna að því að fullgilda. Þar á meðal má nefna alþjóðasamninginn um réttindi fatlaðs fólks, alþjóðasamning um vörn gegn þvinguðum mannshvörfum, tvo alþjóðasamninga um ríkisfangslausa einstaklinga og valfrjálsa bókun við alþjóðasamninginn um bann við pyndingum. Þá kemur fram að ætlunin sé að fullgilda tvo samninga á vegum Evrópuráðsins, Istanbúlsamninginn svokallaða sem lýtur að ofbeldi gegn konum og endurskoðaðan Félagsmálasáttmála Evrópu.

Þá er fjallað um stöðu mannréttinda á ýmsum sviðum, bæði það sem vel er gert en jafnframt er tekið mið af þeim tilmælum sem komu frá Sameinuðu þjóðunum árið 2011. Þá hefur verið tekið tillit til athugasemda sem bárust frá almenningi við undirbúning skýrslunnar eins og tilefni þóttu til. Málefni fatlaðs fólks, innflytjenda og flóttamanna, málefni barna, aðgerðir til að sporna við ofbeldi, menntamál, fangelsis- og dómsmál, tjáningar- og trúfrelsismál fá talsvert vægi í skýrslunni.

Loks er fjallað um þær áherslur sem íslensk stjórnvöld setja í forgang á sviði mannréttinda á alþjóðavettvangi, svo sem kynjajafnrétti og réttindi barna, auk baráttu gegn misrétti, sem og mansali.

Meðfyljandi er hér ensk útgáfa af skýrslunni en unnið er að þýðingu hennar yfir á íslensku. Verður íslenska útgáfan birt á vefnum þegar lokið hefur verið við frágang hennar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum