Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. ágúst 2016 Dómsmálaráðuneytið

Tölvubrotadeild lögreglu verði efld

Ólöf Nordal innanríkisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun áform um að efla tölvubrotadeild lögreglunnar með því að fjölga stöðugildum og bæta tæknimenntun lögreglumanna sem sinna tölvuglæpum. Er það meðal tillagna nefndar sem hafði það hlutverk að gera úttekt á umfangi ólöglegs niðurhals á netinu á höfundarréttarvörðu efni hér á landi og hvort íslensk lagaumgjörð veiti slíku efni nægjanlega vernd.

Innanríkisráðherra skipaði áðurgreinda nefnd síðla vetrar sem falið var að gera umrædda úttekt. Tilgangurinn var að greina stöðu þessara mála og setja fram tillögur um úrbætur. Formaður nefndarinnar var Brynjar Níelsson alþingismaður. Formaðurinn lagði fram drög að skýrslu nefndarinnar en ekki náðist full sátt um þau í nefndinni. Í drögunum koma fram ýmsar tillögur um úrbætur, ýmist á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisin eða innanríkisráðuneytisins. Tillögur á forræði innanríkisráðuneytis eru þessar:

  • Skipulagsbreyting við rannsókn og saksókn á málum af þessu tagi. Lagt var til að stofnuð yrði sérstök netbrotadeild lögreglu þar sem brot gegn rétthöfum höfundarréttarvarins efnis njóti forgangs.
  • Skylda fjarskiptafyrirtæki til þess að upplýsa notendur vefsvæða skráarskiptiforrita um hugsanleg lögbrot (viðvörun í "pop-up glugga").
  • Sett verði lög um landslénið .IS og rekstraraðila landslénsins (ISNIC), þar sem reglur yrðu settar um notkun íslenskra léna en engar reglur gilda nú um landslénið.

Mikilvægt er að kanna leiðir til að sporna gegn ólöglegu niðurhali á höfundarvörðu efni. Fram kom í upplýsingum sem innanríksráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi að samkvæmt nýrri skýrslu, sem unnin var fyrir Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndagerð um umsvif sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar á Íslandi, er tap innlendra höfundarrétthafa vegna ólöglegs niðurhals talið nema rúmum milljarði króna á ári.

Innanríkisráðherra telur nauðsynlegt að styrkja tölvubrotadeild lögreglu með því að fjölga stöðugildum og bæta tæknimenntun þeirra lögreglumanna sem sinna tölvuglæpum. Aðrar tillögur sem settar eru fram í drögum nefndarinnar og eru á forræði innanríkisráðuneytisins verða skoðaðar nánar. Tillögum sem lúta að verkefnum á sviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins verður vísað þangað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum