Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. ágúst 2016 Forsætisráðuneytið

Kortlagning hagsmuna Íslands á norðurslóðum

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun, að tillögu forsætisráðherra, skýrslu sem unnið hefur verið að um nokkurt skeið og ber heitið „Hagsmunir Íslands á norðurslóðum – Tækifæri og áskoranir“.  Sömuleiðis samþykkti ríkisstjórnin að standa fyrir útgáfu á  þýðingu skýrslunnar „Hagsmunir Íslands á norðurslóðum – Tækifæri og áskoranir“ svo og kynningu hennar sem verður á Akureyri 8. september 2016.

Ríkisstjórnin ákvað  í  október 2013 að setja á fót ráðherranefnd um málefni norðurslóða. Í nefndinni sátu forsætisráðherra, utanríkisráðherra, innanríkisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Á fyrsta fundi ráðherranefndarinnar um málefni norðurslóða, sem haldinn var 14. janúar 2014, var samþykkt, í samræmi við stefnumið nefndarinnar, að hefja vinnu við mat á hagsmunum Íslands á norðurslóðum. Drög  að hagsmunamatinu voru send til umsagnar og bárust á þriðja tug umsagna sem ber vott um mikinn áhuga og þekkingu á málefnum norðurslóða á Íslandi. 

,,Það er ánægjulegt að sjá þá miklu vinnu sem hefur verið unnin í málefnum norðurslóða.  Markmiðið með gerð hagsmunamatsins, sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun, er að kortleggja helstu hagsmuni Íslands í margslungnu umhverfi norðurslóða og er hagsmunamatinu þannig ætlað að vera innlegg í  umræðuna um þennan mikilvæga málaflokk,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og benti á  að nú þegar hafi verið ákveðið að hefjast handa við gerð aðgerðaáætlunar með það að leiðarljósi að tryggja mikilvæga hagsmuni Íslands.

Á alþjóðavettvangi er það Norðurskautsráðið, sem fagnar tuttugu ára afmæli á þessu ári, sem er mikilvægasti einstaki samráðsvettvangurinn þar sem fjallað er um málefni norðurslóða. Ákveðið var að tengja tímasetningu útgáfu hagsmunamats fyrir Ísland við þessi tímamót í sögu ráðsins.

Hagsmunamatinu er skipt í fimm efniskafla og niðurstöður. Í fyrsta kafla er varpað ljósi á þróun á alþjóðavettvangi og aukið vægi norðurslóða í alþjóðasamskiptum. Í öðrum kafla er sjónum beint að umhverfismálum og hlýnun loftslags, sem er megindrifkraftur þeirra breytinga sem eiga sér stað á norðurslóðum. Í þriðja kafla er horft til auðlindanýtingar og atvinnuþróunar á norðurslóðum, hvort heldur sem er í sjávarútvegi, landbúnaði, vinnslu olíu og gass eða ferðaþjónustu. Í fjórða kafla er fjallað um innviði og samgöngur í lofti, á láði og legi og í fimmta kafla, eru öryggismál tekin til skoðunar, en aukin umgengni um norðurslóðir kallar á margvísleg viðbrögð og vöktun. Í lokakafla er svo að finna samandregnar niðurstöður og þess freistað að horfa fram á veginn. Í öllum köflunum eru hagsmunir Íslands hafðir að leiðarljósi og dregnar fram þær áskoranir  sem í  þróun norðurslóða felast, sem og þær áskoranir sem nauðsynlegt er að hafa í huga og bregðast við.

Frekari upplýsingar um kynningu hagsmunamatsins 8. september verða sendar út innan skamms. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum