Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. september 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp ráðherra á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2016

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Djúpavogi 2. september 2016.

 

Formaður Skógræktarfélags Íslands‚ formaður Skógræktarfélags Djúpavogs, fulltrúar Djúpavogshrepps, ágætu aðalfundarfulltrúar, góðir gestir.

Það er mér mikil ánægja að fá að vera með ykkur við upphaf aðalfundar Skógræktarfélags Íslands hér á Djúpavogi. Þetta er í þriðja sinn sem ég hitti ykkur af þessu tilefni og ég verð að segja að það er alltaf jafn gaman að finna áhugann og eldmóðinn sem einkennir þennan hóp. 

Það er vel til fundið að halda aðalfundinn hér í þessum fallega bæ Djúpavogi - sem er eins og hann markaðssetur sig sjálfur opinberlega, bæði vinalegur og vistvænn.

Skógræktarfólk hefur sannarlega ástæðu til að horfa bjartsýnt til framtíðar. Árangur ykkar verka frá fyrri árum kemur betur og betur í ljós með hverju árinu. Ég hef farið víða í sumar og sannarlega er trjágróður um land allt vöxtulegur eftir þetta góða sumar. Þið vinnið landinu sannarlega gagn.  

Maður finnur jafnframt að haustið er að nálgast. Ég kom ofan af Héraði í gær og þar voru gullnir haustlitirnir að byrja að koma fram í lerkiskóginum.  Fljótlega verður hægt að taka undir með skáldkonunni Huldu sem orti um haustkomuna;

Haustið er hnigið á foldu,
hnigið á bliknandi lönd.
Sumarið fagra er flúið
af fjöllum og hafi og strönd.

Haustið framundan er tími ýmissa breytinga. Boðað hefur verið til þingkosninga í lok október og er verið að ræða og ganga frá ýmsum mikilvægum málum á Alþingi. Ég hyggst ekki gefa kost á mér til áframhaldandi þingsetu heldur hverfa að öðrum störfum að kosningum loknum. Þá opnast aftur tími og rými til að sinna ýmsum áhugamálum, ekki síst skógræktinni norður á Höllustöðum en þar hef ég fundið á eigin skinni hversu gefandi skógræktarstarfið er, og þá góðu tilfinningu að sjá gróður vaxa og dafna.

Góðir aðalfundargestir;

Verkefni umhverfis – og auðlindaráðherra eru sannarlega fjölbreytt. Sem dæmi um það er ég ný komin úr ferðalagi um Vestfirði og Snæfellsnes þar sem viðfangsefnin voru snjóflóðavarnir, náttúruvernd, steingervingar, gestamiðstöð, ferðamennska, uppbygging innviða og þjóðgarðar. Þetta eru fjölbreytt og spennandi verkefni.   

Ég hef lagt áherslu á fjöldamörg mál og aðgerðir í minni ráðherratíð. Þar er af ýmsu að taka, en nefna má áherslur á loftslagsmál í tengslum við Parísarsamkomulagið og eftirfylgni þess, afgreiðslu náttúruverndarlaga, draga úr sóun matvæla, bætt nýting, tryggja framgang rammaáætlunar, afgreiða og innleiða landsskipulagsstefnu, setja lög og skipuleggja fyrirkomulag á landsáætlun um uppbygginu innviða á ferðamannastöðum til verndar náttúru, auka framkvæmdir við innviði vegna náttúrverndar og svo eflingu skógræktar og landgræðslu.

Ég vil víkja aðeins að loftslagsmálunum, sem eru sannarlega eitt af stóru málum samtímans. Íslendingar tóku virkan þátt í aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins í París fyrir nær ári síðan, þeir samingar voru síðan undirritaðir í New York og nú liggur fyrir að fullgilda Parísarsáttmálann á næstu vikum á Alþingi. Við vinnum jafnframt af krafti með fjöldamörgum aðilum, að innleiðingu sóknaráætlunar Íslands í loftslagsmálum þar sem skógrækt og landgræðsla skipta miklu. Skógrækt er sannarlega hentug mótvægisaðgerð og er alltaf að koma betur og betur í ljós hversu mikið kolefni úr andrúmsloftinu skógar landsins geta bundið.

Annað mál sem ég vil nefna er sameining Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna í skógrækt í eina stofnun og aukinn stuðningur við hana, sem eitt af stóru verkefnunum sem ég hef beitt mér fyrir af krafti. Ég lít á þetta sem mikið framfaraskref sem færir saman krafta þeirra sem starfa að skógrækt á vegum ríkisins í eina öfluga stofnun. Skógræktin, eins og stofnunin nýja heitir með höfuðstöðvar á Egilsstöðum, er þekkingar og þjónustustofnun fyrir land og þjóð. Ég lít svo á að með því að sameina kraftana verði getan til að veita þjónustu meiri og samhæfðari en áður. Einnig verður stofnunin með öfluga starfsemi í öllum landshlutum. Það hefur tekist vel til með þessa sameiningu og vil ég nota tækifærið hér og þakka skógræktarstjóra og öllu hans góða fólki fyrir að hafa unnið að þessu að einurð og samheldni.

Jafnframt hefur á þessu kjörtímabili orðið verulegur viðsnúningur í fjárveitingum til skógræktar í landinu. Það - til viðbótar þeim kröftum og hagræði sem vonandi leysist úr læðingi við sameiningu skógræktarstarfsins - mun efla til muna ræktun nýrra skóga í landinu og umhirðu þeirra sem fyrir eru. 

Ágætur fundargestir;

Ég vil nota tækifærið hér og tilkynna um sérstakt verkefni sem hefur verið á teikniborðinu.  Ég hef mikinn áhuga á því að stuðla að aukinni skógrækt á skóglausum svæðum með það að markmiði að gera þau vænni til búsetu. Þar má m.a. horfa til svæða eins og Vestur- Húnavatnssýslu í þessu samhengi. Þá segja menn að þetta sé fyrst og fremst sauðfjárræktarhérað. Því er þá til að svara að þetta tvennt getur vel farið saman, með góðu skipulagi. Skógar geta veitt búfé skjól og með tíð og tíma orðið gjöfult beitiland með margfalt meiri framleiðni en núverandi gróðurfar býr yfir.  Þetta hef ég ekki bara rætt við skógræktarmenn heldur líka búfjárræktarmenn. Ég hef því falið Skógræktinni að vinna að  sérstöku átaksverkefni í skógrækt á þessu svæði þar sem væntanlega má fara í smiðju Skjólskóga á Vestfjörðum um aðferðafræði.  

Það er jafnframt áhugavert að leita nýrra leiða til að efla og fjármagna skógrækt í landinu. Þar má meðal annars nefna að í þingályktun sem samþykkt var á Alþingi í fyrra um skógræktarmál segir -  „Hraða þarf endurreisn skógarauðlindar á Íslandi í þágu lands og þjóðar“.  Í samræmi við þá þingsályktun hefur ráðuneytið áhuga á, að í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, verði ráðist í vinnu við að skoða skógrækt betur sem hugsanlegan fjárfestingarkost fyrir aðra en ríkisvaldið. Í því skyni liggja nú fyrir drög að samningi sem felur í sér að Skógræktarfélag Íslands í samstarfi við Skógræktina, skógareigendur og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinni greinargerð sem taki saman möguleg styrktarform til skógræktar, kosti og galla mismunandi stuðningskerfa, arðsemisútreikninga og greini mögulegar leiðir til að hvetja til fjárfestinga í skógrækt. Með slíka vinnu í höndunum er hægt að gera sér mun betur grein fyrir möguleikum þess að laða að fjármagn til málaflokksins. Þetta á að vera tilbúið strax á næsta ári.

Ágætu aðalfundargestir;

Það er óneytanlega stórbrotið landslag og fallegt hér í kringum Búlandstind. Og kraftmikið og hugmyndaríkt samfélag hér á Djúpavogi sem miklu skiptir að geti eflst og dafnað á næstu árum. Þið eigið eftir að eiga hér góða daga á Djúpavogi og eins sé ég í dagskrá fundarins, að þið eigið eftir að fara í kynnisferðir hér í nágrenninu. Ég vil auðvitað nota tækifærið og beina sjónum ykkar að góðu samstarfi umhverfisyfirvalda og Djúpavogshrepps hér inn á Teigarhorni, en í kjölfar þess að ríkið keypti jörðina var hún friðlýst sem fólkvangur og eru þar mörg verkefni, sem vinna þarf að í samstarfi á næstu árum.  

Og aftur koma ljóðmæli þingeysku skáldkonunnar Huldu í hugann sem eiga vel við hér undir Búlandstindi:

Hér er frítt – þó skorti skóg
og skjól sé lítt – 
kveldskin hlýtt og hugrúm nóg
við hafið vítt.

Ég vil aftur þakka fyrir boðið hingað og árnaðaróskir til Skógræktarfélags Íslands og til Skógræktarfélags Djúpavogshrepps. Og ég vona að þið eigið starfsaman og árangursríkan aðalfund.

Takk fyrir.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum