Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. september 2016 Dómsmálaráðuneytið

Samið um samstarf um aðstoð við sjálfviljuga heimför umsækjenda um vernd

Ragnhildur Hjaltadóttir flutti ávarp á fundi þegar samningurinn var kynntur. - mynd
Útlendingastofnun og Alþjóða fólksflutningastofnunin (International Organization for Migration, IOM) hafa samið um tilraunaverkefni sem snýst um aðstoð við sjálfviljuga heimför umsækjenda um vernd á Íslandi. Viðræður fulltrúa IOM, Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytis hafa staðið síðustu misseri. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, sagði við kynningu á samningnum að hann væri mikilvægur liður í þeim umbótum í útlendingamálum sem ráðuneytið og samstarfsaðilar hefðu unnið að.

Alþjóða fólksflutningastofnunin rekur sambærileg verkefni víða um Evrópu, meðal annars í Danmörku, Finnlandi og Noregi, í samvinnu við þarlend stjórnvöld. Meginmarkmið samningsins er að gera umsækjendum um vernd mögulegt að snúa aftur til síns heima með mannúðlegum hætti í öruggar aðstæður án aðkomu lögreglu. Aðstoðin beinist fyrst og fremst að umsækjendum sem hafa annaðhvort dregið umsókn sína til baka eða verið synjað um vernd hér á landi. Í henni felst meðal annars ráðgjöf og stuðningur varðandi samskipti við stjórnvöld og ferðatilhögun.

Alþjóða fólksflutningastofnunin hefur frá stofnun, árið 1951, unnið náið með stjórnvöldum, alþjóðlegum stofnunum og einkaaðilum um heim allan að því að tryggja skipulagða og mannúðlega stjórnun fólksflutninga. Frá árinu 1979 hefur stofnunin aðstoðað hátt í 1,4 milljónir einstaklinga við sjálfviljuga flutninga til heimaríkis. Stofnunin leggur áherslu á heildstæða nálgun við skipulag aðstoðar við sjálfviljuga heimför og hefur að leiðarljósi virðingu fyrir mannlegri reisn og réttindum þeirra sem í hlut eiga.

Eins og Útlendingastofnun hefur áður greint frá hafa aldrei jafnmargir sótt um vernd á einum mánuði hér á landi og í ágúst síðastliðnum. Heildarfjöldi umsókna um vernd það sem af er ári er þegar meiri en allt síðasta ár, sem gerir árið 2016 þar með metár í fjölda hælisumsókna. Að sama skapi hefur þörfin aukist fyrir að bjóða upp á sérhæfða aðstoð við þá sem vilja snúa aftur til heimaríkis á öruggan og mannúðlegan hátt án aðkomu stjórnvalda.

Fulltrúar Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar eru staddir hér á landi til að funda með fulltrúum Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytisins um framkvæmd samningsins. Þeir munu einnig kynna samninginn og starfsemi Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar fyrir hagsmunaaðilum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum