Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. september 2016 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ræðir mannréttindamál við tyrkneska ráðamenn

Lilja og Mevlüt Çavuşoğlu. - mynd

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra átti í gær fund með Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem hófst formlega í New York í dag. Á fundinum áttu ráðherrarnir hreinskiptar umræður um stöðu mála í Tyrklandi eftir valdaránstilraunina í sumar. „Ég áréttaði fordæmingu okkar á valdaránstilrauninni sem beindist gegn lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum og samúð með tyrknesku þjóðinni. Þá greindi ég utanríkisráðherranum jafnframt frá afstöðu okkar sem lúta að því að mannréttindi séu virt í hvívetna. Það var fróðlegt að heyra sjónarmið tyrkneskra stjórnvalda frá fyrstu hendi og við vorum sammála um mikilvægi þess að tyrknesk stjórnvöld vinni áfram náið með Evrópuráðinu og öðrum alþjóðastofnunum," segir Lilja. Á fundinum ítrekaði utanríkisráðherra jafnframt mikilvægi þess að virða sjálfstæði dómstóla. Auk þess að hitta Çavuşoğlu átti Lilja jafnframt átti stutt spjall við Recep Erdogan, forseta Tyrklands, þar sem sömu mál bar á góma.

Í gær var var efnt til ráðherrafundar um flóttamannamál hjá Sameinuðu þjóðunum og í ræðu sinni og reifaði Lilja hvaða leiðir væru færar til að mæta þeim miklu áskorunum sem birtust í flóttamannavandanum víða um heim. Sagði ráðherra ábyrgð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna mikla og nauðsynlegt væri að koma í veg fyrir átök og finna friðsamlegar lausnir, m.a. í Sýrlandi. Í þessu samhengi áréttaði ráðherra mikilvægi þess að konur kæmu að friðarviðræðum og sáttaumleitunum og sagði að aukin aðkoma kvenna að friðarviðræðum eykur bæði líkur á að friður náist og að hann haldist til lengri tíma litið. „Með því að auka hlut kvenna í þessum málaflokki er hægt að leita lausna við mörgum þeirra vandamála og stuðla að mannúðlegri heimi. Konur verða að eiga sæti við borðið," sagði Lilja Alfreðsdóttir. Lilja gerði ennfremur grein fyrir framlögum Íslands til flóttamannavandans, þ.m.t. 2,4 milljón Bandaríkjadala framlagi til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og mannaúðaraðstoðar í Sýrlandi.

Í dag átti utanríkisráðherra fund með úkraínskum starfbróður sínum, Pavlo Klimkin, þar sem staða mála í Úkraínu var rædd. Afhenti Lilja úkraínska utanríkisráðherranum úttekt sem íslensk orkumálayfirvöld hafa gert um jarðhitamál í Úkraínu. Þá átti utanríkisráðherra fund með norrænu utanríkisráðherrunum þar sem málefni allsherjarþingsins voru til umræðu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum