Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. september 2016 Innviðaráðuneytið

Málþing um verkefnastjórnsýslu

Frá málþingi um verkefnastjórnsýslu sem haldið var á vegum innanríkisráðuneytis og Háskólans í Reykjavík. - mynd
Innanríkisráðuneytið stóð í dag fyrir málþingi undir heitinu: Markviss notkun fjármuna til samgönguframkvæmda í samvinnu við Háskólann í Reykjavík. Þar fjölluðu  sérfræðingar um verkefnastjórnsýslu þ.e. um undirbúning og verklag við opinberar framkvæmdir. Einnig var kynnt skýrslan Verkefnastjórnsýsla: Markviss notkun fjármuna til samgönguframkvæmda en innanríkisráðherra skipaði seint á síðasta ári vinnuhóp til að kana hvernig háttað væri undirbúningi, kostnaðarmati og útboðum stærri verka.

 

Ólöf Nordal flutti ávarp við upphaf málþingsins.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra setti málþingið og undirstrikaði það sem fram kemur í áðurnefndri skýrslu að mikilvægt sé að nýta þekkingu og reynslu verkefnastjórnsýslu, það gæti skilið á milli þess hvort framkvæmd væri vel heppnuð eða misheppnuð. Sagði ráðherra mikilvægt að stjórnvöld og opinberar stofnanir þekktu það sem nýjast væri í þeirri aðferðafræði og beittu henni, mikilvægt að nýta reynslu og þekkingu nágrannaþjóða og með verkefnastjórnsýslu væri bæði stefnt að því að bæta verklag og tryggja hagkvæma nýtingu fjármuna. Hún sagði mikla fjárhagslega hagsmuni í húfi við samgönguframkvæmdir, Vegagerðin verði milli 30 og 40 milljörðum króna árlega í stofnframkvæmdir, viðhald og þjónustu og unnið væri að nokkrum umfangsmiklum verkefnum um þessar mundir og fleiri í sjónmáli. Í lokin þakkaði hún Háskólanum í Reykjavík fyrir frumkvæði hans við kennslu í verkefnastjórnsýslu og rannsóknir á því sviði

Aðalfyrirlesari málþingsins var Gro Holst Volden frá Noregi. 

Aðalfyrirlesari málþingsins var Gro Holst Volden, rannsóknarstjóri hjá Tækni- og náttúruvísindaháskóla Noregs í Þrándheimi og var heiti fyrirlesturs hennar á ensku: The Norwegian governance scheme for major public investment projects. Fjallaði hún um reynslu Norðmanna af þessari hugmyndafræði og hvernig hún hefði meðal annars nýst við framkvæmdir á sviði vegagerðar, járnbrauta, í varnarmálum, upplýsingatækni og á fleiri sviðum. Kom fram í máli hennar að um 80% verkefna væri lokið innan kostnaðaráætlunar.

Taka þarf upp áhættugreiningu

Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneyti, kynnti skýrsluna: Verkefnastjórnsýsla; Markviss notkun fjármuna til samgönguframkvæmda sem finna má á vef innanríkisráðuneytisins. Er í henni fjallað um helstu þætti í verkefnastjórnsýslu, um íslenska löggjöf, stöðu verkefnastjórnsýslu hjá íslenskum ríkisfyrirtækjum og stofnunum og tækifæri til úrbóta. Í skýrslunni eru settar fram tillögur um úrbætur og sagði Sigurbergur þær meðal annars snúast um að samræma reglur, verkferla og leiðbeiningar fyrir stærri verk, að taka upp áhættugreiningar og skilgreina verkefni og verkferla. Einnig nefndi hann að varðandi samgönguverkefni sérstaklega mætti huga að endurskoðun laga um samgönguáætlun.

Fyrirlesarar frá HR voru þeir dr. Helgi Þór Ingason, prófessor og forstöðumaður MPM námsins við tækni- og verkfræðideild HR, og dr. Þórður Víkingur Friðgeirsson, lektor og forstöðumaður CORDA við tækni- og verkfræðideild HR. Nefndu þeir erindi sitt: Fjárhagslegt vægi verkefnastjórnunar í samfélaginu. Ræddu þeir hvernig tækniþekking, hegðun og samhengi eigi að vera leiðarljós við val á verkefnum og að verkefnastjórnun skipti máli í stefnumörkun stjórnvalda, fyrirtækja og áherslur í menntun og þjálfun. Kom fram í máli þeirra að verkefnastjórnun væri talsvert notuð hérlendis í stórum og meðalstórum fyrirtækjum.

Halldóra Vífilsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, flutti erindi sem hún nefndi: Að vera á tánum. Hagkvæmni, gæði og skilvirkni í opinberum framkvæmdum. Fór hún yfir helstu þættina við feril opinberra framkvæmda sem eru frumathugun, áætlunargerð, verkleg framkvæmd og skilamat. Hún sagði ýmsar aðferðir til að ná árangri sem væri vöktun, sýnileg stjórnun og mælingar og ýmis tækifæri til að bæta áætlanir, svo sem betri hagkvæmniathuganir, áhættugreiningar, óvissugreiningar og að gripið sé til aðgerða við frávik. Einnig nefndi hún að mannlegi þátturinn og viðhorf skiptu miklu máli við verkefnastjórnun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum