Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. september 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Leiðrétting á rangfærslum um lyfjamál

Lyfjaafgreiðsla
Lyfjaafgreiðsla

Hvorki velferðarráðuneytið né aðrir aðilar hér á landi veita fyrirtækjum einkaleyfi fyrir sölu á lyfjum, líkt og lækningaforstjóri SÁÁ heldur ranglega fram í frétt í Fréttablaðinu í dag í umfjöllun um verð á B1 vítamíni í sprautuformi. Lyfsala er háð ströngum reglum um markaðsleyfi sem stjórnvöld eru bundin af.

Þórarinn Tyrfingsson lækningaforstjóri SÁÁ, heldur því fram í Fréttablaðinu í dag að ríkið hafi veitt einu fyrirtæki einkaleyfi á B-vítamínmarkaði á Íslandi. Afleiðingin sé sú að Vogur þurfi nú að greiða 47 sinnum hærra verð fyrir lyfið en áður og segir Þórarinn þetta vera „í grunninn klúður úr heilbrigðisráðuneytinu“.

Þar sem um alvarlegar og rangar staðhæfingar er að ræða vill velferðarráðuneytið koma eftirfarandi upplýsingum um staðreyndir málsins á framfæri:

Velferðarráðuneytið fer með yfirstjórn lyfjamála hér á landi í samræmi við lyfjalög nr. 93/1994 en markmið þeirra er „að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði [eða samkvæmt stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu]“.

  • Lögbundið er að lyf skuli ekki seld hér á landi nema þau hafi áður fengið markaðsleyfi sem Lyfjastofnun veitir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Við sérstakar aðstæður getur Lyfjastofnun veitt undanþágu frá markaðsleyfi fyrir sölu lyfs, ef enginn aðili hefur sótt um markaðsleyfi en nauðsynlegt að tryggja framboð lyfs með þá verkun sem um ræðir.
  • B-vítamín stungulyfið sem notað hefur verið á Vogi á síðustu misserum er dæmi um lyf sem selt hefur verið án markaðsleyfis á grundvelli undanþágu.
  • Icepharma (fyrir hönd Abcur AB) sótti á síðasta ári um markaðsleyfi fyrir lyfið Tiacur (B1 vítamín, stungulyf) og var það skráð í lyfjaverðskrána í september sama ár. Þar með var ekki lengur heimilt að selja fyrrnefnt lyf þar sem forsenda fyrir undanþágunni var brostin.
  • Annars staðar á Norðurlöndunum (að Finnlandi undanskildu) er Tiacur eina B1 vítamín stungulyfið í lyfjaverðskrám. Meðalverðið á Norðurlöndunum er 22.855 kr. en hér á landi kostar það 20.097 kr. (miðað við 1. sept síðastliðinn).

Kristján Þór (2)Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir slæmt að drepa mikilvægri umræðu á dreif með rangfærslum: „Heilbrigðisyfirvöld verða að fara eftir settum lögum og reglum á þessu sviði sem öðrum. Hins vegar er fákeppnin sem við búum við alvarlegt umhugsunarefni. Hún stendur raunverulegri samkeppni fyrir þrifum og ég tel að við ættum nú að beina sjónum okkar að því hvort álagning á lyfjamarkaðinum sé raunhæf og réttlætanleg eða hvort hún sé farin út fyrir öll eðlileg mörk.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum