Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. september 2016 Forsætisráðuneytið

648/2016. Úrskurður frá 20. september 2016

Úrskurður

Hinn 20. september 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 648/2016 í máli ÚNU 15110002.  

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 30. október 2015 kærði A synjun innanríkisráðuneytisins á afhendingu afrits af gögnum um skilnað foreldra sinna. Í kæru er tekið fram að systkini kærenda séu „til í að setja sína kennitölu með sem undirskrift“ og fylgja nöfn þeirra og kennitölur. Tekið er fram í kæru að foreldrar kærenda séu látnir og það sé systkinunum mikils virði að fá aðgang að skilnaðargögnunum. Ekki standi til að gera gögnin opinber heldur muni kærendur halda gögnunum fyrir sig.  

Gagnabeiðni kærenda er dags. 9. september 2015. Þar kemur fram að kærendur vilji skoða skjöl um sig sjálf. Þá er sérstaklega óskað eftir afritum af skjölum um skilnað foreldra kærenda. Innanríkisráðuneytið svaraði fyrirspurninni þann 17. september þar sem fram kemur að beiðni þurfi að koma frá kærendum eða undirritað umboð frá þeim um afhendingu á þessum gögnum, svo að ráðuneytið geti tekið beiðnina til skoðunar. Þann 15. september 2015 sendi A, ein kærenda, skriflega gagnabeiðni til ráðuneytisins.  

Beiðninni var synjað með bréfi dags. 5. október 2015 með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem umbeðin gögn hafi að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Umbeðin gögn hafi að óverulegu leyti að geyma upplýsingar um A sem erfitt sé að aðgreina með nákvæmum hætti frá öðrum viðkvæmum upplýsingum sem snerti einkamálefni annarra.  

Málsmeðferð

Innanríkisráðuneytinu var kynnt kæran með bréfi dags. 12. nóvember 2015 og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Með bréfi dags. 30. nóvember 2015 upplýsti innanríkisráðuneytið að það teldi ekki ástæðu til að senda nefndinni frekari rökstuðning. Með bréfi dags. 10. desember 2015 veitti úrskurðarnefndin A kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum í málinu. Engar athugasemdir bárust.  

Þann 4. ágúst 2016 hafði starfsmaður úrskurðarnefndarinnar samband við A í því skyni að sannreyna hvort systkini hennar væru aðilar að gagnabeiðninni. Alls bárust staðfestingar þess efnis frá þremur systkinum A; B, C og D.  

Niðurstaða

Í málinu reynir á rétt kærenda til aðgangs að gögnum um skilnað foreldra sinna. Meira en 30 ár eru frá því að gögnin urðu til. Fer því um aðgang að þeim eftir lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014, sbr. 4. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Til álita kemur hvort réttur til aðgangs að gögnunum fari samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn þar sem mælt er fyrir um rétt aðila til aðgangs að skjölum um hann sjálfan með þeim takmörkunum sem kveðið er á um í lögunum. Sambærilegt ákvæði er að finna í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga en í framkvæmd hefur ákvæðið verið skýrt þannig að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingar varða hann sjálfan þannig að hann hafi einstaklega hagsmuni af því umfram aðra að fá aðgang að gögnunum.  

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni gagnanna en þar meðal annars fjallað um forræði yfir kærendum og aðstæður á heimili þeirra í æsku. Verður því að líta svo á að gögnin geymi upplýsingar um kærendur og fer því um aðgang að þeim eftir 30. gr. laga nr. 77/2014.   

Réttur kærenda til aðgangs að gögnunum er meðal annars takmarkaður af 2. mgr. 30. gr. laga nr. 77/2014. Þar segir að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að skjölum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang. Sambærilega takmörkun er að finna í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Í málinu reynir því á hvort hagsmunir foreldra kærenda, sem nú eru látnir, og þeirra systkina kærenda sem ekki hafa staðfest aðild sína að málinu, vegi þyngra en hagsmunir kærenda af því að fá aðgang að gögnunum.  

Í 71. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. má ekki gera rannsókn á skjölum manns eða sambærilega skerðingu á einkalífi hans nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Ákvæðið er ekki bundið því skilyrði að sá sem rannsóknin varðar sé á lífi. Verður því að telja að foreldrar kærenda heitnir njóti þeirrar verndar æru og friðhelgi einkalífs sem ákvæðið mælir fyrir um. Samkvæmt 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar má með sérstakri lagaheimild takmarka friðhelgi einkalífs ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Telja verður að 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 30. gr. laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 mæli fyrir um slíkar heimildir. 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni umbeðinna gagna. Öll fjalla þau um foreldra kærenda og lög- og samskipti þeirra fyrir og eftir lögskilnað. Gögnin teljast því varða einkamálefni einstaklinga. 

Ákvæði 3. mgr. 9. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sem svarar til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, hefur verið skýrt á þá leið að sá sem beiðist aðgangs að gögnum um einkamálefni annarra þurfi að sýna fram á sérstaka lögvarða hagsmuni af því að kynna sér þau. Úrskurðarnefndin telur að skýra beri 2. mgr. 30. gr. laga um opinber skjalasöfn með sama hætti. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. A-294/2009 féllst nefndin á að gögn um heilsufar afa og ömmu kæranda í málinu, sem voru látin þegar hann beiddist aðgangs, gætu varpað ljósi á hæfi þeirra til að ráðstafa tilteknum eignum sínum, en kærandi í málinu var lögerfingi þeirra þegar ráðstöfunin var gerð. Í málinu sem hér er til úrlausnar hafa kærendur hins vegar ekki vísað til þess að þeir hafi aðra hagsmuni af aðgangi að umbeðnum gögnum en að aðgangur geti orðið til þess að þeir gætu lokið ótilgreindum persónulegum málum.  

Í máli þessu vegast á annars vegar hagsmunir kærenda af því að fá afhent gögn um skilnað foreldra sinna, þar sem fram koma ýmsar upplýsingar um kærendur sjálfa, og  hins vegar sjónarmið um friðhelgi einkalífs foreldra þeirra, sem báðir eru látnir. Þótt hjónaskilnaður sé alla jafna viðkvæmt mál þeirra sem í hlut eiga getur hann ekki að öllu leyti talist einkamálefni. Má þar sem dæmi nefna að skrá þarf hjúskaparstétt opinberri skráningu og sömuleiðis hvernig ákveðnum eignum er ráðstafað. Lögerfingjar geta einnig í ákveðnum tilvikum átt lögvarinna hagsmuna að gæta bæði þegar skilnaður fer fram og síðar. Enda þótt kærendur hafi ekki rökstutt beiðni sína með öðrum rökum en þeim að umbeðinn aðgangur að gögnum geti orðið til þess að þeir geti lokið ótilgreindum persónulegum málum þykir úrskurðarnefndinni, eins og málum er hér háttað, að ákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 eigi ekki að koma í veg fyrir aðgang þeirra að umbeðnum gögnum. Ber því innanríkisráðuneytinu að heimila þeim aðgang að gögnunum. 

Úrskurðarorð:

Innanríkisráðuneytinu ber að afhenda kærendum, A, B, C og D, gögn um skilnaðarmál foreldra þeirra, sem fylgdu bréfi ráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. nóvember 2015. 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum