Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. október 2016 Utanríkisráðuneytið

Jarðhitaskólinn útskrifar 34 sérfræðinga

Nemendur Jarðhitaskólans - mynd

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifaði síðastliðinn föstudag 34 sérfræðinga úr sex mánaða námi. Aldrei hafa fleiri sérfræðingar útskrifast í einu frá skólanum. Nemendurnir komu frá 15 löndum og sérfræðingar frá Ungverjalandi voru nú í fyrsta sinn á meðal nema við skólann. Hlutfall kvenna meðal sérfræðinganna var einnig hærra en nokkru sinna áður, eða 41%.

Jarðhitaskólinn hóf göngu sína árið 1979. Hann er nú elsti samfellt starfandi skóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Alls hefur skólinn útskrifað 647 nemendur frá 60 þjóðríkjum.

Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri hrósaði starfi Jarðhitaskólans í ávarpi við útskriftina og nefndi sérstaklega þann árangur sem náðst hefur á sviði jafnréttismála í starfseminni. Hann sagði að jarðhitarannsóknir væru oft taldar karllæg viðfangsefni í samstarfslöndum Jarðhitaskólans en stjórn hans og starfsfólk leggi áherslu á að jafna aðgengi beggja kynja að náminu. Stefán Haukur vakti einnig athygli á þeim árangri sem fyrrverandi nemendur skólans hafa náð og minntist í því samhengi á að í september á þessu ári varð nemandi skólans önnur konan frá Afríku sem útskrifast með doktorsgráðu frá Háskóla Íslands.

Starf Jarðhitaskólans er mikilvægur þáttur í því að vinna að nýlega samþykktum Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með því að styrkja mannauð í jarðhitageira þróunarríkja stuðlar skólinn að auka sjálfbært aðgengi fólks í þeim ríkjum að nátúruvænni orku en nú er raunin. Þannig styður starfið einnig við markmið Parísarsamningsins um loftlagsmál, en utanríkisráðherra afhenti Ban Ki-moon aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fullgildingarskjal Íslands vegna samningsins á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 22. september síðastliðinn.

Á Íslandi starfa fjórir skólar undir hatti Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Jarðhitaskóli, Sjávarútvegsskóli, Landgræðsluskóli og Jafnréttisskóli. Skólarnir fjórir eru hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum