Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. október 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Lifandi kennslustofa um loftslagsbreytingar

Á sýningunni verður hægt að kynna sér bráðnun jökla á svæðinu. - mynd

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, sótti á dögunum þjóðgarðssvæðið í Skaftafelli heim þar sem hún kynnti sér m.a. undirbúning sýningar sem áformað er að setja upp í Skaftafelli um bráðnun jökla.

Sýningin er liður í verkefni í sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, sem ber heitið „Jöklar Íslands – lifandi kennslustofa um loftslagsbreytingar“. Meðal annars stendur til að útbúa merkingar í landslaginu við skriðjöklana í Skaftafelli þannig að hægt verði að sjá með berum augum hversu mikið þeir hopa ár frá ári (eða skríða fram). Verkefnið er unnið í samstarfi Vatnajökulsþjóðgarðs og Veðurstofu Íslands, en einnig hefur Náttúrustofa Suðausturlands komið að því.

Vísindamenn telja að áhrifa hlýnunar sé nú þegar farið að gæta í náttúru Íslands og að verulega meiri áhrifa sé að vænta á þessari öld. Allir jöklar landsins sem ekki eru framhlaupsjöklar hopa nú hratt og talið er að þeir muni hverfa að mestu leyti á næstu 100-200 árum ef svo fer fram sem horfir. Aðgengi að jökulsporðum er óvíða í heiminum betra en á Íslandi og þá einkum sunnanmegin í Vatnajökli, sem getur því með réttu talist „lifandi kennslustofa“ um loftslagsbreytingar nú og í framtíðinni. Talið er að þessi tenging vísindalegrar vöktunar, fræðslu og ferðaþjónustu geti vakið mikla athygli.

Ráðherra ásamt gestgjöfum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum