Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. október 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga

Eygló Harðardóttir og Willum Þór Þórsson - mynd

Starfshópur sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði árið 2014 til að vinna að endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, auk þess að vinna að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, skilaði ráðherra tillögum sínum í dag.

Starfshópurinn var fjölskipaður þar sem í honum áttu sæti fulltrúar frá ráðuneytum, hagsmunsamtökum fatlaðs fólks og eldri borgara, fulltrúum sveitarfélaga, samtökum félagsmálastjóra, Rauða krossi Íslands og kirkjunni. Formaður hópsins var Willum Þór Þórsson.

Í upphafi var stefnt að því að sameina lagabálkana í ein lög, en fljótlega var horfið frá því og þess í stað ákveðið að setja í forgang breytingar sem nauðsynlegt er að gera til þess að innleiða í lög ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Snemma í starfi hópsins varð ljóst að víðtækara samstarf væri nauðsynlegt til að endurskoða kaflann um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, vegna samspils milli kerfa og leggur hópurinn til að því verkefni verði komið í sérstakan farveg.

Niðurstöður starfshópsins birtast í drögum að tveimur lagafrumvörpum sem hann hefur samið. Annað þeirra felur í sér tillögu að nýrri heildarlöggjöf um þjónustu við fatlað fólk og hins vegar frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Markmiðið er meðal annars að skerpa á skilum milli þessara lagabálka og skýra samspil milli þeirra. Þannig verði annars vegar fjallað um þá sem þurfa sérstakan stuðning vegna mikilla þjónustuþarfa í lögum um þjónustu við fatlað fólk, en í lögum um félagsþjónustu verði fjallað um þá sem hafi minni þörf fyrir þjónustu.

Í drögum hópsins að frumvarpi til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk eru mörg nýmæli. Meðal annars er gert ráð fyrir lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA), kveðið verði á í lögum um þjónustuteymi, einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir og úrræði vegna barna með samþættan geð- og þroskavanda. Auk þessa er gert ráð fyrir að ákvæði um akstursþjónustu verði færð inn í lög um félagsþjónustu og útvíkkuð þannig að þau nái jafnframt til akstursþjónustu fyrir aldraða. Loks er í báðum frumvarpsdrögunum skertp á stjórnsýslu, málsmeðferð og eftirliti.

Í tillögum sínum til félags- og húsnæðismálaráðherra óskar starfshópurinn eftrir því að drög hans að lagafrumvörpum verði tekin til frekari vinnslu og samráðs á vegum velferðarráðuneytisins. Jafnframt verði skipaður starfshópur hið fyrsta til að endurskoða fyrirkomulag fjárhagsaðstoðar á vegum sveitarfélaganna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum