Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. október 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Skaðaminnkunar-verkefnið Frú Ragnheiður fær 5 m.kr. styrk

Frá undirritun samnings um styrk til Frú Ragnheiðar í velferðarráðuneytinu - mynd

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Rauða krossinum í Reykjavík 5 milljónir króna til áframhaldandi vinnu að skaðaminnkandi verkefnum í nafni Frú Ragnheiðar. Í samningi um fjárframlagið er meðal annars kveðið á um þjónustu alla daga vikunnar, fjölgun sjálfboðaliða og útgáfu bæklings um örugga sprautunotkun.

Frú Ragnheiður – skaðaminnkun er verkefni sem hefur það markmið að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu, eins og heimilislausra einstaklinga og fólks með fíknivanda. Frú Ragnheiður er sérinnréttaður gamall sjúkrabíll sem er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins á kvöldin, alla virka daga.

Heilbrigðisráðherra mun fela Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) að gera samning við Rauða krossinn í Reykjavík – Frú Ragnheiði um veitingu heilbrigðisþjónustu innan ramma verkefnisins. Í því felst að skjólstæðingum Frú Ragnheiðar verði meðal annars boðin skimun fyrir lifrarbólgu C og HIV-veirunni. Um er að ræða mikilvægt skref í vinnu heilbrigðisyfirvalda við að nálgast alla sem smitaðir eru af lifrarbólgu C hér á landi og veita þeim viðeigandi meðferð. Af öðrum verkefnum sem samningurinn mun taka til er meðhöndlun minniháttar sýkinga og að bjóða skjólstæðingunum kynheilbrigðisþjónustu með aðgengi að getnaðarvörnum, svo sem smokkum og getnaðarvarnarsprautum. Gerð samnings er háð því skilyrði að Frú Ragnheiður uppfylli skilyrði 26. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu.

Framantalin verkefni falla að tillögum um skaðaminnkandi áherslur sem fram koma í skýrslu heilbrigðisráðherra til Alþingis 30. ágúst sl. sem gerð var á grundvelli þingsályktunar og fjallar um endurskoðun stefnu í vímuefnamálum til að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu í íslensku samfélagi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum