Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. október 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Undirritun samnings vegna lögreglunáms á háskólastigi

Sigrún og Illugi undirrita - mynd
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, undirrituðu í vikunni samning milli ráðuneytisins og skólans vegna lögreglunáms á háskólastigi.

Í september síðastliðnum ákvað ráðherra að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri um kennslu og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða í kjölfar auglýsts ferlis um lögreglunám á háskólastigi.

Samningurinn er gerður á grundvelli 21. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 og 39. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, með áorðnum breytingum. Mun skólinn bjóða upp á tveggja ára diplómanám í lögreglufræðum í samráði við mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu, og allt að 40 nemendur útskrifast með starfsréttindi sem lögreglumenn.

Að mati ráðherra uppfyllti Háskólinn á Akureyri vel þær kröfur sem gerðar eru um gæði náms og aðbúnað til lögreglumenntunar og taldi ráðherra aðstæður við HA til þess fallnar að gera nemendum af landinu öllu kleift að leggja stund á lögreglunám. Að auki mun lögreglunámið við Háskólann á Akureyri skjóta styrkari stoðum undir fjölbreytta starfsemi við skólann.
Samningurinn gildir til 31. júlí 2020.

Á myndinni má sjá mennta- og menningarmálaráðherra og Sigrúnu Stefánsdóttur, sem ritaði undir samninginn fyrir hönd Háskólans á Akureyri.
Mynd: Þórgnýr Dýrfjörð

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum