Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. nóvember 2016 Forsætisráðuneytið

652/2016. Úrskurður frá 31. október 2016

Úrskurður

Hinn 31. október 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 652/2016 í máli ÚNU 14110006. 

Kæra og málsatvik

Með erindi þann 2. mars 2014 kærði A, fyrir hönd Brit Insurance Limited, Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., QBE International Insurance Ltd. og fleiri erlendra vátryggjenda, afgreiðslu Þjóðskjalasafns Íslands á beiðni kærenda um aðgang að gögnum. 

Upphafleg gagnabeiðni kærenda var dags. 5. apríl 2013 í 47 tölusettum liðum. Kærendur óskuðu meðal annars aðgangs að skýrslum 28 nafngreindra einstaklinga fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 7. október 2014, var tekin afstaða til skýrslna 16 þeirra, en fjallað var um skýrslur hinna 12 í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 588/2015 frá 28. ágúst 2015. Þjóðskjalasafn synjaði kærendum um aðgang að flestum skýrslnanna á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, 5. mgr. 17. gr. laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða nr. 142/2008, 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2008 og 1. og 2. mgr. 13. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. Þjóðskjalasafn byggði tilvísanir sínar til annarra ákvæða en 9. gr. upplýsingalaga á gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. laganna. Þá vísaði safnið frá beiðni um aðgang að tveimur skýrslum þar sem þær fyndust ekki. 

Í kæru kemur fram að Landsbanki Íslands hf. hafi höfðað nokkur dómsmál á hendur kærendum til greiðslu úr svokallaðri stjórnendatryggingu. Vátryggingartímabili tryggingarinnar hafi verið ætlað að vera frá 1. febrúar 2008 til 1. febrúar 2009. Landsbankinn hafi krafist greiðslu úr tryggingunni á þeim grundvelli að hún ætti að bæta tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna meintrar saknæmrar háttsemi fyrrverandi stjórnenda og starfsmanna hans. Kærendur hafi hins vegar alfarið hafnað gildi tryggingarinnar og allri ábyrgð á grundvelli hennar þar sem þeir hafi ekki verið upplýstir um misferli og margvísleg brot sem framin hefðu verið af hálfu Landsbankans og starfsmanna hans fyrir töku tryggingarinnar. Þar að auki hafi þeim verið veittar rangar upplýsingar um fjölda atriða í umsóknareyðublaði fyrir trygginguna. Kærendur segjast vinna að öflun gagna um framangreind atriði og hyggjast leggja þau fram í dómsmálunum sem áður var getið. 

Kærendur byggja beiðni sína á 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Að mati kærenda getur 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 ekki takmarkað afhendingarskyldu samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, þar sem um almennt þagnarskylduákvæði sé að ræða. Jafnvel þótt ákvæðið yrði talið sérstakt, andstætt almennri lögskýringu, telja kærendur það engu breyta þar sem gagnabeiðni þeirra varðaði Landsbankann sjálfan sem nú sé í slitameðferð. Í þessu samhengi vísa kærendur til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 758/2009. Þar komi fram að ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 sé ætlað að vernda persónulega og viðskiptalega hagsmuni þeirra er viðskipti eiga við fjármálafyrirtæki, ekki hagsmuni fyrirtækjanna sjálfra. Þar sem Landsbankinn sé í slitameðferð hafi bankinn enga hagsmuni af því að fyrri viðskipti fari leynt. Til viðbótar vísa kærendur einnig til dóma Hæstaréttar í málum nr. 191/2013, 356/2013, 412/2013, 413/2013 og 809/2013.  

Kærendur telja að 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 geti heldur ekki takmarkað skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að umbeðnum gögnum, enda sé ákvæðið undantekning frá meginreglu upplýsingalaga um afhendingarskylduna. Þá segi í ákvæðinu að takmarkanir þess varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Landsbankinn hafi hins vegar enga virka eða mikilvæga hagsmuni af leynd gagna um rekstur hans fyrir mörgum árum þar sem hann sé í slitameðferð. Sönnunarbyrði um annað hvíli á Þjóðskjalasafninu. 

Í kæru segir að rannsóknarnefnd Alþingis og fjölmiðlar hafi fjallað um flest eða öll umbeðin gögn. Hafi yfirleitt ríkt þagnarskylda um einhver þeirra geri hún það augljóslega ekki lengur af þessum sökum. Hins vegar þurfi kærendur engu að síður að fá afrit af frumgögnunum til að staðreyna efni þeirra og leggja fram sem sönnunargögn í dómsmálum. Af dómum Hæstaréttar megi ráða að það hafi þýðingu við mat á þagnarskyldu hvort upplýsingarnar hafi birst opinberlega. Kærendur færa fram andsvör við röksemdum Þjóðskjalasafns um einstakar skýrslur sem þeir kröfðust aðgangs að, en þau eru að mestu samhljóða málsástæðum kærenda sem þegar eru raktar. Um þær skýrslur sem Þjóðskjalasafn kvað ekki fyrirliggjandi segjast kærendur áskilja sér rétt til að kæra þann þátt málsins ef síðar komi fram upplýsingar sem benda til annars.  

Málsmeðferð

Kæran var send Þjóðskjalasafni Íslands til umsagnar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. nóvember 2014. Umsögn safnsins barst þann 2. desember 2014. Þar kemur fram að við afgreiðslu erindisins hafi Þjóðskjalasafn haft til hliðsjónar sjö úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem lúta að aðgangi að skýrslum einstaklinga fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 skuli færa gögn nefndarinnar á Þjóðskjalasafn og um aðgang að þeim fari samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.  

Í umsögninni er forsaga rannsóknarnefndar Alþingis og laga nr. 142/2008 rakin. Samkvæmt 8. gr. laganna var skylt að koma fyrir nefndina til skýrslutöku ef hún krafðist þess. Nefndin hafði því heimild til að fá aðgang að hvers kyns trúnaðarupplýsingum, en í athugasemdum í frumvarpi er varð að lögum nr. 142/2008 komi fram að þagnarskylda víki undantekningarlaust fyrir skyldu til að láta nefndinni í té upplýsingar. Að mati Þjóðskjalasafns eru ákvæði laganna um víðtæka skyldu einstaklinga til að láta í té upplýsingar til þess fallin að hafa áhrif á mat á því hvort sanngjarnt sé gagnvart einstaklingum, sem skýrslurnar veittu, að efni þeirra verði gert opinbert.  

Þjóðskjalasafn telur takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna koma í veg fyrir aðgang kærenda að skýrslunum, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Mat skýrslugjafa eða opinská umfjöllun hans um tiltekin atriði og svör við spurningum út frá eigin hyggjuviti eða upplifunum, þar sem trúnaði er heitið, telst einkamálefni hans að dómi Þjóðskjalasafns. Þá vekur safnið athygli á því að þagnarskylduákvæði 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki sé ætlað að vernda þriðja aðila, í þessu tilviki viðskiptamenn þeirra fyrirtækja sem skýrslugjafar störfuðu hjá. Ákvæðið sé sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga og gildi óháð því hvort annar lögaðili hafi tekið yfir réttindi og skyldur upphaflega aðilans. Þá breyti því heldur ekki hvort upplýsingarnar hafi verið birtar, beint eða óbeint, allt að einu sé Þjóðskjalasafninu óheimilt að veita aðgang að upplýsingum sem falla undir ákvæðið.  

Þjóðskjalasafn telur að rétt að benda á að í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 segi skýrt að heimilt sé við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem þagnarskyldan gildi annars um. Þessi undantekning gildi ekki við afgreiðslu Þjóðskjalasafnsins á beiðni kærenda. Loks vekur safnið athygli á dómi Hæstaréttar Íslands frá 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014, þar sem ekki hafi verið fallist á aðgang að skýrslum tiltekinna starfsmanna Seðlabanka Íslands fyrir rannsóknarnefnd Alþingis á grundvelli upplýsingalaga. 

Umsögn Þjóðskjalasafns var kynnt kærendum með bréfi dags. 3. desember 2014 og þeim veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 2. febrúar 2015. Kærendur ítrekuðu þá afstöðu sína að 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki og 13. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi teljist almenn þagnarskylduákvæði en ekki sérstök. Þá mótmæltu kærendur því að skýrslugjöfum fyrir rannsóknarnefnd Alþingis hafi verið heitið trúnaði, enda hafi hvergi komið fram að sú hafi verið raunin. Kærendur sögðust ósammála því að 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 eigi ekki við um gagnabeiðni sína. Hún hafi verið lögð fram í tilefni af einkamálum sem rekin séu á hendur þeim og skilyrði ákvæðisins væru því uppfyllt. Loks mótmæla kærendur því að dómur Hæstaréttar frá 2. júní 2014 í máli nr. 329/2014 hafi fordæmisgildi. Þagnarskylduákvæði laga um Seðlabanka Íslands sé alls ekki sambærilegt ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998. 

Með bréfum dags. 10. og 11. október 2016 óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu 14 þeirra einstaklinga, sem kæran lýtur að, til þess hvort þeir teldu eitthvað því til fyrirstöðu að því er varðar einkahagsmuni þeirra að veita kærendum aðgang að skýrslu þeirra fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Ekki tókst að óska eftir afstöðu eins þeirra. Alls bárust svör frá 13 skýrslugjöfum. Tólf lögðust gegn afhendingu skýrslu sinnar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis með vísan til þess að þær teldust til einka- og fjárhagsmálefna sinna. Þá kom fram að skýrslugjöfum hefði verið heitið trúnaði og þeir tekið mið af því við skýrslugjöfina. Af hálfu G kom fram að ekkert er varði einkahagsmuni hans sé því til fyrirstöðu að veita aðgang að skýrslu hans fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Með vísan til 1. og 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir óþarft að rekja efni svara skýrslugjafa frekar. Meðferð máls þessa hefur tafist óhæfilega vegna anna í störfum úrskurðarnefndar um upplýsingamál. 

Niðurstaða

1.

Mál þetta lýtur sem fyrr segir að lögmæti synjunar Þjóðskjalasafns Íslands á aðgangi kærenda að skýrslum sextán einstaklinga sem gefnar voru fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, nánar tiltekið: 

  1. Skýrsla B frá 15. október 2009.

  2. Skýrsla C frá 8. janúar 2010.

  3. Skýrsla D frá 23. október 2009.

  4. Skýrsla E frá 7. október 2009.

  5. Skýrslur F frá 6. nóvember og 30. desember 2009.

  6. Skýrsla G frá 9. nóvember 2009.

  7. Skýrsla H frá 12. maí 2009.

  8. Skýrsla I frá 23. september 2009.

  9. Skýrsla J frá 14. september 2009.

  10. Skýrsla K frá 23. september 2009.

  11. Skýrsla L og M frá 24. ágúst 2009.

  12. Skýrsla N frá 7. september 2009.

  13. Skýrsla O frá 5. október 2009.

  14. Skýrslur P frá 19. ágúst, 27. ágúst og 2. september 2009.

  15. Skýrsla Q frá 20. ágúst 2009. 

Kærendur byggja heimild sína til aðgangs að skýrslunum einkum á 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ákvörðun Þjóðskjalasafns byggir hins vegar á því að upplýsingaréttur kærenda samkvæmt ákvæðinu sé takmarkaður af 9. gr. laganna, auk þagnarskylduákvæða 58. gr. laga nr. 161/2002 og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd sinni litið á 58. gr. laga nr. 161/2002 og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 sem sérstök ákvæði um þagnarskyldu, og geti þau því takmarkað upplýsingarétt almennings samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, sbr. gagnályktun af 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna. Ákvæðin ber að skýra til samræmis við 9. gr. upplýsingalaga að því leyti sem ekki eru í þeim tilgreindar með beinum og skýrum hætti þær upplýsingar sem gæta ber trúnaðar um.  

Skýrslurnar urðu til við starfsemi rannsóknarnefndar Alþingis sem starfaði á grundvelli laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 142/2008 var öllum skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fór fram á. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. sömu laga var skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að veita upplýsingar þótt þær væru háðar þagnarskyldu. Í 1. mgr. 8. gr. var sérstaklega tekið fram að sérhverjum væri skylt að koma fyrir nefndina til skýrslutöku krefðist hún þess. Brot á þeirri skyldu að veita nefndinni upplýsingar gat skv. 11. gr. varðað refsingu.

Eins og kunnugt er skilaði rannsóknarnefnd Alþingis skýrslu sem gerð var opinber í samræmi við ákvæði IV. kafla laga nr. 142/2008 þar sem birtar voru upplýsingar sem fram komu við skýrslutökur og nefndin taldi nauðsynlegt að almenningur hefði aðgang að. Í 4. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að þagnarskylda nefndarmanna og þeirra er unnu að rannsókninni stæði því ekki í vegi að rannsóknarnefndin gæti birt upplýsingar sem annars teldust háðar þagnarskyldu, ef nefndin teldi slíkt nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður sínar. Í  ákvæðinu kemur fram að nefndin skyldi því aðeins birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þ.m.t. fjármál þeirra, að verulegir almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vægju þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut ætti.

Framangreind ákvæði laga nr. 142/2008 mæla fyrir um víðtækar skyldur einstaklinga til að láta rannsóknarnefnd Alþingis í té upplýsingar og eru til þess fallin að hafa áhrif á mat á því hvort sanngjarnt sé, gagnvart þeim einstaklingum sem skýrslurnar veittu, að efni þeirra verði gert opinbert.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur dregið þá ályktun af öðrum málum sem lotið hafa að skýrslugjöf fyrir rannsóknarnefndinni að þeim einstaklingum sem gáfu skýrslur fyrir rannsóknarnefndinni hafi gjarnan verið heitið trúnaði um upplýsingagjöf þeirra. Þótt þetta atriði standi ekki eitt og út af fyrir sig í vegi fyrir aðgangi almennings að skýrslunum telur úrskurðarnefndin að við mat á því, hvort aðgangur skuli veittur að tilteknum upplýsingum, geti það haft áhrif ef þær hafi verið gefnar í trúnaði og þá einkum þegar ætla megi að loforð stjórnvalds um trúnað hafi haft áhrif á upplýsingagjöf og það hvernig þeir einstaklingar sem í hlut áttu völdu að tjá sig um þá þætti er þeir voru spurðir um.  

2.

Verður nú vikið nánar að hinum umbeðnu skýrslum og komist að niðurstöðu um það hvort efni þeirra sé þess eðlis að takmarka beri aðgang að þeim með vísan til framanrakinna ákvæða um þagnarskyldu. 

Skýrsla B er dagsett 15. október 2009 og er 20 blaðsíður að lengd. B var [...] haustið 2008. Í skýrslunni ræðir hann almennt um viðskipti bankans fram að efnahagshruni, stöðu bankans á markaði og lýsir sýn sinni á íslensk og alþjóðleg efnahagsmál. Fram koma lýsingar á samskiptum hans við samstarfsmenn innan bankans, samskiptum og viðskiptum bankans við önnur fjármálafyrirtæki og stjórnvöld og upplýsingar um kaupréttarsamninga starfsmanna bankans. Á stöku stað lýsir hann viðskiptum og stöðu tilgreindra viðskiptamanna bankans. Fallist er á það með Þjóðskjalasafni að efni skýrslunnar teljist einkamálefni B í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá er að finna í skýrslunni upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild og verður Þjóðskjalasafni því ekki gert að veita kærendum aðgang að henni að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.  

Skýrsla C er dagsett 8. janúar 2010 og er 51 blaðsíða að lengd. C var [...] haustið 2008. Í skýrslunni rekur C aðkomu sína að rekstri Landsbankans og stöðu bankans frá einkavæðingu og fram að hruni með ítarlegum hætti, samskiptum sínum við starfsmenn bankans, stjórnendur annarra fjármálafyrirtækja og íslensk og erlend stjórnvöld. Á stöku stað er að finna upplýsingar um viðskipti tiltekinna viðskiptamanna bankans. Fallist er á með Þjóðskjalasafni að efni skýrslunnar teljist einkamálefni C í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá er að finna í skýrslunni upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild.

Skýrsla D er dagsett 23. október 2009 og er 27 blaðsíður að lengd. D var [...] haustið 2008. Hún ræðir um hlutabréfaviðskipti [...], vöxt þeirra og önnur atriði í starfsemi Landsvaka fram til haustsins 2008. Á stöku stað koma viðskipti viðskiptamanna Landsvaka til umfjöllunar. Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að efni skýrslunnar teljist til einkamálefna D í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá er að finna í skýrslunni upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

Skýrsla E er dagsett 7. október 2009 og er 18 blaðsíður að lengd. E var [...] haustið 2008 og var ráðinn [...] 2008. Efni skýrslunnar lýtur einkum að starfsemi síðarnefnda félagsins og aðgerðum í rekstri þess veturinn 2008-2009. Í skýrslunni er viðskiptum sjóða Landsvaka lýst, samskiptum E við samstarfsmenn, stjórnvöld og aðra og upplifun hans af starfseminni. Þá er málefnum viðskiptamanna Landsvaka lýst á stöku stað. Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að efni skýrslunnar teljist til einkamálefna E í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá er að finna í skýrslunni upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

Skýrsla F er dagsett 6. nóvember 2009 og er 19 blaðsíður að lengd. F var [...] haustið 2008 og [...]. Skýrslan lýtur einkum að starfsemi síðarnefnda félagsins. F lýsir stöðu og starfsemi Landsvaka, fjárfestingarstefnu sjóða félagsins, samskipti við stjórnvöld, þar á meðal Fjármálaeftirlitið og aðgerðir í aðdraganda og kjölfar efnahagshrunsins. Á stöku stað koma til umfjöllunar málefni einstakra viðskiptamanna Landsvaka. Í skýrslu F, dags. 30. desember 2009, sem er einnig 19 blaðsíður að lengd, er rætt um viðskipti, starfsemi og aðgerðir Landsbankans í alþjóðlegu samhengi í aðdraganda efnahagshrunsins. Umfjöllun um viðskipti og hagsmuni tiltekinna viðskiptamanna bankans er óveruleg. Fallist er á með Þjóðskjalasafni að efni skýrslnanna teljist einkamálefni F í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá er að finna í skýrslunni dags. 6. nóvember 2009 upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslnanna og samhengis eiga takmarkanir á aðgangi við um þær í heild. 

Skýrsla G er dagsett 9. nóvember 2009 og er 10 blaðsíður að lengd. G var [...] haustið 2008. Í skýrslunni ræðir G um viðskipti bankans í aðdraganda efnahagshrunsins, einkum við erlend fjármálafyrirtæki. Af hálfu G hefur komið fram að hann samþykki að almenningi verði veittur aðgangur að skýrslunni, sbr. 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Hins vegar hefur skýrslan að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni gamla Landsbankans og annarra lögaðila, sbr. 2. málsl. ákvæðisins. Þá er að finna í skýrslunni upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

Skýrsla H er dagsett 12. maí 2009 og er 76 blaðsíður að lengd. H var [...] haustið 2008. Í skýrslunni lýsir H upplifun sinni af aðdraganda erfiðleika og falls íslensku bankanna á opinskáan hátt, þrengingum á markaði og aðgerðum og viðskiptum sem bankinn framkvæmdi, samskiptum sínum við starfsmenn bankans, íslensk og erlend stjórnvöld og fulltrúa þeirra og málefni ýmissa tiltekinna viðskiptamanna bankans. Fallist er á það með Þjóðskjalasafni að efni skýrslunnar teljist einkamálefni H í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá er að finna í skýrslunni upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild og verður Þjóðskjalasafni því ekki gert að veita kærendum aðgang að henni að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.  

Skýrsla I er dagsett 23. september 2009 og er 54 blaðsíður að lengd. I var [...] haustið 2008. Í skýrslunni lýsir I upplifun sinni á starfsemi og stjórn Landsvaka, sjóðum og vexti þeirra, sambandi Landsvaka við Landsbanka og hlutverki sjóðsstjóra. Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að efni skýrslunnar teljist til einkamálefna I í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá er að finna í skýrslunni upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

Skýrsla J er dagsett 14. september 2009 og er 29 blaðsíður að lengd. J gegndi starfi [...] haustið 2008. Í skýrslunni ræðir J um starfsemi Landsbankans þar í landi, samskipti við erlend stjórnvöld og viðskipti og málefni einstakra viðskiptamanna bankans. Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að efni skýrslunnar teljist til einkamálefna J í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá er að finna í skýrslunni upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

Skýrsla K er dagsett 23. september 2009 og er 18 blaðsíður að lengd. K var [...] haustið 2008. Í skýrslunni er að finna umfjöllun um kaupréttarsamninga starfsmanna, þróun á íslenskum hlutabréfamarkaði í aðdraganda efnahagshrunsins og málefni tiltekinna viðskiptamanna bankans. Loks lýsir K eigin fjárhagsstöðu í skýrslunni. Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að efni skýrslunnar teljist til einkamálefna hans í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá er að finna í skýrslunni upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

L og M gáfu skýrslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis þann 24. ágúst 2009 og er skýrslan 11 blaðsíður að lengd. Haustið 2008 var L [...] og M [...]. Í skýrslunni eru þeir spurðir um fundi í fjármálanefnd Landsbankans. Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að efni skýrslunnar teljist til einkamálefna þeirra L og M í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

Skýrsla N er dagsett 7. september 2009 og er 21 blaðsíða að lengd. N gegndi starfi [...] haustið 2008. N ræðir hlutverk og starfsskyldur [...] og starfsemi bankans frá hans sjónarhorni. Á einum stað ræðir N um málefni tiltekins viðskiptamanns bankans. Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að efni skýrslunnar teljist til einkamálefna N í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá er að finna í skýrslunni upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

Skýrsla O er dagsett 5. október 2009 og er 174 blaðsíður að lengd. O var [...] haustið 2008. Í skýrslunni er starfsemi stofnunarinnar í aðdraganda efnahagshrunsins lýst með ítarlegum hætti. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál fellur efni skýrslunnar undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998. Þá er einnig að finna upplýsingar sem teljast til einkamálefna O í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

Skýrslur P eru dagsettar 19. ágúst, 27. ágúst og 2. september 2009 og eru 142, 157 og 196 blaðsíður að lengd. P var [...] haustið 2008. Í skýrslunum lýsir P starfsemi bankans í aðdraganda efnahagshrunsins með ítarlegum hætti, innri málefnum bankans, aðstæðum í íslenskum efnahagsmálum, samskiptum sínum við starfsmenn bankans og annarra fjármálafyrirtækja og stjórnvöld. Þá er vikið að málefnum tiltekinna viðskiptamanna bankans. Fallist er á með Þjóðskjalasafni að efni skýrslunnar teljist til einkamálefna P í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 að teknu tillit til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá falla hlutar skýrslunnar undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

Skýrsla Q er dagsett 20. ágúst 2009 og er 106 blaðsíður að lengd. Q var [...] haustið 2008. Í skýrslunni ræðir Q um starfsemi bankans í aðdraganda efnahagshrunsins, samskipti sín við samstarfsmenn og stjórnvöld. Á stöku stað koma málefni einstakra viðskiptamanna bankans til umfjöllunar. Fallist er á það með Þjóðskjalasafni að efni skýrslunnar teljist til einkamálefna Q í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tillit til þeirrar lagaumgjarðar sem gilti um skýrslugjöfina. Þá falla hlutar skýrslunnar undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að staðfesta beri synjun Þjóðskjalasafns Íslands á aðgangi kærenda að umbeðnum skýrslum í heild. 

Úrskurðarorð:

Synjun Þjóðskjalasafns Íslands á beiðni Brit Insurance Limited, Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., QBE International Insurance Ltd. og fleiri erlendra vátryggjenda um aðgang að eftirfarandi skýrslum er staðfest: 

  1. Skýrslu B frá 15. október 2009.

  2. Skýrslu C frá 8. janúar 2010.

  3. Skýrslu D frá 23. október 2009.

  4. Skýrslu E frá 7. október 2009.

  5. Skýrslum F frá 6. nóvember og 30. desember 2009.

  6. Skýrslu G frá 9. nóvember 2009.

  7. Skýrslu H frá 12. maí 2009.

  8. Skýrslu I frá 23. september 2009.

  9. Skýrslu J frá 14. september 2009.

  10. Skýrslu K frá 23. september 2009.

  11. Skýrslu L og M frá 24. ágúst 2009.

  12. Skýrslu N frá 7. september 2009.

  13. Skýrslu O frá 5. október 2009.

  14. Skýrslum P frá 19. ágúst, 27. ágúst og 2. september 2009.

  15. Skýrslu Q frá 20. ágúst 2009. 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum