Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. nóvember 2016 Forsætisráðuneytið

657/2016. Úrskurður frá 31. október 2016

Úrskurður

Hinn 31. október 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 657/2016 í máli ÚNU 16010008.  

Kæra og málsatvik

Með erindi er barst 20. janúar 2016 kærði A afgreiðslu sýslumannsins í Vestmannaeyjum á beiðni hans um aðgang að upplýsingum um fjölda þinglýstra húsaleigusamninga og kaupsamninga um húsnæði á tilteknu tímabili, þ.e. frá árinu 2011 til 1. desember 2015.  

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 11. janúar 2016, segir að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skuli sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Í 3. mgr. sömu greinar segi að vísa megi beiðni frá ef ekki sé talið mögulegt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum telji sér því ekki skylt að veita upplýsingar samkvæmt fyrsta og öðrum lið beiðni kæranda, enda afmarkist beiðnin ekki við tiltekið mál eða gögn sem hægt sé að afmarka og afla upplýsinga um án verulegrar fyrirhafnar. Um aðra liði beiðninnar kom fram að sýslumaðurinn hefði umbeðnar upplýsingar ekki í vörslum sínum. Gögn málsins bera með sér að þeir liðir hafi verið áframsendir Þjóðskrá Íslands, sem hafi svarað öllum liðum upphaflegu beiðninnar með bréfi dags. 20. janúar 2016. Í kæru segir að kærandi leggi fyrsta og annan lið ákvörðunar sýslumannsins í Vestmannaeyjum í úrskurð nefndarinnar. 

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 21. janúar 2016 var kæran kynnt sýslumanninum í Vestmannaeyjum og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. 

Í umsögn sýslumannsins, dags. 27. janúar 2016, segir að til þess af afla svara við fyrirspurnum er komu fram í fyrsta og öðrum lið beiðni kæranda hefði þurft að fara handvirkt yfir hvert einasta skjal sem móttekið hefur verið til þinglýsingar frá árinu 2010 til 1. desember 2016 og því sé ómögulegt án verulegrar fyrirhafnar að veita svör við fyrirspurnunum. Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að beiðni kæranda er skýr og hefur sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hvorki veitt kæranda leiðbeiningar né gefið honum færi á að afmarka beiðni sína nánar. Að mati nefndarinnar er því ekki hald í þeirri málsástæðu sýslumannsins að ekki hafi verið unnt að afgreiða beiðni kæranda á grundvelli 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. 

Af hálfu sýslumannsins í Vestmannaeyjum hefur hins vegar komið fram að ekki séu fyrirliggjandi upplýsingar um fjölda þinglýstra húsaleigusamninga eða kaupsamninga um íbúðarhúsnæði, sem þinglýst var á tímabilinu sem beiðni kæranda laut að. Af áskilnaði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir að almenningur á rétt til upplýsinga í fyrirliggjandi gögnum í vörslum stjórnvalda, en stjórnvöldum er hvorki skylt að útbúa ný skjöl né taka saman tölulegar upplýsingar úr skjölum sínum sínum samkvæmt lögunum. Samkvæmt framangreindu tók beiðni kæranda samkvæmt fyrsta og öðrum lið til upplýsinga sem upplýsingaréttur almennings samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 nær ekki til og verður kæru hans vísað frá af þeirri ástæðu. 

Úrskurðarorð:

Kæru A vegna afgreiðslu sýslumannsins í Vestmannaeyjum, á beiðni um upplýsingar um þinglýsta húsaleigusamninga og kaupsamninga um húsnæði frá árinu 2011 til 1. desember 2015, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum