Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. nóvember 2016 Utanríkisráðuneytið

Ísland fái að nota nafnið sitt

Lýðveldið Ísland - mynd

Utanríkisráðuneytið hefur gripið til lagalegra aðgerða gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods, sem hefur um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu við markaðssetningu í Evrópu á vörum sínum og þjónustu. Auk ráðuneytisins hafa Íslandsstofa og Samtök atvinnulífsins undirbúið málaferlin.  

Breska fyrirtækið hefur einkarétt á orðmerkinu ICELAND í öllum löndum Evrópusambandsins, samkvæmt ákvörðun þeirrar stofnunar innan ESB sem annast vörumerkjaskráningar (EUIPO).  Íslensk stjórnvöld krefjast þess að einkaleyfið verði ógilt, enda sé það of víðtækt og komi í veg fyrir að íslenskir aðilar geti vísað til landfræðilegs uppruna síns.

Verslunarkeðjan hefur ítrekað kvartað til evrópskra yfirvalda yfir íslenskum aðilum sem nota orðið ICELAND sem hluta af vörumerki sínu. Aðgerðir verslunarkeðjunnar hafa m.a. bitnað á markaðsátakinu Inspired by Iceland, en undir þeim hatti hefur Ísland verið markaðssett sem spennandi áfangastaður fyrir ferðamenn. 

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra:„Það er bæði sanngjarnt og eðlilegt að íslenskir aðilar geti vísað til upprunalandsins ef þeir kjósa svo í markaðsstarfi sínu erlendis. Í huga neytenda víða um heim er ímynd Íslands mjög jákvæð og í því felast mikil tækifæri fyrir land og þjóð.Tilraunir okkar til að semja um sanngjarna lausn á vandanum hafa engu skilað og okkur er því nauðugur sá kostur að leita réttar okkar með formlegum hætti hjá viðeigandi stofnunum Evrópusambandsins. Ég er vongóð um að niðurstaðan verði jákvæð.”

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum